Álit, að því er tekur til samræmdra könnunarprófa í upphafi 10. bekkjar
Vísað er í bréf til menntamálaráðuneytisins, dags. 24. september 2009, þar sem gerðar eru athugasemdir við samræmd könnunarpróf í upphafi 10. bekkjar og lagt til að þau verði lögð niður og samræmd próf við lok 10. bekkjar tekin upp að nýju.
Með lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, var ákvæðum um samræmt námsmat breytt og samræmd lokapróf í 10. bekk lögð af. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga var bent á galla við fyrri skipan samræmdra prófa og gagnrýni á framkvæmd þeirra. Samræmdu lokaprófin voru talin gegna of margháttuðu hlutverki og erfitt væri að ná öllum markmiðum þeirra í einu prófi.
Mikil gagnrýni hefur komið fram á framkvæmd samræmdra lokaprófa í grunnskóla undanfarin ár og er hún m.a. komin til vegna þess hversu mörg ólík hlutverk prófin hafa haft. Þau voru bæði lokapróf í ákveðnum greinum sem höfðu áhrif á innritun í framhaldsskóla og veittu upplýsingar almennt um hversu vel markmiðum aðalnámskrám hafði verið náð. Auk þess má segja að einstakir grunnskólar hafa verið metnir út frá einkunnum skólans á samræmdum prófum. Prófin hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að stýra um of skólastarfi í of þröngan farveg. Markmið grunnskóla eru margslungin og er einkum reynt að stefna að þeim með kennslu í námsgreinum, en einnig í skólastarfinu öllu. Námsgreinar grunnskóla eru skilgreindar í lögum og útfærðar í aðalnámskrá. Allar námsgreinar og þættir þeirra, bóklegir og verklegir, eru þar jafngildir. Í samræmdu prófunum við lok grunnskóla hefur athyglinni einungis verið beint að fáum bóklegum greinum og einkum þeim þáttum þeirra sem auðvelt er að meta með skriflegum prófum.
Ljóst er að erfitt hefur verið að meta nemendur m.t.t. markmiða grunnskólans með samræmdu lokaprófi í völdum greinum. Á hinn bóginn er talið að samræmt námsmat sé nauðsynlegt til að nemandi fái upplýsingar um námsstöðu sína og einnig að fram fari mat á því hvernig einstakir skólar uppfylla markmið aðalnámskrár. Í greinargerð með frumvarpi til grunnskólalaga var lögð áhersla á að setja þurfi skýr viðmið um árangur og meta þekkingu og færni nemenda á grundvelli þeirra. Með auknu sjálfstæði grunnskóla er eðlilegt að þeim sé treyst fyrir útskrift nemenda og að framhaldsskólar taki tillit til lokamats úr grunnskóla við innritun nemenda. Í því samhengi voru sett ákvæði um að nemendur í 10. bekk þreyti könnunarpróf sambærileg þeim sem lögð eru fyrir nemendur í 4. og 7. bekk. Þeim er ætlað að nýtast bæði nemendum og skólum í starfi þeirra til að stuðla að því að nemendur uppfylli viðmið aðalnámskrár við útskrift úr grunnskóla.
Í þessu augnamiði eru í 39. gr. fyrrgreindra laga ákvæði um að menntamálaráðherra standi fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum. Megintilgangur þess er að afla upplýsinga um námsstöðu einstaklinga sem nýtast þeim við áframhaldandi nám og einnig til að meta árangur skólastarfs almennt. Vegna ábendinga þinna er rétt að árétta að megintilgangur samræmdra prófa í grunnskóla er ekki vegna innritunar í framhaldsskóla heldur hafa þau annan og meiri tilgang, sbr. ofangreint. Þá skal áréttað að ný aðalnámskrá byggð á grunnskólalögum frá 2008 hefur ekki tekið gildi og lítil reynsla því komin á nýskipan námsmats við lok grunnskóla. Nú er unnið að endurskoðun aðalnámskrár á grundvelli nýrra laga. Í þeirri vinnu er m.a. hugað að framkvæmd samræmdra prófa og reynt að útfæra vilja löggjafans um námsmat við lok grunnskóla.