Fótboltar til malavískra skólabarna
Börn í SOS barnaþorpum í Malaví fengu á dögunum afhenta að gjöf fótbolta frá Samtökum íslenskra ólympíufara. Samtökin gáfu alls 48 fótbolta til malavískra barna sem DHL, alþjóðlegur styrktaraðili SOS Barnaþorpanna, sá um að koma á áfangastað.
„SÍÓ ætlar að hvetja þjóðasamtök ólympíufara á hinum Norðurlöndunum að gera slíkt hið sama og vonandi með stuðningi viðkomandi þróunarstofnunar. Von stendur til að þessi boltasending sé aðeins byrjunin á farsælu samstarfi SÍÓ við SOS Barnaþorpin í Malaví og önnur lönd í Afríku," segir Jón Hjaltalín Magnússon, formaður SÍÓ, í frétt á vef SOS.
Þar segir ennfremur að öll börn eigi rétt á að leika sér og stunda íþróttir, það efli líkamlega, félagslega og tilfinningalega líðan barna. „Eitt af samfélagslegum langtímamarkmiðum Samtaka íslenskra ólympíufara (SÍÓ) er að aðstoða við stofnun og eflingu íþróttafélaga í þróunarlöndum í samstarfi við nærliggjandi skóla. Stuðningurinn felst meðal annars í að gefa bolta og annan búnað og námskeið fyrir kennara og þjálfara,“ segir í fréttinni.