Hoppa yfir valmynd
11. september 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 191/2011

Þriðjudaginn 11. september 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 191/2011:

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 12. desember 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 12. september 2011, vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði ákvörðun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 12. september 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B 7.810.000 kr. og 110% af fasteignamati því 8.591.000 kr. Verðmat fasteignasala var 9.200.000 kr. og 110% af verðmati nam því 10.120.000 kr. Áhvílandi veðlán Íbúðalánasjóðs á íbúðinni voru 10.146.847 kr. Veðsetning umfram 110% var samkvæmt endurútreikningnum 26.847 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi á bifreiðina C sem metin var á 145.800 kr. og kom sú fjárhæð til frádráttar á niðurfærslu lána kæranda.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að niðurfærsla lána hennar hjá Íbúðalánasjóði verði samþykkt enda telur kærandi ljóst að raunveruleg skuld hennar sé vel umfram 110%, þ.e. 2.750.000 kr. Kærandi er ósátt við niðurstöðu Íbúðalánasjóðs vegna nokkurra atriða. Við kaup kæranda á íbúðinni hafi hún í fyrsta lagi tekið lán hjá Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga að fjárhæð 3.100.000 kr. og tvö lán hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 1.110.000 kr. og 6.560.000 kr. Upphaflegur höfuðstóll þessara þriggja lána hafi verið 10.770.000 kr. Kærandi bendir í öðru lagi á að í útreikningi Íbúðalánasjóðs sé ekki stuðst við núverandi stöðu lánanna sem samtals séu 14.627.698 kr. Þá bendir kærandi í þriðja lagi á að hún hafi talið að aðrar eignir hennar, þ.e. bifreið hennar, kæmu ekki til frádráttar á niðurfærslu lána hennar.

 

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í umsögn Íbúðalánasjóðs kemur fram að sjóðurinn hafi farið fram á verðmat á íbúðinni í samræmi við ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 29/2011 og hafi ekki talið tilefni til athugasemda við matið. Sjóðnum beri að lækka fyrirhugaða niðurfærslu í samræmi við veðrými í aðfararhæfum eignum lántaka eða maka skv. 2. mgr. 1. gr. laganna og niðurfærsla taki einvörðungu til áhvílandi lána á eign kæranda, miðað við uppreiknaða stöðu veðkrafna 1. janúar 2011.

 

IV. Niðurstaða

 Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi hefur byggt á því að miða beri við núverandi stöðu lána hennar í stað stöðu lánanna þann 1. janúar 2011 líkt og Íbúðalánasjóður miðaði við. Þá telur kærandi að bifreið hennar hafi ekki átt að koma til frádráttar á niðurfærslu lána hennar.

Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, sbr. lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnstæður. Auk fasteignar sinnar að B í Reykjavík átti kærandi bifreið á þeim tíma er umsókn hennar um niðurfærslu lána var afgreidd hjá Íbúðalánasjóði eins og rakið hefur verið. Kærandi hefur ekki mótmælt því að verðmæti eigna sé það sem fram kemur í gögnum málsins, heldur því að tekið hafi verið tillit til annarra eigna við niðurfærslu lána.

 

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði beri að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Þar kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Við afgreiðslu erindis kæranda bar Íbúðalánasjóði því að taka tillit til bifreiðareignar hennar.

 

Í 1. gr. laga nr. 29/2011 kemur fram að Íbúðalánasjóði sé heimilt að færa niður veðkröfur sjóðsins á hendur einstaklingum að uppfylltum skilyrðum laganna, enda sé uppreiknuð staða veðkrafna þann 1. janúar 2011 umfram 110% af verðmæti umræddrar fasteignar. Af skýru ákvæði laganna leiðir að miða ber við stöðu veðkrafna þann 1. janúar 2011, en ekki við síðara tímamark svo sem kærandi hefur byggt á. Þá tekur niðurfærsla Íbúðalánasjóðs samkvæmt lögum nr. 29/2011 einungis til áhvílandi veðlána Íbúðalánasjóðs en ekki annarra lána skv. 1. mgr. 1. gr. laganna. Af þeim sökum verður einungis miðað við stöðu áhvílandi lána Íbúðalánasjóðs, en ekki annarra skulda umsækjenda.

 

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga nr. 29/2011 og lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi ákvörðun um synjun um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á fasteigninni að B, er staðfest.

 

 

 

Ása Ólafsdóttir, formaður 

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta