Nr. 110/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 9. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 110/2023
í stjórnsýslumálum nr. KNU23010043 og KNU23020017
Beiðni um endurupptöku og frestun réttaráhrifa í máli
[…] og barna hennar
-
Málsatvik
Hinn 12. janúar 2023 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 13. október 2022, um að taka umsóknir einstaklings er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir kærandi) og barna hennar, […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir A) og […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir B) um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 13. janúar 2023.
Hinn 19. janúar 2023 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar nr. 12/2023 frá 12. janúar 2023 ásamt greinargerð. Þá barst kærunefnd viðbótargreinargerð kæranda og frekari gögn 27. janúar 2023. Vegna framkominna gagna var kæranda leiðbeint, með tölvubréfi 1. febrúar 2023, um að leggja fram beiðni um endurupptöku á úrskurði kærunefndar ásamt framlagningu frekari gagna, t.a.m. uppfærð heilsufarsgögn. Hinn 3. febrúar 2023 lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar, ásamt fylgigögnum. Hinn 23. febrúar 2023 óskaði kærunefnd eftir gögnum vegna barna kæranda frá barnavernd Hafnarfjarðar, sbr. 17. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og bárust gögn 24. febrúar 2023. Með tölvubréfi kærunefndar til kæranda, dags. 27. febrúar 2022, var kæranda kynnt fyrrgreind gögn og veittur frestur til andmæla í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunefnd bárust engin andmæli frá kæranda.
Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar og barna hennar er reist á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hún fer með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
-
Málsástæður og rök kæranda
Fram kemur í greinargerð kæranda, vegna beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar nr. 12/2023 frá 12. janúar 2023, að hún hyggist bera ákvörðun Útlendingastofnunar, sem staðfest sé af kærunefnd, undir dómstóla um það hvort rétt hafi verið að synja því að taka umsókn hennar og barna hennar til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi vísar til þess að hún sé einstæð tveggja barna móðir. Á meðal gagna málsins sé vottorð sálfræðings þar sem fram komi að kærandi sýni töluverð einkenni áfallastreituröskunar, þunglyndis og að hún eigi að baki flókna áfallasögu. Þá liggi fyrir að kærandi hafi gert tilraun til sjálfsvígs og að hún hafi glímt við sjálfsvígshugsanir. Þá búi hún við erfiða félagslega stöðu og njóti einskis félagslegs stuðnings. Að auki glími kærandi við erfiðan augnsjúkdóm og hafi hún þegar misst sjón á öðru auga. Vegna sjúkdómsins hafi hún takmarkað aflahæfi þar sem hún geti ekki unnið hvaða starf sem er. Kærandi byggir á því að A hafi átt erfitt uppdráttar á Möltu en eftir að A kom til Íslands hafi líf hennar breyst til batnaðar og hún náð góðri fótfestu. Kærandi vísar til þess að B sé einungis átta mánaða og fædd á Íslandi. Kærandi sé illa í stakk búin til að annast B en hún þurfi til þess stuðning. Kærandi byggir á því að erfitt sé að fá aðgengi að úrræðum á Möltu sem veiti einstaklingum félagslega aðstoð og stuðning. Kærandi byggir á því að framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar myndi valdi henni og börnum hennar óafturkræfum skaða með þeim hætti að þeim væri ekki veittur kostur á að bera mál sitt undir dómstóla á meðan þær væru staddar hér á landi.
Í viðbótargreinargerð kæranda er vísað til þess að kærandi sýni einkenni um djúpt þunglyndi, virkar daglegar sjálfsvígshugsanir og ítarlegar virkar áætlanir um að fremja sjálfsvíg. Ljóst megi vera að kærandi þarfnist ríkulegs félagslegs og sálræns stuðnings. Það samræmist því ekki hagsmunum barna kæranda að senda hana og börn hennar aftur til Möltu. Kærandi vísar til heilsufarsgagna er hún lagði fram með viðbótargreinargerð sinni til stuðnings máli sínu.
Beiðni kæranda um endurupptöku málsins byggir á því að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin í máli hennar og að andlegri heilsu hennar hafi hrakað verulega frá því að ákvörðun í málinu var tekin. Kærandi byggir á því að andleg heilsa hennar sé verulega síðri en gögn málsins gáfu til kynna þegar Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála tóku ákvörðun í máli hennar og barna hennar. Ljóst sé að heilsufari kæranda hafi hrakað mikið síðustu mánuði líkt og fyrirliggjandi gögn beri með sér. Meðfylgjandi beiðni hafi kærandi lagt fram heilsufarsgögn frá heilsugæslunni Firði, þar sem fram komi að kærandi sýni einkenni um djúpt þunglyndi, virkar daglegar sjálfsvígshugsanir og virkar áætlanir um að fremja sjálfsvíg.
Ljóst megi vera að kærandi þarfnist félagslegs og sálræns stuðnings. Það samræmist ekki hagsmunum kæranda og dætra hennar að senda þær aftur til Möltu. Þá geri kærandi kröfu um að kærunefnd láti fram fara frekari rannsókn á heilsufari kæranda og að aflað verði skýrari upplýsinga frá sérfróðum aðila um andlegt ástand hennar. Kærandi byggir á því að stjórnvöldum beri að meta það sérstaklega hvort rof á meðferð eða þjónustu sem hún þarfnist kunni að hafa afleiðingar sem teljist til sérstakra ástæðna sem valdi því að taka verði málið til efnismeðferðar. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 597/2019 frá 19. desember 2019. Kærandi byggir á því að aðstæður hennar séu sambærilegar fyrrgreindum úrskurði kærunefndar og að forsendur fyrir endurupptöku séu bersýnilega fyrir hendi.
-
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
- Krafa um endurupptöku
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á kærandi máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Kærandi ásamt A sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi 19. mars 2022. Hafði kærandi dvalið á Möltu frá 2011 og var A fædd þar. Voru þær handhafar dvalarleyfa þar á grundvelli mannúðarástæðna. Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda og barna hennar 12. janúar 2023. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi og börn hennar hefðu slík tengsl við landið að nærtækast væri að þær fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til Möltu samrýmist hagsmunum barnanna þegar litið væri m.a. til öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.
Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að andleg heilsa hennar sé verulega síðri en gögn málsins gáfu til kynna þegar Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála tóku ákvörðun í máli kæranda og barna hennar. Ljóst sé að heilsufari hennar hafi hrakað mikið síðustu mánuði líkt og fyrirliggjandi gögn beri með sér. Kærandi vísar til heilsufarsgagna frá heilsugæslunni Firði þar sem m.a. komi fram að kærandi sýni einkenni um djúpt þunglyndi, virkar daglegar sjálfsvígshugsanir og virkar áætlanir um að fremja sjálfsvíg.
Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lágu fyrir upplýsingar um að kærandi væri með augnsjúkdóm en að líkamleg heilsa hennar væri að öðru leyti góð. Kærandi ætti við andleg vandamál að stríða, hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi í heimaríki og gert tilraun til sjálfsvígs í viðtökuríki. Þá lágu fyrir gögn frá heilsugæslunni Firði, dags. 1. september 2022, þar sem fram komi að kærandi hafi farið í tvígang til sálfræðings. Í viðtölum hefðu komið fram töluverð einkenni áfallastreituröskunar og þunglyndis og flókin áfallasaga. Þá væri kærandi með sjálfsvígshugsanir og ætti sögu um sjálfsvígstilraun. Kærandi væri í erfiðri félagslegri stöðu og hefði lítinn sem engan félagslegan stuðning. Þá hafi A tvisvar orðið fyrir kynferðisofbeldi í viðtökuríki og farið í viðtal á vegum Barnahúss hér á landi vegna þess. Ekki hafi verið þörf á frekari þjónustu á vegum Barnahúss. Þá hafi ekki verið forsendur til annars en að líta svo á að barnið B væri við góða heilsu.
Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um heilsufar kæranda taldi kærunefnd að heilsufar hennar væri ekki með þeim hætti að hún teldist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Var það mat kærunefndar, af gögnum um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd á Möltu, að kærandi og börn hennar geti fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þar í landi, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Þá væru, eins og nánar er rakið í úrskurði kærunefndar, sérstakar móttökumiðstöðvar sem hýsi fjölskyldur, einstæðar konur og aðra viðkvæma einstaklinga. Fái þeir að dvelja í eitt ár í slíkum úrræðum en geti að því loknu leitað til félagsþjónustunnar. Umsækjendur hafi atvinnuleyfi og börn þeirra rétt á menntun til 16 ára aldurs. Þá leit kærunefnd til þess að gögn málsins bæru með sér að kærandi hafi ekki lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í viðtökuríki.
Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku ásamt þeim fylgiskjölum sem liggja fyrir. Með endurupptökubeiðni kæranda lagði hún fram heilsufarsgögn frá heilsugæslunni Firði, dags. 10. ágúst 2022 til 21. nóvember 2022. Í gögnum, dags. 2. nóvember 2022, kemur fram að gerð hafi verið tilkynning til barnaverndar skv. barnaverndarlögum nr. 80/2002 vegna áhyggja af öryggi barnanna vegna óstöðugleika í geðslagi móður. Kærandi hafi greint frá ítarlegum áætlunum um sjálfsvíg. Enginn stuðningur sé til staðar. Í gögnum, dags. 4. nóvember 2022, kemur m.a. fram að kærandi hafi leitað á heilsugæslu vegna sjálfsvígshugsana og verið vísað á bráðamóttöku geðsviðs Landspítala þar sem óskað hafi verið eftir innlögn vegna sjálfsvígshættu. Í gögnum, dags. 8. til 11. nóvember 2022, kemur fram að líðan kæranda hafi skánað. Kærandi hafi ekki gert frekari ráðstafanir til sjálfsvígs, en ef hún fengi að ráða myndi hún kjósa að deyja. Kærandi passi upp á að eldri dóttir kunni að hugsa um þá yngri svo þær kunni að bjarga sér án kæranda. Í greinargerð sálfræðings hjá heilsugæslunni Firði, dags. 21. nóvember 2022, sem gerð var að beiðni barnaverndar, kemur m.a. fram að áhyggjur séu til staðar vegna veikinda kæranda og einangrunar. Kærandi sé ein með börnin og hafi engan stuðning. Hún hafi glímt við djúpt þunglyndi og gert áætlanir um sjálfsvíg. Kærandi hafi undirbúið sjálfsvíg með því að kaupa það sem þarf til að taka eigið líf. Kærandi hafi einnig gert ráðstafanir með því að kenna A að hugsa um B svo hún geti farið frá þeim. Kærandi hafi í tvígang verið vísað á bráðamóttöku geðsviðs til frekara mats, dagana 1. og 4. nóvember 2022. Í gögnum frá barnavernd Hafnarfjarðar, dags. 6. nóvember 2022, kemur fram að starfsmenn á vegum barnaverndar hafi farið í vitjun til kæranda þar sem símtal hafi komið frá heilsugæslunni Firði vegna áhyggja af andlegri líðan kæranda. Kærandi hafi greint frá því að henni liði illa og að hún hefði athugað hvað hún þyrfti að drekka mikinn klór til að enda líf sitt. Kærandi hafi samþykkt að fara á bráðageðdeild Landspítalans. Starfsmaður á vegum barnaverndar hafi beðið eftir að A kæmi heim úr skóla og hafi A farið á vistheimili. Kærandi hafi ekki verið lögð inn á geðdeild og hafi hún hringt í A um kvöldið. Starfsmaður hafi farið með A heim af vistheimili samdægurs. Af gögnum málsins virðist ekki hafa verið aðhafst frekar í málum A og B hjá barnavernd.
Að mati kærunefndar veita framlögð heilsufarsgögn ítarlegri upplýsingar um bágt heilsufar kæranda sem lá fyrir og afstaða var tekin til í úrskurði nefndarinnar frá 12. janúar 2023. Kærunefnd telur af þeim sökum að gögnin gefi ekki tilefni til endurupptöku málsins. Líkt og að framan greinir er það mat kærunefndar að kæranda standi til boða nauðsynleg heilbrigðisþjónusta í viðtökuríki. Samkvæmt skýrslu ECRE, Asylum Information Database, Country Report: Malta, dags. 23. maí 2022, sé mælt fyrir um í lögum að mat á viðkvæmri stöðu einstaklinga skuli fara fram eins fljótt og auðið er. Þá skuli jafnframt sjá til þess að viðeigandi stuðningur sé veittur með tilliti til sérstakra þarfa einstaklings. Matið felur í sér viðtal við einstakling þar sem metið er hvort þörf sé á sérstökum stuðningi, svo sem heilbrigðis- og sálfræðiþjónustu. Þá kemur fram í sömu skýrslu að þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd heyri undir velferðarstofnun og að stofnunin beri m.a. ábyrgð á búsetuúrræðum og félagslegri aðstoð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Kærandi hafi því aðgengi að félagslegri aðstoð í viðtökuríki þó svo að hún gæti þurft að yfirstíga ákveðnar hindranir við að sækja þá þjónustu. Þá áréttar kærunefnd það sem fram kom í úrskurði nefndarinnar nr. 12/2023, dags. 12. janúar 2023, að samkvæmt 31. og 32. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) skuli miðla upplýsingum um heilsufar umsækjenda um alþjóðlega vernd til yfirvalda í viðtökuríki, að uppfylltum skilyrðum ákvæðanna, þannig að flutningur viðkomandi fari fram með þeim hætti að heilsufar þeirra verði ekki stefnt í hættu. Þá hafi sú krafa verið gerð í samþykki maltneskra stjórnvalda á viðtöku kæranda og A að viðeigandi upplýsingum skuli miðla til yfirvalda, a.m.k. sjö virkum dögum fyrir flutning.
Kærandi gerir kröfu um að kærunefnd láti fram fara frekari rannsókn á heilsufari kæranda og að aflað verði skýrari upplýsinga frá sérfróðum aðila um andlegt ástand hennar. Kærunefnd tekur fram að kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 14. júní 2022, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærandi telji hafa þýðingu fyrir mál sitt og með tölvubréfi kærunefndar til kæranda 26. október 2022 og 1. febrúar 2023. Kærunefnd telur ekki þörf á að afla gagna frá sérfróðum aðila um andlegt ástand kæranda. Ljóst er að kærandi hefur notið víðtæks stuðnings og heilbrigðisþjónustu hér á landi af hendi sérfræðinga sem metið hafa og greint frá andlegu ástandi hennar, sbr. upplýsingar í framangreindum heilsufarsgögnum sem kærandi lagði fram með beiðni sinni um endurupptöku. Kærunefnd tekur þá fram að framlagning heilsufarsgagna er á forræði kæranda og hefur mat verið lagt á framlögð heilsufarsgögn.
Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar, nr. 597/2019 frá 19. desember 2019, og telur málið sambærilegt máli kæranda. Kærunefnd telur málin ekki vera sambærileg þar sem ekki er um sama viðtökuríki að ræða og þá eru einstaklingsbundnar aðstæður einnig ólíkar. Í fyrrgreindum úrskurði hafði kærandi verið með viðbótarvernd á Ítalíu og var það mat kærunefndar að ekki væri tryggt að kærandi fengi viðhlítandi og áframhaldandi aðstoð og stuðning við veikindum sínum, sem sérfræðingur taldi nauðsynlegt að hún fengi og að ekki væri tryggt að barnið, sem var fimm mánaða gamalt, fengi þá umönnun og aðbúnað sem hún þyrfti á að halda. Í því máli sem hér er til meðferðar bera gögn með sér að kærandi hefur ekki sótt um alþjóðlega vernd í viðtökuríki.. Þá er öllum upplýsingum um hag kæranda og barna hennar, þ. á m. heilsufarsgögnum, miðlað til maltneskra stjórnvalda fyrir flutning til viðtökuríkis líkt og áður greinir. Þá telur kærunefnd framangreindar upplýsingar bera með sér að kærandi muni hafa aðgengi að heilbrigðisþjónustu, húsnæði og félagslegri aðstoð við móttöku hennar í viðtökuríki.
Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 12/2023, dags. 12. janúar 2023, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.
- Krafa um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útlendingamála samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga
Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum kæranda af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi kæranda óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi kæranda að dómstólum, hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega eða hvort þörf sé á sérstakri varúð, m.a. með tilliti til hagsmuna barna. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.
Af beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa má ráða þá afstöðu hennar að framkvæmd úrskurðar kærunefndar útlendingamála um að hún skuli yfirgefa landið takmarki möguleika hennar til að fá endurskoðun úrskurðarins hjá dómstólum og njóta þar réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst er að vera kæranda á landinu er ekki forsenda fyrir því að mál sem hún höfðar til ógildingar á úrskurði kærunefndar sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Þá hefur kærandi möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hún sé ekki hér á landi, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 3. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í því ljósi og með vísan til aðstæðna kæranda að öðru leyti er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé ástæða til að fresta réttaráhrifum úrskurðar í máli kæranda á þeim grundvelli að framkvæmd úrskurðarins valdi tjóni á málatilbúnaði hennar fyrir dómstólum eða skerði réttindi sem henni eru tryggð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-2434/2017 og E-6830/2020.
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála hefur verið tekin afstaða til málsástæðna kæranda varðandi umsókn hennar um alþjóðlega vernd hér á landi og komist að niðurstöðu um að synja umsókn hennar um efnismeðferð. Þá hefur beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurðinum jafnframt verið hafnað. Fyrir liggur að stjórnvöld í viðtökuríkinu hafa viðurkennt skyldu sína til þess að taka við kæranda og umsókn hennar og A um alþjóðlega vernd á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Kærunefnd ítrekar það sem kemur fram í úrskurði í máli kæranda að athugun nefndarinnar hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að ætla að aðstæður í viðtökuríki séu þess eðlis að endursending kæranda þangað sé í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða að henni sé ekki tryggð raunhæf leið til að ná fram rétti sínum þar í landi, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar bera stjórnvöld viðtökuríkis ábyrgð á umsókn kæranda og A um alþjóðlega vernd og er skylt að tryggja að þær verði ekki endursendur í slíkar aðstæður annars staðar. Kærunefnd hefur tekið afstöðu til heilsufarsgagna er kærandi lagði fram með beiðni um frestun réttaráhrifa og annarra gagna málsins og var það mat kærunefndar að þau séu ekki þess eðlis að þau breyti niðurstöðu nefndarinnar varðandi þetta mat. Í samræmi við framangreint er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að verða fyrir óafturkræfum skaða snúi hún aftur til viðtökuríkis.
Í beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa er byggt á því að kærandi hafi verið félagslega einangruð á Möltu og sé með einkenni áfallastreitu, kvíða, þunglyndis og hafi verið með sjálfsvígshugsanir. Kærandi þurfi stuðning við uppeldi á B, sem sé einungis átta mánaða. Þrátt fyrir að úrræði kunni að vera til staðar á Möltu sem veiti einstaklingum, í þeirri stöðu sem kærandi sé í, félagslega aðstoð og stuðning þar í landi, virðist sem erfitt sé að sækja sér þá þjónustu og stuðning. Í viðbótargreinargerð er byggt á því að kærandi þarfnist félagslegs og sálræns stuðnings. Samkvæmt framlögðum heilsufarsgögnum glími kærandi við djúpt þunglyndi, virkar daglegar sjálfsvígshugsanir og hafi áætlanir um að fremja sjálfsvíg. Framlögð heilsufarsgögn hafa þegar við rakin en um er að ræða sömu heilsufarsgögn og bárust með beiðni um endurupptöku. Kærunefnd tekur fram að kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem bera með sér að heilsufar hennar eða barna hennar sé með þeim hætti að þær teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér en ekki í viðtökuríki eins og segir í 2. mgr. 32. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Þá áréttar kærunefnd framangreinda umfjöllun um að kærandi hafi aðgengi að heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð á Möltu og hefur kærandi jafnframt greint frá því við meðferð málsins að hafa notið heilbrigðisþjónustu þar í landi.
Tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í máli kæranda. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að aðstæður kæranda eða aðstæður í ríkinu, sem vísa á kæranda til, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Í því sambandi er tekið fram að nefndin hefur kynnt sér þau heilsufarsgögn sem fylgdu beiðni um frestun réttaráhrifa. Um er að ræða gögn dagsett 10. ágúst til 21. nóvember 2022. Líkt og áður greinir kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 12. janúar 2023. Voru framangreindar upplýsingar um heilsufar kæranda því fyrir hendi þegar úrskurður var kveðinn upp þrátt fyrir að hafa borist kærunefnd 27. janúar 2023. Að mati kærunefndar hafa framlögð heilsufarsgögn að geyma ítarlegri upplýsingar um bágt heilsufar kæranda, en við meðferð málsins hjá kærunefnd lá fyrir, líkt og að framan greinir, að kærandi ætti við andleg vandamál að stríða. Kærunefnd hefur lagt mat á gögnin og komist að þeirri niðurstöðu að þau breyti ekki mati nefndarinnar. Eftir skoðun á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa telur kærunefnd að athugasemdir sem þar koma fram varðandi málsmeðferð og efnislegt mat kærunefndar í málinu séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að niðurstaða kærunefndar í málinu sé haldin annmörkum sem leitt gæti til ógildingar úrskurðarins.
Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda var gerð grein fyrir mati nefndarinnar á hagsmunum barna kæranda. Í úrskurðinum er m.a. vísað til 32. gr. a reglugerðar um útlendinga þar sem fram koma sérviðmið er varða börn og ungmenni. Var það niðurstaða kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til viðtökuríkis samrýmdist hagsmunum barnanna þegar litið væri m.a. til öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til að fallast á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar í máli hennar.
Kærunefnd leggur áherslu á að mál þetta snýst um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í því skyni að bera mál undir dómstóla, en ekki hvort skilyrði frestunar framkvæmdar með vísan til lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi. Kæranda er leiðbeint um að berist henni boð um flutning til viðtökuríkis er henni heimilt að vekja athygli kærunefndar á því en kærunefnd getur þá ákveðið að fresta framkvæmd úrskurðar, sbr. framangreint ákvæði, séu skilyrði til þess uppfyllt.
Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra ástæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um endurupptöku og frestun réttaráhrifa er hafnað.
The appellant‘s request is denied.
Þorsteinn Gunnarsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Gunnar Páll Baldvinsson