Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 12. nóvember 2021

Heil og sæl.

Það hefur verið nóg um að vera í utanríkisráðuneytinu í vikunni. Hér að neðan færir upplýsingadeild ykkur það helsta.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hóf vikuna á fundi með Lopu Banerjee, einum af framkvæmdastjórum UN Women. Fundur þeirra fór fram í utanríkisráðuneytinu og var stuðningur og þátttaka Íslands í átaksverkefni UN Women og bakslag í jafnréttismálum á alþjóðavísu efst á baugi. 

Á þriðjudag tók ráðherra þátt í formlegri opnun Heimsþings kvenleiðtoga sem fór fram í Hörpu. Staða og hlutverk Íslands í jafnréttismálum á alþjóðavísu var efst á baugi á þessum opnunarviðburði.

Í tengslum við ráðstefnuna átti svo Guðlaugur Þór fund með Ulrik Vestergaard Knudsen, aðstoðarframkvæmdastjóra OECD, sem var á meðal gestgjafa heimsþingsins í ár. Á fundinum fór Knudsen yfir helstu áherslumál OECD á sviði jafnréttismála og vakti athygli á starfi stofnunarinnar sem miðar að því að aðstoða aðildarríkin í starfi að jafnréttismálum, sjálfbærni og grænum lausnum. Ráðherra þakkaði Knudsen fyrir framlag hans á Heimsþinginu og sagði að Ísland myndi áfram styðja heilshugar við verkefni OECD í málaflokkunum. Jafnframt ræddu þeir stækkunarmál stofnunarinnar en Argentína, Búlgaría, Brasilía, Króatía, Perú og Rúmenía sækjast nú eftir aðild að OECD.

Guðlaugur Þór átti fjarfund með mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna í vikunni í tilefni undirritunar rammasamnings um stuðning við skrifstofu mannréttindafulltrúans (OHCHR) um 20 milljónir króna á ári næstu þrjú árin, 2021 til 2023. Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi SÞ, undirritaði samninginn fyrir hönd skrifstofunnar.

Ráðherra fundaði jafnframt með Tim Radford, hershöfðingja og næstæðsta yfirmanns Evrópuherstjórnar Atlantshafsbandalagsins (DSACEUR), sem heimsótti Ísland nú í vikunni. Öryggis- og varnarmál og staða og horfur í alþjóðamálum voru í brennidepli á fundi þeirra. Radford fundaði einnig með Martin Eyjólfssyni ráðuneytisstjóra og fleira embættisfólki úr ráðuneytinu þar sem öryggispólitísk málefni í deiglu Atlantshafsbandalagsins voru í forgrunni, fjölþáttaógnir og varnartengd verkefni hér á landi.

Þá fór ráðherrafundur norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO) fram í vikunni. Horfur í öryggismálum í Norður-Evrópu og málefni Afganistans voru meðal umfjöllunarefna á fundinum sem fór fram í Majvik í Kirkkonummi í útjaðri Helsinki. Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri öryggis- og varnarmálaskrifstofu, tók þátt í fundinum í fjarveru utanríkisráðherra.

Við sögðum svo frá því í vikunni að fulltrúar Íslands hefðu kynnt áherslur sínar vegna framboðs til framkvæmdastjórnar UNESCO á aðalráðstefnu stofnunarinnar.  Um er að ræða sameiginlegt norrænt framboð en Norðurlöndin hafa í sameiningu lagt ríka áherslu á að norrænt ríki eigi sæti í stjórn UNESCO. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpaði ráðstefnuna fyrir hönd íslenskra stjórnvalda þar sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra átti ekki heimangegnt. Í ávarpinu kynnti ráðherrann áherslur Íslands vegna framboðsins sem kosið verður um í næstu viku

Vert er svo að minnast á viðtal við Guðlaug Þór á RÚV en hann settist við Heimsglugga Boga Ágústssonar í vikunni og ræddi við hann um þær tillögur sem settar voru fram í Færeyjaskýrslunni sem kom út fyrr á árinu.

Að lokum birtum við hér kveðju sem Guðlaugur Þór sendi Yoshimasa Hayashi, nýjum utanríkisráðherra Japans. Þeir Guðlaugur þór hittust í Tókýó árið 2018 er Hayashi var menntamálaráðherra.

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Það er við hæfi að byrja í Japan þar sem Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra hefur haft í nógu að snúast. Málefni hafsins voru til umræðu á fundi hans með fulltrúa heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna þar í landi. Þá hitti hann einnig Mirika Nakayama, framvkæmdastjóra og forseta fyrirtækisins ITC-AeroLeasingITC-AeroLeasing.

Auk þess var tilkynnt um sigurvegara í ljósmyndakeppni sem sendiráðið í Tókýó efndi til í tilefni 20 ára afmælis þess.

Okkar fólk í sendiráðinu í London hefur haft í nógu að snúast vega loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, COP26, sem fer brátt að ljúka.

Í gær opnaði svo í sendiráðinu fyrsta einkasýning listakonunnar Hendrikku Waage; Wonderful Beings.

Í Moskvu sótti Árni Þór Sigurðsson sendiherra hádegisverðarfund með Dmítríj Múratov, ritstjóra Novaja gazeta og handhafa Friðarverðlauna Nóbels. Fundurinn var í boði sendiherra Noregs og sóttu hann, auk heiðursgestsins, sendiherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.

Guðni Bragason sendiherra á Indlandi og Sigþór Hilmisson staðgengill hans áttu á dögunum óformlegt samtal með Parshottam Kodahai Rupala, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Indlands á heimili hans. Þetta var fyrsti fundur með háttsettum aðila í sjávarútvegi síðan COVID-ástandið hófst. Megin umræðuefnið var að fylgja eftir samstarfsyfirlýsingunni um sjávarútvegsmál, sem gerð var 2019.

Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra Íslands í Noregi var í viðtali við menningardeild RÚV við opnun listahátíðarinnar Head2Head í Aþenu um það mikla samstarf sem nú hefur myndast milli listamanna á Íslandi og Grikklandi. Ingibjörg er jafnframt sendiherra gagnvart Grikklandi og heimsótti landið á dögunum í embættiserindum. Í Aþenu bauð hún til móttöku í tilefni af hátíðinni.

Í Brussel var norðurslóðastefna Evrópusambandsins, EU Arctic Forum 2021, sett í gær. Fyrrverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var meðal frummælenda á ráðstefnunni. Hann brýndi fyrir áheyrendum utanríkispólitíska þýðingu norðurslóða og hvatti þá til að veita athygli þeirri umbreytingu sem orðið hefur á vægi norðurslóða á síðustu árum.

Í Brussel var einnig haldinn árlegur fundur fjármála- og efnahagsráðherra EFTA og ESB í vikunni. Yfirskrift fundarins var: „Þróun efnahagslífsins eftir Covid; áskoranir og tækifæri“.

Í París hefur okkkar fólk haft í nógu að snúast vegna aðalráðstefnu UNESCO sem fram fór í vikunni. Eina af fjölmörgum færslum sendiráðsins á Twitter á síðustu dögum má sjá hér að neðan.



Okkar fólk í Stokkhólmi tók svo þátt í ferðaráðstefnu þar í borg í gær. 

Fyrstu opnu viðburðir sendiráðs Íslands í Berlín frá því í mars 2020 fóru fram að viðhöfðum ströngum sóttvarnarreglum í sameiginlega húsi norrænu sendiráðanna í Berlín. Á föstudaginn í síðustu viku fóru fram jazztónleikar þar sem píanistinn Ingi Bjarni Skúlason kynnti frumsamda tónlist ásamt kvintetti sínum, tónlistarfólki frá Noregi og Svíþjóð.

Á mánudaginn var fór fram lestur og kynning á bók Ragnars Jónassonar „Hvíta dauða“ sem nýlega kom út í þýskri þýðingu undir heitinu „Frost“. Sendiherra María Erla Marelsdóttir bauð gesti velkomna. Ragnar var í kynningarferð um Þýskaland á vegum forlags síns btb og kom við í Lüneburg og München.

Í síðustu viku var María Erla stödd í Varsjá þar hún átti fundi með ýmsum aðilum innan menningar- og viðskiptageirans í Póllandi. Einnig hitti hún fyrir norræna kollega sína í Varsjá. Heimsóknin var kórónuð með fundum með aðilum innan pólska stjórnkerfisins, en María Erla átti fundi með vararáðuneytisstjóra pólska umhverfis- og loftlagsmálaráðuneytinu, Adam Guibourgé-Czetwertyński, og ráðuneytisstjóra pólska varnarmálaráðuneytisins, Marcin Ociepa.

Í Finnlandi sótti Auðunn Atlason sendiherra fund með umhverfisráðherra Finnlands þar sem rætt var um loftslagsbreytingar og hlutverk fjármálastofnana.

Í vikunni hitti Þórir Ibsen sendiherra Íslands í Kína m.a. forseta flugfélagsins Juneyao Air í Shanghai, sem sýnt hefur flugi til Íslands áhuga. Þá hitti hann einnig framkvæmdastjóra skipulagsnefndar Kínverja fyrir vetrarólympíuleikana og vetrarólympíumót fatlaðra. Leikarnir fara fram á næsta ári. Að vanda bendum við svo á virka fréttaveitu sendiráðsins á enskum vef ráðuneytisins.

Í Washington hitti Bergdís Ellertsdóttir sendiherra nemendur GW Elliott skólans þar sem hún ræddi um Ísland og norðurslóðir. 

Þá hélt okkar fólk á fund Harry R. Kamian, fyrrum forstöðumann sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi, sem nú starfar í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna þar sem hann vinnur að orkumálum.

Í New York hljóp svo Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, fyrir góðum málstað í AbbottDash5K-hlaupinu svokallaða. Markmiðið var að hvetja til aðgerða strax til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Í Kanada vakti sendiráð Íslands í Ottawa svo athygli á tilkynningu um fyrstu atriðin sem eru komin á dagskrá menningarverkefnisins Nordic Bridges. Nordic Bridges er stærsta norræna menningarverkefnið sem haldið hefur verið utan Norðurlandanna, þar sem það fer fram á tíu stöðum í Kanada og leiðir saman nærri 20 samstarfsaðila víða í landinu frá janúar til desember 2022. 

Þá tók Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Kanada þátt í athöfn í Ottawa á minningardegi látinna hermanna (e. Remembrance Day). 

Við segjum þetta gott í bili.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta