Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 504/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 504/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110001

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. október 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. október 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi hvað varðar brottvísun og endurkomubann, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 27. október 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 29. október 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 30. október 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 30. október 2018. Að ósk kæranda var veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar með bréfi stofnunarinnar, dags. 31. október 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. nóvember 2018 ásamt fylgigagni.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á efnahagslegum ástæðum.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kæranda ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 29. október 2018 þar sem kærandi kvaðst hafa komið hingað til lands í atvinnuleit. Hafi kæranda í framhaldinu verið veittur sólarhringsfrestur til að taka ákvörðun um hvort hann hygðist draga umsókn um alþjóðlega vernd til baka eða halda umsókninni til streitu. Að morgni 30. október 2018 hafi kærandi lýst því yfir að hann geti ekki farið aftur til heimaríkis þar sem hann verði fyrir aðkasti fjölskyldu sinnar og samfélagsins vegna kynhneigðar sinnar. Kærandi eigi erfitt með að tjá sig um þetta atriði og hafi ekki treyst sér til að greina frá málsástæðunni í viðtali hjá Útlendingastofnun. Í greinargerð er vísað til bréfs frá fjölskylduráðgjafa Samtakanna ´78, dags. 9. nóvember 2018, en kærandi sæki meðferð þar vegna andlegrar vanlíðunar.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í nánari rökstuðningi Útlendingastofnunar fyrir hinni kærðu ákvörðun, dags. 31. október 2018, kemur fram að kærandi hafi mætt til birtingar á ákvörðuninni þann 30. október 2018 og tjáð fulltrúa Útlendingastofnunar að hann hygðist ekki draga umsókn sína til baka. Þegar birtingin hafi átt að fara fram hafi kærandi lýst því yfir að hann gæti ekki farið aftur til heimaríkis þar sem líf hans væri í bráðri hættu þar vegna kynhneigðar hans. Í rökstuðningi Útlendingastofnunar segir að framangreind staðhæfing kæranda hafi verið talin ótrúverðug enda hefði kærandi, í viðtali hjá stofnuninni þann 29. október 2018, ekki minnst einu orði á kynhneigð sína eða að ástæða flótta hans frá heimaríki væri vegna kynhneigðar. Kemur þessu næst fram í rökstuðningi Útlendingastofnunar að við úrlausn málsins hafi verið byggt á því að kærandi geti leitað á náðir yfirvalda í heimaríki sínu og fengið viðeigandi aðstoð.

Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun vegna framangreindra atriða. Í svörum Útlendingastofnum kom fram að kærandi hafi komið fyrrnefndri málsástæðu á framfæri áður en hin kærða ákvörðun hafi verið birt fyrir honum. Kærandi hafi verið spurður hvers vegna hann hafi ekki tjáð Útlendingastofnun um þetta í viðtali deginum áður og hafi kærandi sagt að hann hafi ekki viljað segja frá því þar sem hann skammaðist fyrir kynhneigð sína. Þá hafi kærandi verið spurður hvers vegna hann væri í hættu í heimaríki. Kvaðst kærandi hafa orðið fyrir aðkasti fjölskyldu sinnar vegna kynhneigðar.

Fyrir kærunefnd hefur kærandi lagt fram bréf, dags. 9. nóvember 2018, þar sem fram kemur að hann hafi sótt viðtal hjá Samtökunum ´78. Í viðtalinu hafi kærandi lýst því yfir að vera tvíkynhneigður og að hann hafi í nokkur skipti orðið fyrir ofbeldi í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar. Kærandi hafi svert heiður fjölskyldu sinnar og verið tjáð að koma aldrei aftur ella yrði hann drepinn.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda synjað um alþjóðlega vernd og um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Leysti Útlendingastofnun úr málinu á grundvelli þeirra málsástæðna sem kærandi hafði uppi í viðtali hjá stofnuninni þann 29. október 2018, sem lutu að efnahagslegum aðstæðum hans í heimaríki. Samkvæmt því sem áður greinir færði kærandi fram nýja málsástæðu sem varðaði kynhneigð hans áður hin kærða ákvörðun hafði verið birt fyrir honum og þar með áður hún varð bindandi og öðlaðist réttaráhrif, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Er það mat kærunefndar, með vísan til eðlis þeirra upplýsinga sem kærandi færði fram fyrir birtingu hinnar kærðu ákvörðunar, að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Með vísan til staðhæfingar kæranda við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar og gagns sem hann hefur lagt fram fyrir kærunefnd, sem ber með sér að kærandi hafi í nokkur skipti orðið fyrir ofbeldi í heimaríki vegna kynhneigðar, telur kærunefnd rétt að lagt verði mat á þessa málsástæðu kæranda á tveimur stjórnsýslustigum. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appallent‘s case.

 

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                               Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta