Hoppa yfir valmynd
21. desember 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Reglugerð um greiðslur þeirra sem eru ótryggðir

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur breytt reglugerð sem ákvarðar greiðslur fyrir veitta heilbrigðisþjónustu til þeirra sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi. Reglugerðin tekur mið af ESB-reglum um almannatryggingar sem hafa verið innleiddar hér á landi og Norðurlandasamningi um almannatryggingar. Reglugerðin tók fyrst gildi um mitt ár í fyrra og tekur fyrst og fremst til útlendinga og annarra sem ekki hafa fasta búsetu á Íslandi en fá hér heilbrigðisþjónustu.

Reglugerðin tekur til framkvæmdar hjá TR og heilbrigðisþjónustu hins opinbera þegar einstaklingar sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi þarfnast aðstoðar og eiga rétt til nánari tilgreindrar aðstoðar hér á landi í samræmi við ákvæði milliríkjasamninga um almannatryggingar. Einnig tekur reglugerðin til aðstoðar og gjaldtöku vegna einstaklinga sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi og enginn milliríkjasamningur er fyrir hendi. Reglugerðin kveður á um að óheimilt sé að taka hærra eða annað gjald en tilgreint er í reglugerðinni.

Helstu breytingar reglugerðarinnar eru þessar:

  • Öll komugjöld vegna þeirra sem ekki eru sjúkratryggðir hækka um 10,5% og svarar hækkunin til hækkunar neysluverðsvísitölu frá maí 2005.
  • Komugjöld þeirra sem ekki eru sjúkratryggðir á heilsugæslustöðvar hækka í 4.100* krónur. Gjaldið var 4.000, - krónur. Hækkunin miðast við kostnaðarmat.
  • Ákvæði er varðar samning Landspítala - háskólasjúkrahúss við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um aðstoð og gjaldtöku fyrir ósjúkratryggða liðsmenn Bandaríkjanna er fellt úr reglugerðinni.
  • Fellt er úr reglugerðinni ákvæði um gjald vegna krabbameinsleitar í leghálsi og brjóstum kvenna á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Miðast gjaldið nú við komugjald til sérfræðilæknis annars vegar sem er 2.200 krónur og til viðbótar 100% af umsömdu eða ákveðnu heildarverði við komuna og gjald fyrir geisla- og myndgreiningu hins vegar. Gjald fyrir myndgreiningu er 2.200 krónur og til viðbótar 100% af umsömdu eða ákveðnu heildarverði við greininguna.

Kostnaður Landspítala – háskólasjúkrahúss vegna ósjúkratryggðra á árinu 2005 var um 188 milljónir króna mestur vegna fólks sem lagt var inn á spítalann. Kostnaðurinn er innheimtur hjá sjúklingum, eða í gegnum Tryggingastofnun ríkisins, í samræmi við milliríkjasamninga um almannatryggingar. Ekki hefur þurft að afskrifa mikið af þessum kröfum undanfarið. Sjúkrahúsið áætlar að þurfa að afskrifa fjárhæð á bilinu 5-8 milljónir króna vegna ársins 2005.

* Leiðrétting: Hér hafði misritast að við breytingu reglugerðar 1076/2006 yrði almennt komugjald þeirra sem ekki eru sjúkrartryggðir 6.100 kr. Hið rétta er að gjaldið hækkaði í 4.100 kr. og byggir hækkunin á þróun verðlags og launa. Komugjald utan dagvinnutíma er 6.100 kr. Sjá nánar 16. gr. reglugerðarinnar.




Uppfært 7. mars 2007

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta