Hoppa yfir valmynd
4. júní 2018 Utanríkisráðuneytið

Friðargæsla fyrir hálft prósent hernaðarútgjalda

Í síðustu viku var þess minnst af hálfu Sameinuðu þjóðanna að 70 ár voru liðin frá stofnun fyrstu friðargæslusveita samatakanna. Yfirskrift alþjóðadags friðargæsluliða var að þessu sinni „70 ára þjónusta og fórnir“ en þann dag, 29. maí, var þess minnst að rúmlega 3,700 friðargæsluliðar hafa týnt lífi í þjónustu friðarins frá stofnun fyrstu friðargæslusveitanna árið 1948. Þar af létust 129 á síðasta ári.

Í frétt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) segir að fyrsta friðargæslusveitin hafi verið fámenn sveit eftirlitsmanna sem send var til Mið-Austurlanda á vegum Vopnahléseftirlits Sameinuðu þjóðanna (UNTSO) í því skyni að fylgjast með því að vopnahléssamningur Ísraels og arabískra nágrannaríkja væri virtur.

„Síðastliðna sjö áratugi hafa meira en ein milljón karla og kvenna þjónað undir fána Sameinuðu þjóðanna í sjötíu og einu friðargæsluverkefni og haft þannig bein áhrif á líf hundruð milljóna, en fyrst og fremst verndað þá sem höllustum standa fæti og bjargað óteljandi mannslífum. Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna hafa fært miklar fórnir, hafa stofnað sér í lífshættu og þjónað friði við oft og tíðum erfið skilyrði,“ segir í fréttinni.

Þar kemur fram að Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna hafi veitt liðsinni í ríkjum frá Sierra Leone til Kambódíu, í Timor-Leste, Namibíu og El Salvador við að brúa bilið á milli stríðs og friðar. Þess sé líka skemmst að minnast að Friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna í Líberíu (UNMIL) lauk hlutverki sínu eftir árangursríkt starf í mars á þessu ári.

Í fréttinni segir að í dag séu rúmlega eitt hundrað þúsund hermenn, lögreglumenn og óbreyttir borgarar í þjónustu friðargæslu Sameinuðu þjóðanna í 14 friðargæslusveitum í fjórum meginlöndum. Alls leggja 124 aðildarríki samtökunum til mannskap. „Þrátt fyrir fjölda friðargæsluliða og mikla landfræðilega dreifingu kostar starf friðargæslunnar 7 milljarða dollara, eða andvirði hálfs prósents hernaðarútgjalda heimsins,“ segir í frétt UNRIC. 

Fyrr á þessu ári beitti aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sér fyrir frumkvæði sem nefnist “Aðgerðir í þágu friðargæslu,” (“Action for Peacekeeping”). Það miðar að sögn UNRIC að því að endurskipuleggja friðargæsluna með raunhæf markmið í huga, efla stuðning við pólítískar lausir og efla friðargæslusveitirnar sjálfar og gera þær öruggari með því að beit vel búnum og vel þjálfuðum sveitium, auk þess að fjölga konum í röðum þeirra.

Íslenska friðargæslan

Framlag Íslands til friðaruppbyggingar er mikilvægur liður í alþjóðasamstarfi Íslands og grundvallarþáttur í störfum innan Sameinuðu þjóðunum. Auk fjárframlaga til alþjóðlegrar friðargæslu SÞ felst þátttaka Íslands í friðargæsluverkefnum í störfum sérfræðinga á vettvangi. Íslenska friðargæslan heyrir undir nýja varnarmálaskrifstofu í utanríkisráðuneytinu. Þróunarsamvinnuskrifstofa annast hliðstæða þátttöku í verkefnum erlendis á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar.

Á síðasta ári tóku tíu einstaklingar þátt í verkefnum á vegum Íslensku friðargæslunnar á sviði öryggis- og varnarmála, fjórar konur og sex karlar. Sérfræðingarnir starfa í Afganistan þar sem verkefni Atlantshafsbandalagsins halda áfram, á tengiliðaskrifstofu bandalagsins í Georgíu, og í höfuðstöðvum samstöðuaðgerðar bandalagsins í Eistlandi. Þar að auki hefur verið gerð úttekt á þjálfunarverkefni fyrir sprengjueyðingasérfræðinga í Írak og tveir fulltrúar sprengjueyðingasveitar Landhelgisgæslunnar eru þar núna.

Borgaralegum sérfræðingum á vegum Íslands í störfum hjá Atlantshafsbandalaginu hefur fjölgað úr fjórum í upphafi árs 2016 í níu við árslok 2017. Stefnt er að því að árið 2018 verði að jafnaði 11 stöður sérfræðinga á vegum Íslands í verkefnum hjá Atlantshafsbandalaginu, auk sprengjueyðingasérfræðinga Landhelgisgæslunnar. Framlaginu er ætlað styðja við starf bandalagsins samhliða því að efla getu og sérfræðiþekkingu í öryggis- og varnarmálum á Íslandi.

Íslenska friðargæslan hefur einnig um árabil annast þátttöku Íslendinga í kosningaeftirliti á vegum Skrifstofu fyrir lýðræðislegar stofnanir og mannréttindi (e. Office for Democratic Institutions and Human Rights, ODIHR) í Varsjá sem er undirstofnun Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Árið 2017 sendi utanríkisráðuneytið alls sex manns í kosningaeftirlit í Armeníu, Albaníu og Georgíu á vegum ODIHR.

Friðargæsluliðar sem starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar eru borgaralegir sérfræðingar á ýmsum sviðum. Enginn þeirra ber vopn. Í störfum Íslensku friðargæslunnar er lögð mikil áhersla á jafna kynjaskiptingu í hópi sérfræðinga sem starfa erlendis og allir útsendir sérfræðingar sækja námskeið í jafnréttismálum. Í lok síðasta árs var tekinn í notkun nýr viðbragðslisti og verkefnagrunnur og nú eru rúmlega hundrað einstaklingar samþykktir á viðbragðslistann. Opið er fyrir umsóknir um skráningu á viðbragðslistann allt árið.

Frétt UNRIC

Friðargæsla SÞ er „góð fjárfesting”/ UNRIC

Friðargæsla: sterkar norrænar kvenfyrirmyndir (UNRIC)

Vefur Íslensku friðargæslunnar

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta