Teymi um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar Covid-19 sett á laggirnar
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafa sett á laggirnar teymi um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar Covid-19 faraldursins. Hefur teymið það hlutverk að safna og miðla upplýsingum um stöðu félags- og atvinnumála á landsvísu vegna faraldursins og fylgja eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar er þetta varðar.
Teymið fær reglulega upplýsingar um stöðu atvinnumála, sveitarfélaga, stofnana og annarra viðeigandi aðila, upplýsir ráðherra og formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, og eftir atvikum aðra hlutaðeigandi aðila, með reglubundnum hætti og setur fram tillögur að aðgerðum ef þörf krefur.
Teymið mun fjalla um vinnumarkaðsmál, nýgengi og ástæður örorkumats, fjárhagsstöðu heimilanna, velferðarþjónustu sveitarfélaga, framboð leiguhúsnæðis og þróun húsnæðisbóta, ásamt því að hafa eftirfylgd með verkefnum er varða félags- og atvinnumál sem ríkisstjórn Íslands hefur ráðist í vegna Covid-19.
Fulltrúar í teyminu koma frá félagsmálaráðuneytinu, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vinnumálastofnun, umboðsmanni skuldara, samtökum félagsmálastjóra og Reykjavíkurborg. Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins, er formaður teymisins.
Ráðgefandi aðilar við uppbyggingarteymið verða t.d. stjórnendur í velferðarþjónustu, Velferðarvaktin, forsvarsmenn hagsmunasamtaka, fulltrúar atvinnulífsins, frjáls félagasamtök, fulltrúar barna og ungmenna, fulltrúar háskólasamfélagsins og/eða aðrir aðilar sem hafa sérþekkingu á þeim málefnum sem um ræðir. Teymið mun funda reglulega með Velferðarvaktinni.
Samhliða þessum aðgerðum hefur verið ákveðið að viðbragðssjóður, sem komið var á fót samhliða stofnun viðbragðsteymis til að draga úr þjónusturofi við viðkvæma hópa vegna áhrifa Covid-19, muni ef þörf krefur áfram veita svigrúm til nauðsynlegra aðgerða í félagsþjónustu sem og í sértækari þjónustu við viðkvæma hópa.