Hoppa yfir valmynd
8. september 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 234/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 234/2017

Föstudaginn 8. september 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. júní 2017, kærir B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. mars 2017, um synjun á umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 10. janúar 2017, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna væntanlegrar fæðingar barns X. Barn kæranda fæddist andvana X. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. mars 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að forsjá barnsins eftir fæðingu þess hafi verið í höndum barnsmóður hans, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. júní 2017. Með bréfi, dags. 21. júní 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 18. júlí 2017, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. júlí 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann og unnusta hans hafi ekki verið skráð í sambúð við fæðingu barns þeirra. Kærandi vísar til þess að rökin að baki ákvæði 6. mgr. 8. laga nr. 95/2000 um rétt forsjárlauss foreldris til fæðingarorlofs, eigi ekki við í þeim tilvikum þegar barn fæðist andvana og fæðingarorlof sé sannarlega ekki til þess fallið að annast barnið. Þá sé ekki hætta á að réttindi til fæðingarorlofs verði misnotuð. Eðli málsins samkvæmt geti foreldri hvorki notið umgengni við andvana fætt barn né haft forsjá þess. Því sé óeðlilegt að réttur föður til að takast á við sorgarferli og álag sem fylgi fæðingu andvana barns sé bundinn við slíkan ómöguleika. Kærandi bendir á að skilyrði 6. og 7. mgr. 8. gr. laganna fjalli um tilvik þar sem réttur til fæðingarorlofs hafi eða geti stofnast. Ákveðinn ómöguleiki sé fólginn í því að binda tilvik er falli undir 1. mgr. 12. gr. laganna við skilyrði framangreindra ákvæða, enda eigi faðir, sem ekki er í hjónabandi eða skráðri sambúð, ekki möguleika á að fá samþykktan samning um forsjá og umgengni. Þá geti réttindi föður til þess að syrgja og jafna sig á því andlega áfalli sem fylgi andvana fæðingu vart verið bundin skilyrðum sem hann geti ómögulega uppfyllt, enda hér hvorki hægt að semja um forsjá né umgengni.       

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem fram komi að foreldrar eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig frá þeim degi er andvanafæðing eigi sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Í 2. mgr. 12. gr. laganna komi fram að um greiðslur fari samkvæmt 13. gr. þeirra. Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 komi fram að réttur foreldris til fæðingarorlofs sé bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar taka fæðingarorlofs hefjist. Forsjárlaust foreldri eigi þó rétt til fæðingarorlofs liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að það hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof standi yfir, sbr. 7. mgr. 8. gr. laganna.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 76/2003 eigi barn rétt á forsjá beggja foreldra sinna sem séu í hjúskap, sbr. þó 3. mgr. 31. gr., eða hafi skráð sambúð sína í þjóðskrá. Í 2. mgr. komi fram að ef foreldrar barns séu hvorki í hjúskap né skráðri sambúð við fæðingu barns þá fari móðir ein með forsjá þess, sbr. þó 1. mgr. 32. gr. Í því ákvæði sé fjallað um að foreldrar geti samið um að forsjá barns verði sameiginleg en samningur um forsjá barns öðlist gildi við staðfestingu sýslumanns, sbr. 5. mgr. 32. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds hafi Fæðingarorlofssjóður litið svo á að faðir öðlist ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna andvanafæðingar nema hjúskaparstaða/sambúðarstaða hans og móðurinnar hafi verið með þeim hætti að hann hefði sjálfkrafa hlotið forsjá barnsins samkvæmt barnalögum við fæðingu þess. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands hafi móðir barns kæranda farið ein með forsjá þess við fæðingu. Fæðingarorlofssjóður telji því að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

IV. Niðurstaða

 

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna andvanafæðingar barns. Barn kæranda fæddist andvana X eftir rúmlega 39 vikna meðgöngu.

Lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof veita að meginreglu til hvoru foreldri um sig sjálfstæðan rétt til greiðslu fæðingarorlofs eða -styrks í allt að þrjá mánuði og sameiginlegan rétt til þriggja mánaða vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laganna. Í 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 20. gr. laganna eru sérreglur um fæðingarorlof og -styrk vegna andvanafæðingar og fósturláts. Þar kemur fram að foreldrar eigi sjálfstæðan rétt á fæðingarorlofi eða -styrk í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu en í allt að tvo mánuði frá þeim degi er fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu á sér stað.

Meginmarkmið hinna almennu reglna 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laganna er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, sbr. 2. gr. laganna. Markmið sérreglna 12. og 20. gr. er aftur á móti að gefa foreldrum svigrúm til að jafna sig eftir andvanafæðingu eða fósturlát, líkt og vikið er að í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 18/2016, um breytingu á lögum nr. 95/2000.

Kæranda var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeirri forsendu að forsjá barnsins eftir fæðingu þess hafi verið í höndum barnsmóður hans, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000. Um rétt forsjárlauss foreldris til töku fæðingarorlofs er mælt fyrir um í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 en þar kemur fram að forsjárlaust foreldri eigi rétt á fæðingarorlofi liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fari með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof standi yfir. Í máli þessu liggur fyrir að barn kæranda fæddist andvana. Reglur um umgengni og forsjá geta þannig eðli málsins samkvæmt ekki átt við og verður því ekki litið til þeirra.

Ljóst er að afar ólík markmið búa að baki reglum laga nr. 95/2000 sem gilda í þeim tilvikum þegar barn fæðist lifandi eða þegar um andvana fæðingu er að ræða. Í 1. mgr. 12. gr. laganna er skýrt kveðið á um sjálfstæðan rétt foreldris til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði vegna andvana fæðingar barns. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvanafæðing átti sér stað að öðrum skilyrðum uppfylltum. Að því virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til Fæðingarorlofssjóðs til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. mars 2017, um synjun á umsókn A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta