Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 513/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 513/2019

Þriðjudaginn 11. febrúar 2020

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. desember 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar, dags. 5. september 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 2. desember 2019 vegna afgreiðslu Reykjavíkurborgar frá 5. september 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. desember 2019, var óskað eftir afriti af gögnum frá Reykjavíkurborg vegna kærunnar. Svar Reykjavíkurborgar barst 20. janúar 2020 og var það sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 2. febrúar 2020. 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að niðurfelling þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarvogs á fjárhagsaðstoð verði felld úr gildi. Tekin hafi verið ákvörðun um að synja kæranda um fjárhagsaðstoð vegna þess að hann gæti sótt skert réttindi til lífeyrissjóðs. Sú ákvörðun sé brot á fjöldamörgum lögum. Þegar og ef taka lífeyris hefjist fyrir 67 ára aldur þá verði einstaklingar fyrir skerðingu og sú skerðing sé óafturkræf. Hlutverk lífeyrissjóða sé skilgreint í lögum nr. 129/1997 en það sé að veita viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli til æviloka eða örorku. Skilgreining á öldruðum komi svo fram í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 125/1999, sbr. 17. gr. laga nr. 100/2007. Kærandi uppfylli ekki það skilyrði sem fram komi í framangreindum lögum.

Kærandi bendir á að þegar aðilar séu neyddir með fjárhagslegri hindrun að sækja sér skert réttindi til lífeyrissjóðs þá sé það óafturkræft og komi niður á viðkomandi síðar. Það sé augljóslega í andstöðu við markmið laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. 1. gr. þeirra. Í 11. gr. laga nr. 10/1979 sé jafnframt verið að „viðurkenna rétt sérhvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis og sífellt batnandi lífsskilyrða“. Það að hafna einstaklingum um fjárhagsaðstoð og neyða þá til að sækja sér skert réttindi í lífeyrissjóð og jafnvel í örorkubætur sé ekki í anda framangreinds. Það að krefjast þess að viðkomandi sæki sér skert réttindi sé brot á meðalhófsreglu laga nr. 37/1993. Meginsjónarmið að baki meðalhófsreglu séu þau að stjórnvaldi sé ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefni að heldur beri því jafnframt að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra aðila sem athafnir og valdbeiting beinist að. Jafnræðisregla laga nr. 37/1993 sé einnig brotin sem og sá réttur sem kæranda sé tryggður í t.d. 76. gr. laga nr. 33/1944. Lífeyrisréttindi séu eign og samkvæmt 72. gr. laga nr. 33/1944 sé eignarrétturinn friðheldur. Kærandi hafi einnig lögmætar væntingar um að verða ekki mismunað sökum aldurs, félagsaðildar o.s.frv., ekki síst í ljósi mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Á borginni hvíli skylda til að gæta þess við afgreiðslu umsóknar hans að ekki verði á hann hallað í samanburði við aðra íbúa sveitarfélagsins sem geti notið fjárhagsaðstoðar.

Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að í bréfi Reykjavíkurborgar frá 5. september 2019 komi tryggilega fram „að þú kemur ekki til með að eiga rétt á fjárhagsaðstoð þegar 65 ára aldri er náð“. Bréfið rökstyðji einfaldlega synjun. Þá tekur kærandi fram að í 6. gr. laga nr. 40/1991 segi skýrt að „[n]ýti sveitarstjórn þessa heimild skal málsaðila leiðbeint bæði um málskot og kæruleið þegar ákvörðun í máli er kynnt honum og skal niðurstaða liggja fyrir innan 30 daga.“ Í bréfi Reykjavíkurborgar hafi ekki verið minnst á málskot.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að í bréf þjónustumiðstöðvar, dags. 5. september 2019, hafi kærandi verið hvattur til þess að hefja töku lífeyris. Það hafi legið fyrir upplýsingar um að kærandi gæti hafið töku lífeyris við 65 ára aldur (í október 2019) og að hann ætti rétt á lífeyri að fjárhæð um 230.000 kr. við 65 ára aldur. Kærandi hafi fengið greidda fjárhagsaðstoð í nóvember 2019 en hafi ekki sótt um fjárhagsaðstoð að þeim tíma liðnum og því hafi honum ekki verið synjað um fjárhagsaðstoð. Samkvæmt gögnum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hafi framangreint mál því ekki komið til úrlausnar hjá áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkur. Endanleg ákvörðun áfrýjunarnefndar sé skilyrði fyrir því að unnt sé að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. heimild í 6. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Áfrýjunarnefnd hafi ekki fjallað um framangreint mál og tekið afstöðu í því. Auk þess liggi hvorki fyrir umsókn kæranda né synjun þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð sem kærandi vísi til í kæru sinni. Því verði að telja að framangreind kæra sé ekki tæk til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

IV.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Af bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 5. september 2019, og svari sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar verður ekki ráðið að tekin hafi verið kæranleg stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta