Unnin verði greiningarskýrsla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í morgun, að tillögu forsætisráðherra, að veita fimm milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til þess að kosta gerð greiningarskýrslu fyrir Ísland vegna heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem samþykkt voru í New York síðastliðið haust, eru formlega gengin í gildi. Heimsmarkmiðin spanna vítt svið sjálfbærrar þróunar, á sviði félags-, efnahags- og umhverfismála. Aðalsmerki þeirra er að þau eru algild (e. universal) og ber öllum þjóðum að vinna skipulega að þeim bæði innan lands og í alþjóðasamstarfi fram til ársins 2030. Málið er áberandi í öllu starfi Sameinuðu þjóðanna og mikilvægt að taka ákvörðun um hvernig staðið verði skipulega að framkvæmd markmiðanna innanlands.
Ætlunin er að greina hvernig Ísland stendur gagnvart einstökum heimsmarkmiðum og undirmarkmiðum, s.s. út frá hagtölum og mótaðri stefnu. Afurð vinnunnar verði skýrsla sem inniheldur tillögur að áherslum Íslands og forgangsröðun við framkvæmd heimsmarkmiðanna næstu árin og með hliðsjón af sambærilegri vinnu annarra landa. Skýrslan mun þannig innihalda tillögur um hvenær og hvernig verði lagt mat á árangur með hliðsjón af samþykktum Sameinuðu þjóðanna.
Forræði og utanumhald með eftirfylgd markmiðanna verður á hendi forsætisráðuneytisins í nánu samstarfi við utanríkisráðuneytið. Stefnuráð Stjórnarráðsins, þar sem sæti eiga fulltrúar allra ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, mun koma að eftirfylgninni og jafnframt er gert ráð fyrir því að ráðherranefnd um samræmingu mála mundi fjalla um málið eftir þörfum.