Hoppa yfir valmynd
8. september 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 241/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 241/2017

Föstudaginn 8. september 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. júní 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. júní 2017, um synjun á umsókn hennar um húsnæðisbætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 9. janúar 2017. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. maí 2017, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda og gögnum sem staðfestu að hún og/eða annar heimilismaður ættu ekki rétt á vaxtabótum. Upplýsingar bárust frá eiginmanni kæranda 21. júní 2017. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dagsettu sama dag, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að heimilismaður nyti réttar til vaxtabóta, sbr. d-lið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 29. júní 2017. Með bréfi, dags. 30. júní 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 14. júlí 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. júlí 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi flutt til B í ágúst 2016 til að stunda nám sem ekki sé kennt í fjarkennslu. Eiginmaður hennar hafi verið áfram búsettur í húsnæði þeirra á C og því hafi þau hvorki möguleika á að leigja húsnæðið né selja það. Kærandi tekur fram að hún hafi fengið greiddar húsaleigubætur frá D fram að áramótum og þá sótt um húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun. Umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem hún fái vaxtabætur sem sé óumdeilt. Vegna aðstæðna sinna óski kærandi eftir því að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og að hún fái greiddar fullar húsnæðisbætur frá 1. janúar 2017.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að umsókn kæranda hafi verið synjað á grundvelli d-liðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Þar segi að húsnæðisbætur verði ekki veittar njóti einhver heimilismanna réttar til vaxtabóta en óumdeilt sé að kærandi eigi rétt á vaxtabótum. Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 75/2016 sé sérstaklega áréttað að áfram verði gert ráð fyrir því að réttur til húsnæðisbóta sé ekki fyrir hendi njóti einhver heimilismanna, þar á meðal umsækjandinn sjálfur, réttar til vaxtabóta. Enn fremur sé lagt til grundvallar að ekki sé um að ræða breytingu hvað varðar eldra húsaleigubótakerfið. Það að kærandi hafi áður fengið greiddar húsaleigubætur frá sveitarfélagi sínu leiði ekki til þess að hún eigi nú rétt á húsnæðisbótum. Vinnumálastofnun telur að ekki verði hjá því komist að leggja til grundvallar ákvæði d-liðar 3. mgr. 9. gr. og fellst því ekki á að kærandi eigi rétt á húsnæðisbótum samhliða vaxtabótum.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á umsókn kæranda um húsnæðisbætur.

Í 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur er kveðið á um þau skilyrði sem umsækjandi og heimilismenn hans þurfa að uppfylla svo að heimilt sé að veita húsnæðisbætur. Í 3. mgr. 9. gr. er kveðið á um atriði sem girða fyrir rétt til húsnæðisbóta. Þar segir í d-lið ákvæðisins að húsnæðisbætur verði ekki veittar njóti einhver heimilismanna réttar til vaxtabóta. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að hún ætti rétt á vaxtabótum.

Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 75/2016 segir um d-lið 3. mgr. 9. gr.:

„Jafnframt er lagt til að áfram verði gert ráð fyrir að réttur til húsnæðisbóta sé ekki fyrir hendi njóti einhver heimilismanna, þar á meðal umsækjandi sjálfur, réttar til vaxtabóta. Ekki er um að ræða breytingu hvað það varðar frá gildandi húsaleigubótakerfi en skv. 2. tölul. 6. gr. laga um húsaleigubætur er réttur til húsaleigubóta ekki fyrir hendi njóti umsækjandi eða einhver sem býr í húsnæðinu með honum réttar til vaxtabóta. Rétt er að undirstrika að við mat á því hvort einhver heimilismanna, svo sem umsækjandi, njóti réttar til vaxtabóta, ber framkvæmdaraðila í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins að leggja sérstakt mat á það hvort viðkomandi njóti í reynd réttar til vaxtabóta, en með því er átt við að skilyrði vaxtabóta samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, og reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta, með síðari breytingum, séu uppfyllt. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaraðili afli upplýsinga frá skattyfirvöldum á grundvelli 1. mgr. 15. gr. frumvarpsins við mat á því hvort einhver heimilismanna, þar á meðal umsækjandi, njóti réttar til vaxtabóta. Í því sambandi er gert ráð fyrir að metið verði hvort skilyrði vaxtabóta séu uppfyllt enda þótt viðkomandi hafi ekki fengið greiddar vaxtabætur enda geta tekjur og/eða eignir viðkomandi leitt til þess að vaxtabætur til hans falli að fullu niður enda þótt skilyrði vaxtabóta hafi verið uppfyllt.“

Óumdeilt er að kærandi nýtur réttar til vaxtabóta á grundvelli laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í 10., 11. og 12. gr. laga nr. 75/2016 er kveðið á um undanþágu frá skilyrðum um búsetu, íbúðarhúsnæði og þinglýsingu leigusamninga. Í lögunum er hins vegar ekki kveðið á um undanþágu frá framangreindu skilyrði um rétt til vaxtabóta. Að því virtu og með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að synjun Vinnumálastofnunar á umsókn kæranda um húsnæðisbætur sé reist á réttum forsendum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. júní 2017, um synjun á umsókn A, um húsnæðisbætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta