Samningar um viðbótarfjárveitingu til landshlutasamtaka undirritaðir
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og framkvæmdastjórar sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga undirrituðu í lok júní samninga um ráðstöfun 200 milljóna kr. aukafjárveitingar til sóknaráætlana landshluta. Fjárveitingin kemur í gegnum aukafjárlög ársins 2020 sem Alþingi samþykkti 30. mars sl. til að bregðast við áhrifum Covid-19 faraldursins á landsbyggðinni.
Ákveðið var að skipta 150 m.kr. jafnt á milli landshluta en 50 m.kr. var skipt á milli landshluta að teknu tilliti til hlutfalls atvinnutekna í gistingu og veitingum árið 2018 á, hverju svæði fyrir sig, byggt á upplýsingum úr skýrslu Byggðastofnunar Atvinnutekjur 2008-2018 eftir atvinnugreinum og svæðum.
Landshlutasamtökum sveitarfélaga á hverju svæði var falið að ráðstafa fjármagninu og er það ýmist gert í gegnum uppbyggingasjóði þeirra eða í gegnum sérstök átaks- eða áhersluverkefni. Í öllum tilvikum er áhersla lögð á verkefni sem eru atvinnuskapandi og/eða stuðla að nýsköpun, einkum í tengslum við þær atvinnugreinar sem orðið hafa fyrir hvað mestum neikvæðum afleiðingum Covid-19 faraldursins á hverju svæði.