Hoppa yfir valmynd
4. maí 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi

Fulltrúar úr starfshópnum ásamt heilbrigðisráðherra í velferðarráðuneytinu - myndVelferðarráðuneytið

Starfshópur sem unnið hefur tillögur að aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi kynnti heilbrigðisráðherra niðurstöður sínar á fundi í velferðarráðuneytinu í gær. Embætti landlæknis var falið í september sl. að skipa starfshópinn á grundvelli þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

Starfshópurinn hafði það hlutverk að fara yfir gagnreyndar aðferðir til að fækka sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum ungmenna og velja leiðir til að innleiða hérlendis.

Tíðni sjálfsvíga hér á landi er lægst meðal unglinga en annars svipuð yfir öll fullorðinsárin og því beindi starfshópurinn sjónum að æviskeiðinu í heild. Það er m.a. mat hópsins að mikilvægt sé að komið verði á fót föstum vettvangi fyrir uppbyggingu þekkingar og þróunar úrræða og að nýta beri þá umfangsmiklu þverfaglegu og þverstofnanalegu vinnu sem hefur þegar farið fram hér á landi á undanförnum árum og áratugum við að efla geðheilsu og geðheilbrigðisþjónustu.

Aðgerðaáætlun starfshópsins er viðamikil og snúa tillögur hans til stjórnvalda um aðgerðir að eftirfarandi þáttum:

  1. Eflingu geðheilsu og seiglu í samfélaginu,
  2. Gæðaþjónustu á sviði geðheilbrigðismála,
  3. Takmörkun á aðgengi að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum,
  4. Aðgerðum til að draga úr áhættu meðal sérstakra áhættuhópa,
  5. Stuðningi við eftirlifendur,
  6. Eflingu þekkingar á sviði sjálfsvíga og sjálfsvígsforvarna.

Sigrún Daníelsdóttir verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis og formaður hópsins mun kynna aðgerðaáætlunina í dag föstudaginn 4. maí á málþingi geðssviðs Landspítala um sjálfsvígsforvarnir. Málþingið fer fram á Hótel Sögu - Súlnasal og stendur frá kl. 13. - 16.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta