Hoppa yfir valmynd
28. mars 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 51/2005

Þriðjudaginn, 28. mars 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 2. desember 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 26. nóvember 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 1. nóvember um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Hefur verið hafnað um fæðingarstyrk vegna þess að ég skilaði ekki 75% námsárangri. Ástæðan fyrir því að ég skilaði ekki betri árangri er sú að ég veiktist vorið 2005 og gat ekki mætt í prófin af þeim sökum. Ég var enn veikur þegar að upptökuprófum kom í

Ég vil ítreka að námið hjá mér á síðasta námsári var þannig uppbyggt að einungis var prófað í einu fagi á áramótum, 15 ECTS einingar, sem ég lauk. Aðrir áfangar voru heilsárs áfangar. Í þeim var prófað í maí og júní 2005. Af þeim áföngum lauk ég einum sem einnig var 15 ECTS einingar. Vegna veikinda minna tókst mér ekki að ljúka hinum tveimur. Boðið var upp á upptöku- og sjúkrapróf í ágúst. Á þeim tíma var ég enn veikur og fór því ekki í prófin. Meðfylgjandi er læknisvottorð.

Þegar veikindi herja á námsmenn eiga þeir enga möguleika á að taka próf. Hvort sem er að veikindi eigi sér stað á undirbúningstíma prófs eða á prófatímabilinu sjálfu. Líkt og hver annar maður sem vinnur fullan vinnudag, 5 daga vikunnar, þá geta námsmenn veikst. Veikindi eiga ekki að svipta þeim rétti til að hljóta fæðingarstyrk, frekar en það sviptir þá sem vinna hefðbundna vinnu. Ég tel mig eiga rétt á fæðingastyrk eins og námsmenn eiga að fá, vottorð verður lagt fram með kærunni sem mun þá sýna fram á að ég hafi verið veikur.

Að vísu verður að segjast eins og er að það er nú ekki í neinum atvinnugeira farið fram á 75% árangur í starfi svo að menn fái fæðingarorlof. (Hugsanlega farið fram á 75% mætingu en hana get ég líka sýnt fram á í mínu námi). Þess vegna er þessi klausa um 75% árangur bæði vitlaus og mjög ósanngjörn. Atvinnulausir eiga rétt á fæðingarstyrk. Þurfa þeir að sýna fram á 75% árangur í atvinnuleysi til að fá styrkinn?“

Með bréfi, dagsettu 30. janúar 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 16. febrúar 2006. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 9. september 2005, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í þrjá mánuði vegna barnsfæðingar, sem áætluð var 29. september 2005. Umsókninni fylgdi hluti af mæðraeftirlitsskýrslu, yfirlýsing Lánasjóðs íslenskra námsmanna um nám, dags. 15. ágúst 2005 og staðfesting á réttleysi kæranda til fæðingarorlofsgreiðslna í B-landi, dags. 9. ágúst 2005.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 12. október 2005, var óskað eftir frekari gögnum frá kæranda. Þann 26. október 2005 bárust lífeyristryggingasviði afrit af fæðingarvottorði barns kæranda, dags. 12. október 2005 og námsferilsyfirliti kæranda við D-háskólann skólaárið 2004-2005.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 1. nóvember 2005, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði um fullt nám.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann 4. október 2005 og því er, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, hvort tveggja hægt að líta annars vegar til náms hans á haustönn 2004 og vorönn 2005 eða náms hans á vorönn 2005 og haustönn 2005.

Samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja mun almennt vera miðað við að 100% nám við D-háskólann sé 60 ects á einu skólaári, eða 30 ects á haustmisseri og 30 ects á vormisseri. Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram var hann skráður í nám til 60 ects skólaárið 2004-2005. Hann lauk námskeiði til 15 ects í janúar 2005 og öðru námskeiði til 15 ects í júní 2005. Þá féll hann í námskeiði til 15 ects í júní 2005, sem hann skráði sig síðan úr í ágúst 2005 og féll í öðru námskeiði til 15 ects í ágúst 2005. Var námsárangur hans skólaárið 2004-2005 því 50%. Þá verður ekki ráðið af framlögðum gögnum að kærandi hafi verið skráður í ný námskeið á haustmisseri 2005.

Með hliðsjón af námsframvindu kæranda var það mat lífeyristryggingasviðs að kærandi uppfyllti ekki framangreind skilyrði um fullt nám.

Nokkrar undanþáguheimildir er að finna frá skilyrðinu um fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Þannig er samkvæmt 8. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 9. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 19. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Þá segir í 19. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 18. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getið stundað nám á meðgöngu vegna skilgreindra heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í fullt nám og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hefði átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðinu um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda var ekki talið að nokkur þessara undanþáguheimilda, frá skilyrðinu um að foreldri skuli hafa verið í 75–100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ætti við um aðstæður kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 20. febrúar 2006, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 3. mars 2006, þar segir meðal annars:

„Undirritaður hefur nú sent gögn sem sýna að hann lauk 15 ects einingum á vorönn 2005 eða 25% af ársverki (sjá gögn sem send voru). Fagið sem um ræðir heitir E-fræði. Þá lauk undirritaður 45 ects einingum á haustönn 2005, það er önninni sem barnið fæðist, eða 75% úr ársverki. Fögin nefnast F-fræði, G-fræðiog H-fræði (sjá gögn sendanda). Samanlagt gera þetta 100% árangur á vor- og haustönn 2005.“

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og náms á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 4. október 2005. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 4. október 2004 fram að fæðingu barns.

Kærandi var við nám í D-háskólanum, .. Þar mun 100% nám vera talið 60 ECTS á skólaári. Við mat á því hvort hann uppfylli skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns skal líta til náms hans og námsárangurs á haustönn 2004 og vorönn 2005 eða vorönn 2005 og haustönn 2005.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skráður í fullt nám kennsluárið 2004 til 2005. Hann sagði sig úr 15 ECTS þann 16. október 2004 en lauk 15 ECTS fagi í janúar 2005. Í júní 2005 lauk hann síðan 15 ECTS en féll í 15 ECTS fagi „tekstanalyse“ sem hann tók síðan upp og stóðst í janúar 2006. Í janúar 2006 lauk hann auk þess 30 ECTS. Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur kærandi sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann hafi verið í fullu námi á vor- og haustönn 2005.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um fæðingarstyrk sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta