Hoppa yfir valmynd
27. október 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

PayAnalytics handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands 2023

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ásamt Garðari Haukssyni og Guðrúnu Þorgeirsdóttur sem tóku við Nýsköpunarverðlaunum Íslands 2023 fyrir hönd PayAnalytics. - mynd

Nýsköpunarverðlaun Íslands 2023 voru veitt við hátíðlega athöfn á Nýsköpunarþingi sem fram fór í Grósku í gær. Hugbúnaðarfyrirtækið PayAnalytics hlýtur verðlaunin í ár en fyrirtækið hefur þróað jafnlaunahugbúnað sem gerir laungreiðendum kleift að mæla launabil, loka launabilum og halda launabilum lokuðum. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, veitti verðlaunin. Guðrún Þorgeirsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar PayAnalytics og Garðar Hauksson, stofnandi og tæknistjóri fyrirtækisins tóku við verðlaununum. 

Við afhendingu verðlaunanna vísaði ráðherra í kvennafrídaginn í vikunni og mikilvægi þess að jafna launamun. ,,Það var einstaklega vel við hæfi í þessari viku að Nýsköpunarverðlaunin fari til fyrirtækis sem berst fyrir jöfnum tækifærum og er með hugbúnað sem getur aukið jafnrétti um allan heim. Nýsköpun á Íslandi er svo fjölbreytt og byggir oft á styrkleikum okkar eins og jafnrétti þar sem við erum svo sannarlega frumkvöðlar,” sagði Áslaug Arna.

Við móttöku Nýsköpunarverðlauna Íslands sagði Guðrún að þegar hugmyndin að PayAnalytics kviknaði hafi það verið mjög fjarlægt að innan nokkurra ára yrði hugbúnaðurinn markaðsleiðandi í Evrópu og Norður-Ameríku. ,,Gulleggið 2016, styrkur Tækniþróunarsjóðs 2018, framsækin íslensk fyrirtæki sem komu í viðskipti, fjárfesting Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins árið 2020 og fjárfesting Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Eyris Vaxtar árið 2021, voru allt lykiláfangar í vegferð okkar. Við erum stolt af því að bætast í hóp þeirra glæsilegu fyrirtækja sem hlotið hafa Nýsköpunarverðlaun Íslands og teljum að árangur PayAnalytics endurspegli mikilvægi stuðnings við öflugt íslenskt sprotasamfélag.”

Um PayAnalytics

Hugbúnaðarfyrirtækið PayAnalytics var stofnað árið 2018 með það að markmiði að þróa hugbúnað til að auðvelda fyrirtækjum af öllum stærðargráðum, hvar sem er í heiminum, að borga sanngjörn laun og vinna þannig gegn mismunun sem byggir á kyni, uppruna, aldri, kynhneigð eða öðrum þáttum sem ekki eiga að hafa áhrif á laun. 

PayAnalytics sprettur upp úr sterku jafnréttisumhverfi á Íslandi og er því með fullmótaða vöru nú þegar flest önnur lönd eru rétt að hefja vinnu við útrýmingu launabila. Hugbúnaðurinn er þegar notaður til að greina laun hjá 40% fólks á atvinnumarkaði á Íslandi. Þá hefur hugbúnaðurinn náð hraðri útbreiðslu í bæði Evrópu og Norður-Ameríku og er nú í notkun í 75 löndum þar sem hann stuðlar að því að tryggja sanngjörn laun hjá yfir milljón starfsfólks hjá nokkrum af stærstu og þekktustu fyrirtækjum heims. 

Nýsköpunarverðlaun Íslands

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Hugverkastofunni, Rannís, Íslandsstofu og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsókna- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara

Meðal handhafa Nýsköpunarverðlauna Íslands síðustu ár eru Sidekick Health (2022), Lauf Forks (2021), Controlant (2020), Curio (2019), Kerecis (2018) og Skaginn (2017).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta