Dregið úr áhrifum tekna lífeyrisþega á bætur
Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, og Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra kynntu blaða-og fréttamönnum í dag að ríkisstjórnin legði til að frumvarpi um almannatryggingar og málefni aldraðra yrði breytt í þremur atriðum.
Í fyrsta lagi er lagt til að elli- og örorkulífeyrisþegar geti dreift fjármagnstekjum og tekjum af séreignarlífeyrissparnaði sem greiddur er út í einu lagi til þess að draga úr skerðingu bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Gert er ráð fyrir að lífeyrisþegar geti óskað eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að tekjum sem hér um ræðir og koma til skerðingar bóta megi dreifa á allt að tíu ár.
Í öðru lagi er lagt til að elli- og örorkulífeyrisþegar geti valið á milli 300 þúsund króna frítekjumarks atvinnutekna og þess að láta 60 af hundraði atvinnutekna koma til skerðingar við útreikning tekjutryggingar. Hvoru tveggja dregur úr skerðingu bóta vegna atvinnutekna lífeyrisþega og hvoru tveggja hvetur lífeyrisþega til þess áfram að vera virkir á vinnumarkaði. Í dag hafa örorkulífeyrisþegar þá sérreglu að einungis 60% af atvinnutekjum eru taldar með í útreikningum á greiðslu tekjutryggingar. Með breytingunni fá þeir örorkulífeyrisþegar einnig 300 þúsund króna frítekjumark á atvinnutekjur eftir því hvort það er hagstæðara en 60% reglan.
Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að flýta gildistöku 300 þúsund króna frítekjumarks atvinnutekna lífeyrisþega þannig að það taki gildi 1. janúar 2007. Einnig er gert ráð fyrir að flýta gildistöku ákvæða um aðgreiningu á tekjum maka og lífeyrisþega um tvö ár, en þessi aðgreining miðast við að draga úr áhrifum tekna maka á bótagreiðslur lífeyrisþega. Þannig er gildistaka þess að draga úr áhrifum tekna maka á bótagreiðslur færð fram um tvö ár, eða frá árunum 2009 og 2010 til áranna 2007 og 2008 og tekur fyrri áfanginn strax gildi 1. janúar 2007.
Kostnaðurinn við breytinguna á árinu 2007 er um 275 milljónir króna, en kostnaðurinn við að draga úr áhrifum tekna maka á bætur lífeyrisþegans og að flýta gildistöku breytingarinnar verður um 1200 milljónir króna á árunum 2007 til 2009.