Hoppa yfir valmynd
8. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skýra þarf ábyrgð og bæta þjónustu við fötluð börn

Fjölga þarf úrræðum fyrir börn sem greinast með þroskafrávik og geðraskanir og koma í veg fyrir að togstreita milli ráðuneyta, ríkis og sveitarfélaga um greiðslu kostnaðar fyrir meðferð og úrræði bitni á þjónustu við börn. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, á vorþingi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

Ráðherra sagði átak til að stytta bið eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar hafa gengið samkvæmt áætlun og þakkaði starfsfólki stöðvarinnar sérstaklega fyrir framlag þeirra við það verkefni. Ráðherra ræddi jafnframt þá staðreynd að eftir því sem greiningum fjölgaði kæmi æ betur í ljós skortur á meðferð og úrræðum og það væri áhyggjuefni. Sömuleiðis sýndi sig að oft væri togstreita milli ráðuneyta, ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd og kostnað vegna meðferðar og annarra úrræða sem bitnuðu á þjónustu við börnin og brýnt væri að taka á því:

„Vandamálið þar eins og þið kannski þekkið er að að þessum úrræðum þurfa að koma bæði mörg ráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og síðast en ekki síst sveitarfélögin. Sumar aðgerðir sem grípa þarf til eru á gráu svæði og stundum togast þær á milli, ýmist innbyrðis milli ráðuneyta eða milli ríkis og sveitarfélaga, hver á að framkvæma hlutina og hver á að borga fyrir meðferð og úrræði. Og á meðan líða börnin og foreldrar þeirra, og reyndar fagfólkið líka sem horfir upp á brýna þörf en getur ekkert gert þar sem kostnaðurinn er orðinn bitbein milli þessara aðila.

Þetta er óþolandi ástand sen við í félags- og tryggingamálaráðuneytinu erum staðráðin í að bæta úr. Ég nefni sem dæmi að ég hef undir höndum mjög góða skýrslu um þjónustuþörf fyrir langveik börn, unnin undir forystu Ingibjargar Georgsdóttur, barnalæknis á Greiningarstöð ríkisins, vönduð og fín skýrsla með tillögum um úrlausnir. En þegar við rýnum í lausnirnar þá rekumst við á veggi vegna þess að fjárhagsleg ábyrgð og undir hvaða verksvið málið fellur er óljós og tefur fyrir lausn mála.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp Jóhönnu Sigurðardóttur á vorþinginu



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta