Hoppa yfir valmynd
20. desember 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

32 söfn fá styrk úr safnasjóði

Alls fá 32 söfn styrkveitingu úr safnasjóði í auka úthlutun sjóðsins í ár að heildarupphæð 17.390.000 kr. Tuttugu og þrjú verkefni fá styrk til stafrænna kynningarmála og 35 styrkir fara til símenntunarverkefnasafna og starfsmanna þeirra. Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta og menningarmálaráðherra, hefur staðfest úthlutun sjóðsins. 

58 umsóknir fá styrki að þessu sinni, að upphæð 250-300 þúsund fyrir hvert verkefni. Styrkjum til stafrænna kynningarmála er ætlað að efla stafræna kynningu starfanna, efla söfnin sem viðkomustaði fyrir gesti með framsetningu á samfélagsmiðlum og á vefsíðum. Tilgangur styrkja til símenntunar er að styrkja faglegt starf safnanna. 

„Með aukaúthlutun þessa árs viljum við styrkja enn frekar við söfnin sem viðkomustaði fyrir gesti, jafnt íslenska sem og erlenda ferðamenn. Sérstaða íslenskra safna er mikil og með því að veita sérstaka styrki til stafrænna kynningarmála geta söfnin vakið enn meiri áhuga, veitt betri upplýsingar til gesta sinna og miðlað á fjölbreyttari máta. Íslensk söfn geyma ótal fjársjóði og það er vel þess virði að heimsækja þau árið um kring,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, ferða- og menningarmálaráðherra.

Hlutverk safnasjóðs er að efla starfsemi safna með styrkjum, en viðurkennd söfn, önnur en söfn í eigu ríkisins, geta sótt um rekstrarstyrki til að efla starfsemi sína og  öll viðurkennd söfn geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna. Menningarmálaráðherra úthlutar styrkjum úr safnasjóði að fengnum tillögum safnaráðs.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta