Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 48/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 8. febrúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 48/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17110056

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. nóvember 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari Úkraínu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. nóvember 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 7. febrúar 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 18. september 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 15. nóvember 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 28. nóvember 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 13. desember 2017. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 11. janúar 2018 ásamt talsmanni sínum og túlki.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann yrði fyrir ofsóknum af hálfu lögreglu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og að honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðuninni var kæranda veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Þá var kæranda einnig ákveðin brottvísun ef hann yfirgæfi ekki landið innan tilskilinn frests ásamt tveggja ára endurkomubanni, sbr. a- lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og 6. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi safnað fornminjum í heimaríki, svo sem skotvopnum. Kærandi hafi leitað til lögreglu í því skyni að skrá vopnin í samræmi við lög en lögreglumenn hafi í kjölfarið ítrekað kúgað hann til að greiða þeim fé til að forða honum frá vandræðum sem þeir myndu annars skapa honum vegna vörslu skotvopnanna. Fyrst um sinn hafi kærandi greitt lögreglunni en eftir að átök hafi hafist í heimaríki hans hafi fyrirtæki í hans eigu orðið gjaldþrota og hann ekki haft fjárráð til að inna af hendi frekari greiðslur. Kærandi hafi jafnframt verið neyddur til að starfa fyrir lögregluna við að verðmeta hluti í hennar vörslu sem síðar hafi átt að selja, en ágóðinn hafi farið beint í vasa lögreglumanna. Eftir að kærandi hafi hætt að greiða fé til lögreglunnar hafi lögreglan framkvæmt ólöglegar húsleitir hjá kæranda í fimm skipti á sjö ára tímabili. Á endanum hafi lögreglan gert fornmunasafn kæranda upptækt.

Undir lok árs 2015 hafi kærandi leitað til stofnunar í heimaríki hans sem hafi það hlutverk að hafa eftirlit með spillingu innan lögreglunnar. Sú stofnun hafi fengið kæranda til samstarfs við sig í þeim tilgangi að koma upp um spillingarmál innan lögreglunnar. Kærandi hafi tekið þátt í rannsókn spillingarmáls sem hafi mistekist og í framhaldinu hafi kærandi verið undir enn frekara eftirliti þeirra lögreglumanna sem hafi áður ofsótt hann. Kærandi hafi leitað til yfirvalda vegna þessa en verið tjáð að leita til lögreglu í sínu umdæmi. Eftir það hafi kærandi orðið fyrir líkamsárásum.

Kærandi kveður að í nóvember 2015 hafi sex menn stokkið út úr bifreið og ráðist á hann með þeim afleiðingum að hann hafi nefbrotnað og misst meðvitund. Kærandi telji að lögreglustjóri í heimabæ hans hafi staðið á bakvið árásina. Í júlí árið 2016 hafi þrír lögreglumenn ráðist á hann með þeim afleiðingum að hann hafi misst meðvitund. Í janúar 2017 hafi lögreglumenn rænt kæranda og ekið honum út í skóg. Þar hafi kærandi verið barinn, m.a. með skopvopnum, með þeim afleiðingum að hann hafi m.a. brotnað á báðum handleggjum, báðum fótleggjum, rifbeinsbrotnað og nefbrotnað. Kærandi hafi misst meðvitund og síðar vaknað einn í skóginum. Hann hafi skriðið út á veg þar sem honum hafi verið bjargað af vegfarendum sem hafi ekið honum að bílskúr í eigu vinar hans. Þar hafi hann dvalið í nokkurn tíma og notið aðstoðar vinar síns við að ná nægilegri heilsu. Í kjölfarið hafi kærandi flúið til Rússlands en ekki talið sig öruggan þar og komið hingað til lands.

Í umfjöllun um aðalkröfu vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna um aðstæður í Úkraínu, en þar komi m.a. fram að meðal helstu vandamála sem tengist mannréttindavernd í landinu séu refsileysi vegna spillingar innan réttarkerfisins. Lögregla hafi t.d. beitt fólk í haldi pyndingum en ríkisstjórn landsins hafi mistekist að taka áhrifarík skref í þá átt að ákæra og refsa þeim sem hafi gerst sekir um misbeitingu á valdi. Mannréttindasamtök og Sameinuðu þjóðirnar hafi jafnframt bent á alvarlega annmarka á rannsóknum á mannréttindabrotum sem framin hafi verið af öryggissveitum ríkisins en ásakanir hafi verið um pyndingar og brottnám fólks.

Samkvæmt skýrslunum sé spilling útbreidd á öllum stigum framkvæmda-, löggjafar- og dómsvalds. Þrátt fyrir umbætur á störfum lögreglu árið 2015 beri skýrslur vott um að spilling sé enn umfangsmikil í landinu. Borgarar landsins geti beint kvörtunum vegna spillingarmála m.a. til lögreglu og dómstóla en og skortur á sjálfstæði lögreglu og dómstóla frá stjórnvöldum hindri verulega áhrif slíkra leiða. Kvartanir hafi í flestum tilvikum reynst árangurslausar og jafnvel haft í för með sér verri afleiðingar fyrir þann sem kvartar.

Kærandi byggir á því að hann sæti ofsóknum vegna aðildar að sérstökum þjóðfélagshópi, sem fyrrum samstarfsmaður lögreglunnar í heimaríki, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Meðlimir starfsgreina sem sæta ofsóknum hafi verið taldir tilheyra sérstökum þjóðfélagshópi í skilningi ákvæðisins. Kærandi tilheyri hópi einstaklinga sem hafi unnið í þjónustu lögreglunnar og séu ofsóttir af lögreglu í skjóli spillingar og refsileysis.

Í greinargerð gerir kærandi athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að ótrúverðugt sé að hann hafi verið innherji hjá lögreglu og sætt áreiti eða ofbeldi af hálfu úkraínskra stjórnvalda. Stofnunin hafi þess í stað lagt til grundvallar að kærandi hafi átt í ágreiningi við lögreglu af ótilgreindum ástæðum. Telur kærandi það sæta furðu enda hafi hann ekki haldið slíku fram. Með vísan til fyrrnefndrar umfjöllunar um lögregluna í Úkraínu sé einnig óljóst á hvaða grundvelli Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að frásögn kæranda sé ótrúverðug hvað varðar áreiti frá lögreglunni.

Fram kemur að þeir aðilar sem hafi ofsótt kæranda séu handhafar opinbers valds og að tilraunir hans til að fá önnur yfirvöld til að veita sér vernd hafi reynst árangurslausar. Heimildir bendi til þess að ofbeldi og spilling af hálfu lögreglu sé algengt í heimaríki hans og að tilraunir til að koma í veg fyrir slíkt hafi reynst allt að því árangurslausar. Leiðir til að kvarta undan slíkum brotum og hljóta vernd virki ekki sem skyldi vegna spillingar. Verði að leggja til grundvallar að ríkið geti ekki veitt kæranda vernd og að íslenskum stjórnvöldum beri skylda til að veita honum alþjóðlega vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Til vara byggir kærandi á því að hann falli undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, enda eigi hann á hættu á að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki, sbr. einnig 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar kærandi í þessu sambandi m.a. til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu um túlkun á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Dómstóllinn hafi litið svo á að þegar einstaklingur verði fyrir miklum líkamlegum og sálrænum þjáningum teljist slíkt til ómannlegrar meðferðar í skilningi 3. gr. sáttmálans. Kærandi hafi m.a. lýst ofbeldisfullum árásum og líflátstilraunum í heimaríki af hálfu lögreglumanna sem séu líklegir til að valda honum alvarlegum skaða og taka hann af lífi.

Kærandi byggir þrautavarakröfu um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á því að hann hafi verið fórnarlamb viðvarandi mannréttindabrota og ofbeldisbrota sem yfirvöld hafi ekki veitt honum vernd gegn. Loks telur kærandi sig ekki geta fengið vernd í öðrum landshluta heimaríkis síns en hann flúði frá, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram skilríki til að sanna á sér deili. Í skýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd, dags. 7. febrúar 2017, kemur fram að kærandi hafi lagt fram ljósrit af upplýsingasíðu skilríkis og er það meðal gagna málsins. Ekki liggur fyrir hvers eðlis skilríkin eru, en kærandi kveður þau vera ljósrit af vegabréfi sínu. Að mati kærunefndar er ekki unnt að leggja ljósritið til grundvallar við mat á auðkenni kæranda. Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í borginni Zapovozje í Úkraínu. Í hinni kærðu ákvörðun var ekki leyst úr auðkenni kæranda. Kærunefnd telur hins vegar ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga þjóðerni kæranda í efa og verður því lagt til grundvallar að hann sé úkraínskur ríkisborgari. Að öðru leyti er óvíst hver kærandi sé.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Úkraínu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2016 Country Reports on Human Rights Practices – Ukraine (U.S. Department of State, 3. mars 2017),
  • Ukraine: The new law on police and its effectiveness; recourse and state protection available to private citizens who have been the victims of criminal actions of police officers in Kiev (2014-January 2015) (Immigration and Refugee Board of Canada, 14. janúar 2016),
  • Association Implementation Report on Ukraine (European Commission, 14. nóvember 2017),
  • Country Information and Guidance – Ukraine: Background Information, including actors of protection and internal relocation (UK Home Office, ágúst 2016),
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his visit to Ukraine from 21 to 25 March 2016 (Council of Europe, 11. júlí 2016),
  • Temanotat Ukraina. Domstolene – korrupsjon og manglende uavhengighet (Landinfo, 6. júlí 2015),
  • International Protection Considerations related to developments in Ukraine – Update III (UNHCR,24. september 2015) og
  • Ukraine: UNHCR Operational Update, September 2016 (UNHCR, 21. september 2016).

Úkraína er lýðræðisríki með um 44 milljónir íbúa og eru mannréttindi almennt virt af úkraínskum stjórnvöldum á þeim svæðum sem lúta stjórn þeirra. Úkraína gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1997. Landið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 10. júní 2002, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 12. nóvember 1973 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 24. febrúar 1987. Meirihluti íbúa landsins eru af úkraínskum uppruna eða um 78% en um 17% íbúa eru af rússneskum uppruna og 5% eru af hinum ýmsu þjóðarbrotum.

Innanríkisráðuneytið í Úkraínu ber ábyrgð á innra öryggi landsins og hefur eftirlit með lögreglu og öðrum lögregluyfirvöldum. Í landinu er auk þess starfrækt leyniþjónusta (SBU) sem hefur það hlutverk að tryggja öryggi ríkisins m.a. með því að sporna við hryðjuverkum. Í framangreindum gögnum segir að lögregluyfirvöld hafi verið sökuð um pyndingar og grimmilega meðferð á borgurum landsins, svo sem á einstaklingum í varðhaldi, í þeim tilgangi að þvinga fram játningu. Málin tengist aðallega átökunum í austurhluta landsins þar sem rússneskir aðskilnaðarsinnar hafa farið með völd síðan árið 2014.

Fram kemur að refsileysi vegna spillingar og brotalama í réttarvörslukerfinu sé umtalsvert vandamál í landinu, en yfirvöld hafi sjaldan gripið til aðgerða til að refsa vegna ofbeldis af hálfu löggæsluyfirvalda. Þá hafi mannréttindasamtök og Sameinuðu þjóðirnar orðið var við brotalamir í rannsóknum á brotum löggæsluyfirvalda á mannréttindum, sér í lagi varðandi ásakanir um pyndingar og aðra vanvirðandi meðferð af hálfu SBU. Þetta vandamál hafi m.a. verið rakið til þess að embætti ríkissaksóknara hafi ekki verið viljugt til að rannsaka ofbeldi af hálfu lögreglu auk þess sem yfirvöld hafi ekki verið viljug til að rannsaka ásakanir um pyndingar.

Þá kemur fram að árið 2016 hafi umbætur verið gerðar í málefnum dómstóla en þrátt fyrir þær séu dómstólar landsins óskilvirkir og viðkvæmir fyrir pólitískum þrýstingi og spillingu. Fram kemur að úkraínska þingið og umboðsmaður mannréttinda hafi vald til þess að rannsaka brot í störfum lögregluyfirvalda. Greint er frá því að á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 hafi yfirvöld hafið 133 sakamál gegn lögreglumönnum vegna brota í starfi. Málin hafi varðað ólögmætar handtökur og leitir, ólögmæta haldlagningu og þá hafi fimm mál tengst pyndingum. Málin hafi leitt til þess að 20 lögreglumenn hafi sætt viðurlögum og að 10 lögreglumönnum hafi verið vikið úr starfi.

Undanfarin ár hafa staðið yfir umbætur á grunnstoðum lögreglunnar og árið 2016 voru útfærð ný lög um umbætur á sviði réttarvörslu, en lögin bíða staðfestingar frá forseta Úkraínu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi byggir umsókn um alþjóðlega vernd á því að hann óttist ofsóknir lögreglu í heimaríki sínu.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Eins og fram hefur komið kveðst kærandi starfa við að safna fornmunum í heimaríki, t.a.m. skotvopnum. Í heimaríki hans mæli lög fyrir um greiðslu til lögregluyfirvalda vegna skráningar skotvopna og hafi kærandi leitað til lögreglu í því skyni að skrá skotvopn í hans vörslum. Lögregla hafi hins vegar krafist þess að kærandi greiddi umtalsverða fjármuni umfram það sem lög gerðu ráð fyrir í skiptum fyrir afskiptaleysi af starfsemi hans. Þegar kærandi hafi hætt greiðslunum hafi lögregla gert húsleitir á heimili hans og lagt hald á alla fornmuni og gögn tengd rekstrinum. Í framhaldi af kvörtunum kæranda til æðri lögregluyfirvalda vegna framferði lögreglunnar hafi kæranda verið boðið að taka þátt í rannsókn leyniþjónustu Úkraínu (SBU) á spillingu hjá almennum lögregluyfirvöldum, en kærandi hafi m.a. tekið þátt í tálbeituaðgerð á þeirra vegum. Í kjölfar starfa hans fyrir SBU hafi lögreglumenn ráðist að honum og beitt hann harkalegu ofbeldi.

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings framburði sínum. Verður því að leggja mat á trúverðugleika kæranda á grundvelli framburðar hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun þann 15. febrúar og 18. september 2017 og hjá kærunefnd þann 11. janúar 2018. Í viðtölunum, einkum hjá Útlendingastofnun, greindi kærandi frá atriðum sem varða atvinnurekstur hans í heimaríki og afskipti lögreglu af honum vegna rekstursins. Telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga trúverðugleika frásagnar kæranda í efa varðandi atvinnurekstur hans og að lögregla hafi haft afskipti af honum.

Líkt og rakið hefur verið hefur kærandi borið fyrir sig að hafa sætt ofbeldi af hálfu lögreglu í þrjú skipti á árunum 2015, 2016 og 2017. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að í nóvember 2015 hafi sex menn ráðist að honum á almannafæri, en þeir hafi verið klæddir í svört föt líkt og sérsveit. Kærandi sagði lögreglu hafa ráðist aftur að sér á almannafæri í júlí 2016 og barið hann með þeim afleiðingum að hann hafi nefbrotnað og misst meðvitund. Þá hafi nokkrir lögreglumenn rænt honum í janúar 2017 og beitt hann grófu ofbeldi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa verið staddur í garði í húsi sem hann leigði þegar lögreglumenn hafi komið og numið hann á brott. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi hafa verið á leið heim til sín fótgangandi um miðjan janúar þegar lögreglumenn, íklæddir sama einkennisbúning og lögreglumenn leyniþjónustunnar SBU og með vopn sérsveitar, hafi rænt honum. Nefnt heimili hans hafi þá verið hús sem hann hafi átt á þeim tíma en misst það síðar í gegnum lögfræðing. Aðspurður um misræmi í framburði varðandi það hvar kærandi hafi verið staddur þegar honum hafi verið rænt taldi kærandi að það væri að rekja til þýðingarvillu í viðtali hjá Útlendingastofnun.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun lýsti kærandi árásinni í janúar 2017 með þeim hætti að honum hafi verið ekið út í skóg þar sem lögreglumennirnir hafi barið hann, m.a. með byssum, með þeim afleiðingum að hann hafi fótbrotnað á báðum fótum, handleggsbrotnað og rifbeinsbrotnað. Þá hafi hann nefbrotnað og hlotið alls kyns skurði í andliti. Í viðtali hjá kærunefnd lýsti kærandi áverkunum með sambærilegum hætti en hann kvaðst hafa fót-, axlar- og nefbrotnað í árásinni og verið aumur í handlegg. Þá kom fram hjá kæranda að hann hafi ekki leitað sér læknisaðstoðar eftir árásina. Hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa misst meðvitund í árásinni en er hann hafi komist til meðvitundar hafi hann skriðið til næsta vegar. Þar hafi hann fengið aðstoð fólks sem hafi ekið honum að bílskúr í eigu vinar hans sem hafi þá verið í útlöndum. Kvaðst kærandi hafa dvalið í bílskúrnum og jafnað sig á afleiðingum árásarinnar, svo sem með því að binda spýtur við fæturna á sér. Þá kom fram hjá kæranda að vinur hans sem hafi átt bílskúrinn hafi komið með mat til hans.

Aðspurður um þetta atriði í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi hafa haldið til í bílskúr í eigu kunningja síns sem hafi verið á staðnum þegar kærandi hafi komið í bílskúrinn og veitt honum aðstoð vegna áverkanna. Aðspurður um framburð sinn hjá Útlendingastofnun um að eigandi bílskúrsins hafi verið í útlöndum er hann hafi farið að skúrnum svaraði kærandi því til að hann hafi ekki verið í útlöndum þá en væri núna í útlöndum. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kom fram að eftir vikudvöl í bílskúrnum hafi kærandi komist þar út með því að nota hækjur en að hann hafi í framhaldinu ákveðið að leggja á flótta og ferðast til Moskvu. Í viðtali Útlendingastofnunar við kæranda þann 15. febrúar 2017 kvaðst kærandi hafa yfirgefið Moskvu þann 6. febrúar 2017 og ferðast þaðan annað hvort til Englands eða Noregs áður en hann kom hingað til lands þann 7. febrúar það ár.

Kærandi lýsti afleiðingum árásarinnar með þeim hætti að hann hafi brotnað á báðum fótum, brotnað á handlegg eða öxl, nefbrotnað og hlotið áverka í andliti. Verulegt misræmi var á milli svara kæranda í viðtali hjá kærunefnd um hvort hann hefði leitað sér læknisaðstoðar. Kærandi sagði fyrst að hann hefði leitað til læknis eftir árásina en að fætur hans hefðu ekki náð sér þrátt fyrir það. Þá kvaðst kærandi einnig hafa leitað eftir hjálp hér og fengið hana. Aðspurður um hvert hann hefði leitað sagðist kærandi síðan ekki hafa leitað til læknis. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi hafa verið með sárabindi og spelkur er hann hafi komið til landsins. Kærandi kvaðst síðan hafa farið í læknisskoðun eftir komu til landsins og óskað eftir aðstoð vegna áverkanna en sagði lækninn hafa neitað honum um aðstoð þar sem enginn hefði beðið hann um að koma til Íslands og að það myndi kosta íslenska ríkið of mikla fjármuni að veita honum læknishjálp. Kærunefnd spurði kæranda hvernig hann hefði áttað sig á umfangi meiðsla sinna, þ. á m. fótbrota, kvaðst kærandi vera íþróttamaður og þekkja líkamann vel, þegar liðirnir eru brotnir fari þeir ekki í réttar áttir. Að mati kærunefndar er frásögn kæranda um að hann hafi af sjálfsdáðum náð sér að mestu af alvarlegum afleiðingum árásarinnar með því að hafast við í bílskúr í eina viku, án nokkurrar aðkomu læknis, haldin miklum ólíkindablæ. Horfir kærunefnd einnig til þess að þrátt fyrir þá alvarlegu áverka sem hann kveðst hafa hlotið í árásinni hafi honum verið kleift að ferðast til Moskvu viku eftir árásina og síðan til Englands eða Noregs þann 6. febrúar 2017 á leið sinni hingað til lands.

Í fylgdarskrá alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra sem liggur fyrir í gögnum málsins, er ljósmynd af kæranda, tekin þann 7. febrúar 2017, en á henni er ekki að greina áverka í andliti kæranda líkt og kærandi lýsti í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi hlotið í árás lögreglu um miðjan janúar það sama ár. Kærunefnd bauð kæranda að leggja fram frekari læknisfræðileg gögn og bárust samskiptaseðlar frá göngudeild sóttvarna þann 6. febrúar 2018. Í þeim kemur fram að kærandi hafi farið í læknisskoðun m.a. dagana 23. febrúar 2017 og 3. mars s.á. og hafi hann litið hraustlega út. Þá kemur fram í gögnunum að hann hafi í desember 2017 sagst hafa lent í átökum í janúar 2017. Hann hafi ekki þorað að segja frá því fyrr vegna þess að hann óttaðist að það myndi hafa neikvæð áhrif á umsókn hans um vernd. Það er mat kærunefndar að þessi gögn styðji hvorki við umsókn kæranda um vernd né byggi undir trúverðugleika frásagnar hans.

Þá kvaðst kærandi í viðtali hjá kærunefnd hafa keypt vegabréf fyrir peninga sem vinur hans geymdi fyrir hann. Hann hafi ekki átt annarra kosta völ en að geyma peninga hjá honum þar sem hann hafði verið orðið húsnæðislaus eftir að hafa misst það húsnæði sem hann átti áður. Frásögn þessi er ekki í samræmi við frásögn hans fyrr í viðtalinu um að hann hefði á leið heim til sín í sitt eigið húsnæði þegar honum hafi verið rænt.

Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið er það mat kærunefndar að framburður kæranda um að lögregla hafi rænt honum í janúar 2017 og beitt hann miklu ofbeldi sé ótrúverðugur. Verður því ekki byggt á þeirri frásögn kæranda í málinu. Telur kærunefnd auk þess að frásögn þessi sem og annað misræmi í frásögn hans veiki trúverðugleika kæranda hvað varðar frásagnir hans af öðrum ætluðum árásum lögreglu. Samkvæmt framansögðu verður framburður kæranda um ofbeldi lögreglu gegn honum í nóvember 2015 og júlí 2016 ekki heldur lagður til grundvallar í málinu.

Að frátöldum framburði kæranda um að hann hafi sætt árásum lögreglu hefur kærandi borið fyrir sig að hafa verið í ónáð hjá lögreglu eftir að hann hafi hætt að inna af hendi aukagreiðslur vegna vörslu skotvopna. Lögregla hafi í kjölfarið ráðist í húsleitir hjá kæranda og lagt hald á alla fornmuni í hans eigu. Kærunefnd telur að þessi þáttur frásagnarinnar leiði ekki til þess að líkur séu á því að kærandi eigi á hættu ofsóknir í skilningi laga um útlendinga, jafnvel þó hún yrði metin trúverðug.

Að mati kærunefndar, að teknu tilliti til trúverðugleikamats, hefur kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá renna skýrslur og önnur gögn málsins ekki stoðum undir þá fullyrðingu kæranda að einstaklingar sem starfa við að safna fornmunum eða skotvopnum sæti ofbeldi eða áreiti af hálfu stjórnvalda eða að öðru leyti séu fyrir hendi ástæður sem leitt gætu til þess að kærandi ætti á hættu ofsóknir í heimaríki. Kærunefnd telur því að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið, m.a. um trúverðugleika framburðar kæranda, og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki hans telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi er einstæður karlmaður og kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun vera við góða andlega og líkamlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Brottvísun og endurkomubann

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, undir fyrirsögninni „frávísun og brottvísun“, kemur fram að kæranda sé vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr., sbr. 3. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna.

Í framhaldi af þessari niðurstöðu stofnunarinnar er í ákvörðuninni vísað til 6. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 þar sem komi fram að samhliða veitingu frests til sjálfviljugrar heimfarar skuli tekin afstaða til þess í ákvörðun hvort skilyrði til brottvísunar skv. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt yfirgefi umsækjandi ekki landið eða óski aðstoðar við sjálfviljuga heimför innan veitts frests. Þá er í ákvörðuninni fjallað með almennum hætti um skilyrði brottvísunar skv. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er gerð grein fyrir andmælum kæranda varðandi mat á því hvort brottvísun fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða öðrum aðstandendum hans og lýst því mati Útlendingastofnunar að ekki sé um að ræða ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga verði kæranda ákveðin brottvísun og endurkomubann.

Niðurstaðan í rökstuðningi Útlendingastofnunar varðandi þennan þátt málsins er að kæranda skuli gefinn 7 daga frestur til að yfirgefa landið. Þá segir: „Fari hann ekki innan þess tíma skal honum vísað úr landi og skal hann sæta endurkomubanni í tvö ár. Lögreglu er því heimilt að færa umsækjanda úr landi, sbr. 5. mgr. 104. gr. útlendingalaga, að 7 dögum liðnum“.

Samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttar þurfa ákvarðanir stjórnvalda að byggja á viðhlítandi lagagrundvelli. Þegar lög mæla fyrir um skilyrði fyrir því að stjórnvald geti tekið ákvörðun verður sú ákvörðun ekki tekin nema fyrir liggi atvik sem leggja grundvöll að ályktun stjórnvalds um að skilyrðin séu fyrir hendi.

Ákvörðun um brottvísun samkvæmt 98. gr. laga um útlendinga verður ekki tekin nema fyrir liggi atvik sem verða heimfærð undir einhver af skilyrðum ákvæðisins. Kærunefnd hefur í úrskurði sínum frá 21. desember 2017 í máli nr. KNU17100067 komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 6. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 eigi sér ekki viðhlítandi stoð í lögum til að heimila ákvörðun um brottvísun áður en skilyrði 98. gr. séu uppfyllt og því geti ákvæðið ekki verið grundvöllur þeirrar framkvæmdar sem var viðhöfð í máli kæranda.

Eins og að framan greinir er í rökstuðningi í máli kæranda vísað til a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga en atvik í máli hans eru ekki heimfærð undir ákvæðið. Fyrir liggur að þegar ákvörðunin var tekin hafði kæranda verið veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar verður ekki litið svo á að skilyrði a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, um að hann sé án dvalarleyfis og hafi ekki yfirgefið landið innan veitts frests, séu uppfyllt á meðan hann hefur enn slíkan frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Liggur því fyrir að skilyrði brottvísunar voru ekki fyrir hendi í máli kæranda og verður sá þáttur ákvörðunar Útlendingastofnunar því felldur úr gildi.

Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til að kanna hvort brottvísun kæranda og endurkomubann kunni að vera í ósamræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands og sótti um alþjóðlega vernd þann 7. febrúar 2017. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Í samræmi við 1. og 2. málsl. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga er lagt fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kærandi hefur 7 daga frá birtingu úrskurðar þessa til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

Kæranda er leiðbeint um að samkvæmt 1. málsl. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga annast lögregla og Útlendingastofnun framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun. Í 5. málsl. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur skuli tilkynna Útlendingastofnun um fyrirhugaða brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Þar segir jafnframt að ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur má lögregla færa hann úr landi. Athygli kæranda er jafnframt vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Felld er úr gildi ákvörðun stofnunarinnar um brottvísun og endurkomubann. Ákvörðun um frávísun kæranda er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar að því er varðar umsókn um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og frávísun er staðfest. Felldur er úr gildi sá þáttur ákvörðunar stofnunarinnar er varðar brottvísun og endurkomubann. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

 

The decision of the Directorate of Immigration regarding the application for international protection, residence permit on humanitarian grounds and refusal of entry is affirmed. The portion of the Directorate’s decision pertaining to expulsion and a re-entry ban is vacated. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 7 days to leave the country voluntarily.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                    Pétur Dam Leifsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta