Hoppa yfir valmynd
31. desember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Alþjóðlegur sérfræðingahópur skilar mati vegna umsóknar Kvikmyndaskóla Íslands um háskólaviðurkenningu

Alþjóðlegur sérfræðingahópur skilar mati vegna umsóknar Kvikmyndaskóla Íslands um háskólaviðurkenningu - myndUnsplash / KAL VISUALS

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipaði nýverið, að tillögu gæðaráðs íslenskra háskóla, matsnefnd erlendra sérfræðinga til að fjalla um umsókn Kvikmyndaskóla Íslands um háskólaviðurkenningu. Gert var ráð fyrir að matið færi fram í tveimur áföngum og núna liggur fyrir niðurstaða í fyrri hluta þess.

Kvikmyndaskóli Íslands hefur frá árinu 2003 starfað sem einkaskóli á framhaldsskólastigi. Frá árinu 2019 hefur nám við Kvikmyndaskólann verið viðurkennt sem viðbótarnám á framhaldsskólastigi á fjórða hæfniþrepi. Með umsókn um háskólaviðurkenningu stefnir Kvikmyndaskólinn að því að bjóða upp á tveggja ára diplómanám í kvikmyndagerð á háskólastigi og viðbótarnám í samstarfi við háskóla.

Formaður matsnefndarinnar er Stephen Jackson og aðrir nefndarmenn eru Christina Rozsnyai og Ralph A. Wolff. Ráðuneytið skipaði jafnframt Þorstein Gunnarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, til að hafa umsjón með verkefninu. Matsvinnan byggðist m.a. á að meta upplýsingar frá skólanum með hliðsjón af viðmiðum sem koma fram í handbók ráðuneytisins um viðurkenningar háskóla sem var birt í júní 2022. Eftir að nefndin fór yfir umsóknargögn og átti fundi með fulltrúum skólans hefur hún skilað matsskýrslu til ráðherra.  Í skýrslunni er m.a. bent á mikilvægi skólans fyrir við vaxandi kvikmyndaiðnað í landinu og góð tengsl við iðnaðinn. Ennfremur er skólanum hrósað sérstaklega fyrir framúrskarandi kvikmyndir sem nemendur gera sem hluta af námi sínu þar. Í skýrslunni koma einnig fram ýmsar tillögur um úrbætur í starfsemi skólans.

Meginniðurstöður nefndarinnar eru eftirfarandi:

  • Kvikmyndaskólinn uppfyllir ekki gildandi viðmið um að mega kalla sig háskóla. Umsókn skólans miðast aðeins við að bjóða upp á diplóma gráðu á grunnstigi háskólanáms. Núverandi staða skólans með takmarkað námsframboð og rannsóknagetu réttlætir ekki að hann taki að sér hlutverk háskóla. (The IFS does not fulfil criteria for a university title in that it only proposes to offer a diploma at higher education level 5 and lacks the scope and volume of teaching and research capacity to justify a university role.)
  • Eigi að síður telur matsnefndin að diplómanám skólans sé hæft til viðurkenningar á fyrsta þrepi (1.1) háskólastigs. Þessu til staðfestingar mælir nefndin með því að ráðuneytið láti fara fram viðbótarmat (áfangi 2) á starfsemi skólans, sem framkvæmt verði af sérfræðingum frá kvikmyndaháskólum, eftir að skólinn hefur skilað úrbótaáætlun til ráðuneytisins. (However, the committee finds that the IFS diplomas are accreditable at higher education level 5. To confirm this, a Stage 2 review, conducted by independent Film School experts is recommended, after the IFS has acted on the recommendations in this report, according to a timed action plan approved by the Ministry.)

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fagnar útgáfu skýrslunnar og mun fylgja eftir niðurstöðum nefndarinnar. Starfsemi Kvikmyndaskólans hafi mjög mikla þýðingu fyrir kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi sem er í mikilli þróun. Hún segir ennfremur að niðurstaða skýrslunnar sé jákvæður vitnisburður um gæði þess náms sem fram fer í Kvikmyndaskólanum og geti nýst skólanum vel bæði við þróun enn betra náms og í samstarfi við skóla á háskólastigi hér á landi sem og erlendis. 

Kvikmyndaskóli Íslands stefnir að því að færa alla starfsemi skólans af framhaldsskólastigi á háskólastig að fenginni háskólaviðurkenningu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta