Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 32/2020 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 29. janúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 32/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU19120062 og KNU19120063

 

Beiðni [...] og [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 569/2019, dags. 5. desember 2019, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 2. september 2019, um að taka umsóknir einstaklinga er kveðast heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir K) og [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir M), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 9. desember 2019. Þann 16. desember 2019 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 19/2020 dags. 10. janúar 2020, var beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa samþykkt. Þann 29. desember 2019 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku. Þá bárust kærunefnd frekari gögn þann 2. janúar 2020.

Krafist er endurupptöku á málum K og M og að felldar verði úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hér á landi.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem þau telji að ákvarðanir í málum þeirra hafi verið byggðar á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.

Í beiðni kærenda kemur fram að K hafi fætt barn þeirra þann [...]. Til stuðnings því lögðu kærendur fram gögn sem staðfesta fæðingu barnsins. Vísi kærendur til þess að við meðferð mála þeirra hafi stjórnvöld gengið út frá því að K sé þunguð og þar sem barnið sé nú fætt þurfi að fara fram heildstætt mat á hagsmunum þess. Þá ítreki kærendur að barn þeirra sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Einnig telji kærendur að ekki hafi farið fram heildstætt mat á heilsufari þeirra og vísi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. desember 2019 í máli nr. E-6459/2019. Í málinu hafi stjórnvald verið talið hafa brotið gegn rannsóknarskyldu sinni með því að hafa ekki rannsakað andlegt heilsufar umsækjanda um alþjóðlega vernd með fullnægjandi hætti. Kærendur byggja á því að það sé ekki í samræmi við hagsmuni barnsins að fara aftur til Grikklands. Við mat á hagsmunum þess skuli líta til viðkvæmrar stöðu fjölskyldunnar og þeirrar verndar sem barnið eigi rétt á samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og öðrum reglum sem íslensk stjórnvöld séu bundin af þjóðarrétti að virða. Telji kærendur að úrskurður kærunefndar í málum þeirra beri með sér að aðstaða barns þeirra hafi ekki verið rannsökuð sérstaklega enda hafi barnið verið ófætt. Stjórnvöldum beri að leggja mat á hagi og aðstöðu barnsins á núverandi tímamarki og hvað sé því fyrir bestu. Byggi kærendur á því að falli einstaklingur undir gildissvið 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga leiði það til þess að hann eigi að hljóta efnismeðferð hjá stjórnvöldum. Telji kærendur að skilyrði 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt þar sem ákvörðunin hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum og séu aðstæður þeirra breyttar vegna fæðingar barns þeirra.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í málum kærenda þann 5. desember 2019. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærendur hefðu slík tengsl við landið eða að sérstakar ástæður mæltu með því að taka ætti umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærendur byggja endurupptökubeiðni sína á framangreindu ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga. Til stuðnings beiðni sinni lögðu kærendur fram gögn, dags. [...], sem staðfesta fæðingu barns þeirra. Af gögnunum verður ekki annað ráðið en að barnið sé heilbrigt. Í úrskurði kærunefndar nr. 569/2019 frá 5. desember 2019 lá það fyrir samkvæmt gögnum málanna að K væri barnshafandi og væri gengin u.þ.b. [...] á leið. Var það mat kærunefndar að fjölskyldan í sameiningu teldist hafa sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þyrfti tillit til við meðferð málsins. Í fyrrgreindum úrskurði var tekin afstaða til aðstæðna kærenda og lagt mat á hagsmuni barnsins, m.t.t. flutnings fjölskyldunnar til viðtökuríkis. Það var mat nefndarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum kærenda og umfjöllunar um aðstæður barna með alþjóðlega vernd í Grikklandi í úrskurðinum, að flutningur fjölskyldunnar til Grikklands samrýmdist hagsmunum barnsins þegar litið væri m.a. til öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Í úrskurðinum kom m.a. fram að barnið ætti rétt á að fá dvalarleyfi á grundvelli verndar foreldra sinna í viðtökuríki og myndi þ.a.l. hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu í landinu, þ. á m. bólusetningum og annarri ungbarnavernd. Var það því niðurstaða kærunefndar að leggja til grundvallar við úrlausn málanna að kærendur og barn þeirra hefðu aðgang að heilbrigðisþjónustu og öðrum réttindum sem fælust í alþjóðlegri vernd þeirra. Þá kom fram að við endursendingu kærenda og væntanlegs barns þeirra til viðtökuríkis teldi kærunefnd nauðsynlegt að þau stjórnvöld sem annist flutning á kærendum til viðtökuríkis geri viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að heilsa kærenda og barns þeirra verði nægilega tryggð og að hlúð verði sérstaklega að hagsmunum hins nýfædda barns. Verður því talið að í fyrrgreindum úrskurði hafi kærunefnd lagt mat hagsmuni barns kærenda m.t.t. aðstæðna þess og að niðurstöður í málum kærenda hafi tekið mið af viðkvæmri stöðu fjölskyldunnar í heild. Ljóst sé að afstaða hafi verið tekin til hagsmuna barnsins í úrskurði kærunefndar frá 5. desember 2019, en að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram við meðferð þessa endurupptökumáls sem bendir til þess að hagir eða heilsa barnsins sé með þeim hætti að það sé til þess fallið að breyta því mati kærunefndar.

Kærendur byggja einnig á því að ekki hafi farið fram heildstætt mat á andlegu heilsufari þeirra. Kærendur vísa til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. desember 2019 í máli nr. E-6459/2019. Það mál fjallaði m.a. um gagnaöflun varðandi andlega heilsu kæranda þess máls en kærendur þessara mála eru foreldrar sem nú hafa eignast barn. Kærunefnd telur málin ekki sambærileg. Nefndin úrskurðaði í málum kærenda á grundvelli þeirra gagna sem lágu fyrir í málinu, þ.m.t. heilsufarsgagna sem voru lögð fram við meðferð málanna. Það er mat kærunefndar að þau heilsufarsgögn sem lágu fyrir við meðferð málsins hafi ekki gefið tilefni til þess að afla þyrfti frekari gagna um heilsufar þeirra. Gögnin bera ekki með sér að þau glími við sérstök heilsufarsvandamál, s.s. andleg eða líkamleg veikindi. Það er mat kærunefndar að málin hafi verið upplýst á fullnægjandi hátt er varðar heilsufar þeirra. Þá verður ekki séð að nefndin hafi ekki beðið eftir gögnum sem þýðingu gætu haft fyrir niðurstöðu þessara mála. Ljóst er því að tilvísaður dómur hefur ekki þýðingu fyrir mál kærenda.

Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að upplýsingar um fæðingu barns kærenda leiði ekki til þess að úrskurður kærunefndar nr. 569/2019 teljist hafa byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, né að atvik málanna hafi breyst verulega frá því að umræddur úrskurður var birtur, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærunefnd að framkomin gögn og upplýsingar séu ekki til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöðu málanna.

Að teknu tilliti til gagna málanna er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 5. desember 2019, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málanna hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um endurupptöku málanna því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kærenda er hafnað.

 

The request of the appellant‘s is denied.

 

 

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

 

Árni Helgason                                                                                  Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta