Gísli Baldvinsson - Ákvæðin þrjú
Almennt: Stjórnarskrá þarf að vera skýrt plagg þar sem allir þegnar þjóðfélags skilja og ekki þurfi að leita dómstóla til skilnings og orðskýringa. Á nokkrum stöðum sekkur stjórnarskrárnefndin í pytt lagatækniorða þannig að útkoman er óskiljanleg. Í athugasemdum er sérstaklega bent á helstu orðgrýtin og teygjanleika orða.1.
Um náttúruauðlindir
Ný 80. grein
Um 80. gr. 4. málsgrein: -„Að jafnaði skal taka eðlilegt gjald". Áður hafa menn reynt að notað sér þennan orðakrans í lagagrein: „47.gr. Eftir að frá hafa verið taldir sérbekkir fyrir nemendur, sem ekki stunda nám í almennum bekkjum grunnskóla, sbr. 51. og 52. gr., skal við það miðað að jafnaði, að meðaltal nemenda Í bekkjardeildum hvers grunnskóla fari ekki yfir 28, né nemendafjöldi í einstakri bekkjardeild yfir 30.“ (leturbreyting höfundar) Lög nr 63/1974
Vísa má í ræður þingmanna og til lögskýringargagna um að þetta orðalag var talið merkingarlaust, að minnsta kosti afar teygjanlegt. Af þeim sökum er varað við endurnýtingu þessa orðalags.
Jafnframt er bent á ágætis tillögu Stjórnlagaráðs um sama ákvæði:34. gr., 4. mgr. Stjórnlagaráðs: Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
-
Ákvæði sem vantar í tillögur stjórnarskrárnefndar um náttúruauðlindir:
Upplýsingar um umhverfi og meginreglur umhverfisréttar, samanber tillögur Stjórnlagaráðs eða meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
2. Um umhverfis og náttúruvernd.
Í tillögum stjórnarskrárnefndar segir um nýja 79. gr.: „Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður.“
Ef borið er saman við tillögur meirihl. Stjrsk. nefndar segir: -„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda. Í því felst að fjölbreytni lands og lífríkis sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum. ...“.
-
Í fyrsta lagi er ekki góð regla að hafa orðalag s.s. „stefnt skal að“, eða „stuðla skal að,“. Texti meiri hluta alþingisnefndarinnar er markvissari og skýrari í alla staði.
Ákvæði sem vantar í tillögur stjórnarskrárnefndar um náttúruvernd:
Engin ákvæði eru um nýtingu náttúruauðlinda líkt og nefndin gerir í frv. um náttúruauðlindir: Ný 80. gr., 1. mgr. Í tillögum meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (141. löggjafarþing 2012–2013.) segir: Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og gildi náttúrunnar og hagsmunir komandi kynslóða séu virt.(34. gr., 2. mgr.) -
Í tillögum Stjórnlagaráðs (33. gr., 3. mgr.) segir: Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.
Ég legg til að nefndin taki þetta til athugunar eða rökstyðji betur hvers vegna þessu ákvæði sé sleppt.
3. Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu kjósenda
Um 1. gr. –„ 1. gr.
Á eftir 78. gr. stjórnarskrárinnar kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því: Fimmtán af hundraði kosningarbærra manna geta krafist þess að nýstaðfest lög frá Al-þingi verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu.[...]
Hér gerir undirritaður athugasemd um hlutfall kjósenda sem geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um ný-staðfest lög. Lagt er til að hlutfallið verði tíu prósent.
Um Ný 81. gr., 2. mgr.: Fimmtán af hundraði kosningarbærra manna geta enn fremur krafist þess að ályktun Alþingis skv. 21. gr. verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu. Heimilt er með lögum, sem samþykkt eru með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi, að ákveða að sama gildi um ályktanir sem hafa réttaráhrif eða fela í sér mikilvæga stefnu-mörkun.
Lagt til að hlutfallið verði lækkað í tíu prósent. Ákvæðið um aukinn meirihluta er óskýr. Í greininni er talað um 2/3 hlutum atkvæða, en í greinargerð stendur: Í hinu nýja ákvæði er kveðið á um að samþykki Alþingi frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá með minnst 2/3 hlutum greiddra atkvæða skuli það borið undir atkvæði[...]
Það er sitthvað, greidd atkvæði eða 2/3 hlutur atkvæða. Skýr skilningur þarf að vera hvort hjáseta sé greitt atkvæði. (sjá dómafordæmi úr félagsdómi).
Ákvæði sem vantar í tillögur stjórnarskrárnefndar um þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu kjósenda
Þingmál að frumkvæði kjósenda
Að mati undirritaðs vantar alveg frumkvæði kjósenda saman ber tillögur meirihluta þingnefndar og Stjórnlagaráðs. Þessi hluti er mikilvægur hlekkur í eflingu beins lýðræðis og raskar ekki fulltrúalýðræðinu né umboðskeðjunni.
Legg til að þessu ákvæði verði bætt í frumvarpið.
Önnur ákvæði sem bæta þyrfti í frumvörpin:
Frumvarp um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. Núverandi stjórnarskrárnefnd hafði í sínum frumfórum fjórða frumvarpið um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. Í því tilefni vil ég rifja upp þál um sama efni: http://www.althingi.is/altext/131/s/0009.html (sótt 25.2.2016)
Tillaga til þingsályktunar um breytingar á stjórnarskrá. Flm.: Össur Skarphéðinsson og fl. 131. löggjafarþing 2004–2005. Þskj. 9 — 9. mál.
Tillaga til þingsályktunar um breytingar á stjórnarskrá. Flm.: Össur Skarphéðinsson og fl.
[...]-"e. að gera tillögur um svipaðar breytingar og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert í stjórnarskrám sínum þannig að hægt sé að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana og samtaka sem vinna að friði og frelsi í viðskiptum milli þjóða,
"Framsal á valdi til alþjóðastofnana. Grannþjóðir okkar hafa fyrir löngu viðurkennt í stjórnarskrám sínum að framselja megi þætti úr löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvaldi til alþjóðasamtaka og stofnana. Þær álíta það nauðsynlegt svigrúm til að tryggja stöðu sína í veröld sem snýst æ meir um alþjóðlega samvinnu í stofnunum sem byggjast á lagalega bindandi skuldbindingum eða yfirþjóðlegu valdi. Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum gerðu slíkar breytingar í tengslum við aðildarumsóknir að Evrópusambandinu. Í 21. gr. stjórnarskrárinnar er að finna heimild til handa forseta og ríkisstjórn í umboði hans að gera milliríkjasamninga. Kveðið er á um að samþykki Alþingis þurfi þó til að leggja kvaðir á land eða landhelgi. Talið hefur verið að þetta ákvæði heimili afmarkað valdframsal til alþjóðastofnana. Þannig hefur verið talið að innganga okkar í Atlantshafsbandalagið árið 1949 og samþykkt tvíhliða varnarsamnings við Bandaríkin tveimur árum síðar hafi rúmast innan þessa ákvæðis, þrátt fyrir að varnir hvers lands séu grundvallarþáttur í fullveldi þess. Þá er Ísland skuldbundið til að hlíta bindandi ákvörðunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Þess má geta að á ráðstefnu Háskóla Íslands 24.2.2016 lýstu þau Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild, og Skúli Magnússon, dómari því yfir að brýnasta breytingin á stjórnarskrá væri framsalsákvæði í stjórnarskrá.
Sérstakar brýnar breytingar aðrar:
Í lokin skal hér greint frá örfáum þáttum sem brýnt er að tekið sé á í stjórnarskrá:Þá vantar ákvæði um:
- jafnan kosningarétt- jöfn gilding atkvæða
- með hvaða hætti verði hægt að breyta stj.skr. án kosninga á milli
- nánar um persónukjör og kosningareglur
Lokaorð
Stjórnarskrá er samfélagssáttmáli þjóðar. Þannig býr ein þjóð við sömu reglur Eins og stjórnarskráin lítur úr í dag er hún „stagbætt flík ætluð annarri þjóð“, eins og Sveinn Björnsson sagði í áramótaávarpi 1949.
Er því nefndin hvött til góðra ráða og bæta frekar á hugmyndagarðann.
Gísli Baldvinsson (sign)