Engar auknar álögur á íbúa sambýla
Í tilefni fréttar í Morgunblaðinu í dag, 8. maí 2008, vill Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, koma eftirfarandi á framfæri:
„Í tilefni umfjöllunar á baksíðu Morgunblaðsins í dag, 8. maí, um kaup á heimilistæki í sambýli í Reykjavík vil ég undirstrika að hvorki hefur verið tekin ákvörðun um breytingu á því fyrirkomulagi sem byggt hefur verið á við kaup á búnaði og heimilistækjum á sambýlum né gefin nokkur fyrirmæli þar að lútandi. Engar ákvarðanir hafa því verið teknar um auknar álögur eða aukna þátttöku íbúa á sambýlum í rekstrarkostnaði. Ég hef farið yfir þetta mál með forsvarsmönnum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík og sá misskilningur sem þar kom upp verður leiðréttur.
Hins vegar vil ég upplýsa að í desember síðastliðnum óskaði ég eftir löngu tímabærri endurskoðun á reglugerð nr. 296/2002, um búsetu fatlaðra, þar sem meðal annars er fjallað um þennan þátt. Mikil þróun á sér nú stað í uppbyggingu einstaklingsbundinnar þjónustu við fatlaða og sjálfstæðrar búsetu þar sem byggt er á þeim forsendum að lífsgæði einstaklinganna séu tryggð. Það vil ég tryggja og ég vil að þær reglur sem gilda í framtíðinni um búsetu fatlaðra á sambýlum og nú eru í smíðum byggi á þeirri grundvallarforsendu í einu og öllu.“