Hoppa yfir valmynd
29. desember 2023 Innviðaráðuneytið

Endanleg framlög úr Jöfnunarsjóði fyrir árið 2023 vegna útgjaldajöfnunarframlaga, tekjujöfnunarframlaga og framlaga til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur samþykkt tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endurskoðaða úthlutun á tekjujöfnunarframlagi, útgjaldajöfnunarframlagi og framlagi vegna tekjutaps fasteignaskatts fyrir árið 2023.

Útgjaldajöfnunarframlög árið 2023

Ráðherra samþykkti tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endurskoðaða úthlutun á útgjaldajöfnunarframlögum fyrir árið 2023, samkvæmt. 14. grein reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 1088/2018. Samþykkt var að hækka útgjaldajöfnunarframlög sjóðsins vegna ársins 2023 um 750 milljónir króna. Við endurskoðunina var tekið mið af leiðréttum hámarkstekjum á íbúa í hverju sveitarfélagi. Framlögin nema samtals 15,5 milljörðum króna. Þar af eru framlög vegna skólaaksturs úr dreifbýli á árinu um 750 milljónir króna og framlög vegna akstursþjónustu fyrir fatlaða úr dreifbýli nema 25 milljónum. Framlög ársins 2022 námu 12,6 milljörðum króna og hækka framlögin á árinu 2023 því um 2,9 milljarða króna sem er um 23% hækkun. Eftirstöðvar framlaga eru um 3,8 milljarðar króna og hafa þegar komið til greiðslu.

Tekjujöfnunarframlög árið 2023

Þá var samþykkt tillaga ráðgjafarnefndarinnar um endurskoðaða úthlutun á tekjujöfnunarframlögum fyrir árið 2023, samkvæmt 13. grein reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 1088/2018. Við endurskoðun var tekið mið af endanlegum útsvarsstofni sveitarfélaga vegna tekna á árinu 2022. Heildarúthlutun tekjujöfnunarframlaga í ár nemur 1,4 milljarði króna. Um ¾ hlutar framlaganna, 1,05 milljarðar komu til greiðslu í nóvember. Eftirstöðvar framlaga, 350 milljónir króna, hafa þegar komið til greiðslu.

Framlag til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts árið 2023

Ráðherra samþykkti jafnframt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs um endurskoðaða úthlutun á framlagi til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts fyrir árið 2023, samkvæmt reglugerð nr. 80/2001. Endurskoðun tekur mið af auknu ráðstöfunarfjármagni sjóðsins til greiðslu framlagsins. Heildarúthlutun framlagsins í ár nemur 6,5 milljörðum króna. Nú þegar hafa um 6,2 milljarðar komið til greiðslu. Eftirstöðvar framlagsins, um 300 milljónir króna, hafa nú þegar komið til greiðslu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta