Hoppa yfir valmynd
10. október 2014 Utanríkisráðuneytið

Stuðningur Íslands á sviði jarðhitamála skilar árangi hjá Alþjóðabankanum

Gunnar Bragi og Keith Hansen

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fundaði í gær í Washington D.C. í tengslum við ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, sem gekkst nýverið undir umfangsmiklar skipulagsbreytingar. Átti hann fund með Keith Hansen, nýjum varaforseta bankans, þar sem ráðherra ræddi helstu breytingar á starfi bankans og áherslusvið Íslands. Auk þessara funda átti Gunnar Bragi fundi með nýskipuðum framkvæmdastjórum á sviðum orkumála, fiskimála og jafnréttismála en Alþjóðabankinn gegnir lykilhlutverki í íslenskri þróunarsamvinnu.

Á fundi ráðherra með Anitu George, nýjum framkvæmdastjóra orkumála, áréttaði Gunnar Bragi mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á sviði jarðhitanýtingar. Í máli framkvæmdastjórans kom fram að jarðhitasamstarf Íslands og bankans hafi gífurlega mikla þýðingu. Upphaflegur stuðningur Íslands við verkefnið hafi orðið til þess að Alþjóðabankinn hafi fengið 235 milljónir Bandaríkjadala frá öðrum gjafríkjum til að efla jarðhitanýtingu í þróunarríkjum. Staðfesti framkvæmdastjórinn jafnframt þátttöku bankans í nýstofnuðum samstöðuhópi um jarðhitanýtingu, sem Ísland hefur átt frumkvæði að.

Auk funda í Alþjóðabankanum, átti Gunnar Bragi fund með Daniel Mullaney, aðstoðarviðskiptaráðherra Bandaríkjanna, þar sem rætt var um stöðu og næstu skref í fríverslunarviðræðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sem staðið hafa yfir um nokkurt skeið.

Á morgun flytur Gunnar Bragi ávarp fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á fundi þróunarnefndar Alþjóðabankans.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta