Mál nr. 224/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 224/2016
Fimmtudaginn 8. desember 2016
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.
Með kæru, dags. 13. júní 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. mars 2016, um innheimtu ofgreiddra bóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi þáði atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun á tímabilinu 1. júlí 2015 til 31. desember 2015. Við eftirlit með greiðslum atvinnuleysisbóta í mars 2016 kom í ljós að kærandi hafði verið með opna launagreiðendaskrá á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. mars 2016, var óskað eftir gögnum frá kæranda vegna sjálfstæðrar starfsemi hennar. Í kjölfarið bárust skýringar frá kæranda og með bréfi, dags. 15. mars 2016, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 882.935 kr. fyrir framangreint tímabil.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 14. júní 2016. Með bréfi, dags. 15. júní 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 29. júní 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hún hafi verið með rekstur á eigin kennitölu árið 2014 áður en hún hafi farið í fæðingarorlof. Að loknu fæðingarorlofi hafi hún verið launamaður í sex mánuði og svo orðið atvinnulaus. Áður en kærandi hafi farið í fæðingarorlof hafi hún lagt reksturinn niður og ekki vitað betur en að hún hafi gert það að öllu leyti. Hún hafi ekki vitað að hún væri með opna launagreiðendaskrá þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur, enda hafi hún hvorki verið að nota hana né ætlað sér það.
Kærandi vísar til þess að á yfirliti frá Ríkisskattstjóra komi fram að hún hafi ekki haft neinar tekjur í gegnum launagreiðendaskrána árið 2015 nema fyrir tilfallandi vinnu í desember 2015. Sú vinna hafi uppfyllt allar reglur Vinnumálastofnunar um tilfallandi vinnu atvinnuleitanda og kærandi hafi lagt sig fram um að veita stofnuninni allar upplýsingar um þá vinnu og öll verkefni á meðan hún hafi verið á atvinnuleysisskrá. Kærandi fer því fram á að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og þar með krafa um endurgreiðslu ofgreiddra bóta.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til 18. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið sé á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í f- og g-lið ákvæðisins komi fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur þurfi að hafa stöðvað rekstur og lagt fram staðfestingu þess efnis til að eiga rétt til atvinnuleysistrygginga. Í 20. gr. laganna segi að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist hafa stöðvað rekstur eftir að hafa tilkynnt til launagreiðendaskrá að hann hafi stöðvað rekstur. Þá segi í 21. gr. laganna að staðfesting á stöðvun reksturs skuli fela í sér yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð annars vegar og afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður hins vegar.
Vinnumálastofnun tekur fram að af ofangreindum ákvæðum sé ljóst að aðili sem sé með opinn rekstur, þ.e. opna launagreiðendaskrá, geti ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta. Fyrir liggi að kærandi hafi verið með opna launagreiðendaskrá frá því að hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur 29. júní 2015. Þrátt fyrir að kærandi hafi talið að hún hefði verið búin að loka rekstri sínum á þeim tíma væri stofnuninni óheimilt að greiða henni atvinnuleysisbætur á meðan almenn skilyrði fyrir greiðslum væru ekki uppfyllt.
Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 54/2006 frá umsóknardegi telji Vinnumálastofnun sér skylt að krefja hana um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta í samræmi við 39. gr. laganna. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna, en skuldin nemi 882.935 kr.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 882.935 kr.
Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.
Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslu atvinnuleysisbóta 29. júní 2015 sem launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006. Í 13. gr. laganna er kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna, en eitt af þeim er að hafa verið launamaður á ávinnslutímabili samkvæmt 15. gr. í starfi sem ekki sé hluti af sérstökum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó V. kafla laganna. Samkvæmt 15. gr. laganna telst launamaður að fullu tryggður eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í fæðingarorlofi á tímabilinu 17. júlí 2014 til 31. desember 2014 og launamaður á tímabilinu 1. janúar 2015 til 1. júní 2015. Umsókn kæranda var því samþykkt og þáði hún atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun á tímabilinu 1. júlí 2015 til 31. desember 2015.
Vinnumálastofnun fór fram að kærandi myndi endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún hafði þegið á framangreindu tímabili á þeirri forsendu að hún hafi verið með opna launagreiðendaskrá. Afstaða Vinnumálastofnunar er þannig á því byggð að kærandi hafi verið sjálfstætt starfandi og því borið að leggja fram staðfestingu á stöðvun rekstrar með umsókn sinni um atvinnuleysisbætur.
Í 18. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Eitt af þeim er að hafa verið sjálfstætt starfandi einstaklingur á ávinnslutímabili samkvæmt 19. gr. laganna. Samkvæmt 19. gr. laganna telst sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., að fullu tryggður eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein og tryggingargjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi verið með rekstur á eigin kennitölu á árinu 2014 áður en hún hafi farið í fæðingarorlof. Við upphaf fæðingarorlofsins hafi hún lagt reksturinn niður og ekki vitað betur en að hún hafi gert það að öllu leyti. Með vísan til þess sem að framan greinir um ávinnslutímabil 15. og 19. gr. laga nr. 54/2006 verður ekki séð að kærandi hafi uppfyllt skilyrði þess að öðlast rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta sem sjálfstætt starfandi einstaklingur.
Af hálfu Vinnumálastofnunar er á því byggt að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 54/2006 frá því að hún sótti um atvinnuleysisbætur þann 29. júní 2015 þar sem hún verið með opna launagreiðendaskrá. Vinnumálastofnun hafi því ekki verið heimilt að greiða kæranda atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. júlí 2015 til 31. desember 2015 og sé skylt að krefja hana um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna.
Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:
„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“
Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 sagði meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:
„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.
Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“
Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að slíkt eigi við í tilviki kæranda, enda ljóst að umsókn hennar var samþykkt á þeirri forsendu að hún væri launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun hafi verið óheimilt að endurkrefja kæranda um þær atvinnuleysisbætur sem hún þáði á tímabilinu 1. júlí 2015 til 31. desember 2015 að fjárhæð 882.935 kr. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. mars 2016, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 882.935 kr. er felld úr gildi.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson