Sigurbjörn Guðmundsson - Ákvæðin þrjú
Hæstvirtur forsætisráðherra
Háttvirtir nefndarmenn í stjórnarskrárnefnd
Reykjavík, 25. febrúar 2016
Ég mun að óbreyttu hafna öllum þrem tillögum stjórnarskrárnefndar komi til þjóðaratkvæðagreiðslu um þær.
Hvað varðar þjóðaratkvæðgreiðslur tel ég til einfaldari leið til að koma valdi til þjóðarinnar en að gera það með innleiðingu minnihlutalýðræðis eins og stjórnarskrárnefnd leggur til. Betra væri að framlengja „ákvæði um stundarsakir“ um svona þúsund ár eða ennþá betra að fella það inn í 79. grein í stað núgildandi ákvæða um breytingar á stjórnarskránni. Með slíku væri stigið stórt skref í áttina að því að færa „æðsta vald í málefnum þjóðarinnar“ til þjóarinnar sjálfrar eins og að var stefnt í stjórnarskrárbreytingu sem gerð var 1942 í aðdraganda stofnunar lýðveldis. Síðar, eða jafnvel strax, mætti bæta við að sama gilti um lög og ályktanir frá Alþingi og samninga og ályktanir gerðar af ríkisstjórn sem breyttu eða gætu leitt til breytinga á fullveldisrétti Íslands. Þar með væri búið að leysa að hluta eða alveg þann vanda sem stjórnarskrárnefndin gafst upp á að leysa. Og enn mætti spyrja, hvað með samninga stjórnvalda við önnur ríki eða rikjasambönd sem leiða til mjög skertra lífskjara á Íslandi. Væri ekki rétt að vísa þeim beint í þjóðaratkvæðagreiðslu án undirskriftasöfnunar?
Hvað hin tvö frumvörpin varðar virðist mér sem þau séu tilraun til að leysa pólitísk ágreiningsefni með „einhverju“ orðalagi í stjórnarskrá án þess að í því felist nokkur lausn á hinu pólitíska ágreiningsefni. Slíkt á ekkert erindi inn í stjórnarskrána. Annað þessara frumvarpa fellur annars óbeint undir ákvæði stjórnarskrár um heimild til stofnunar trúfélaga þar sem leiða má rök að því að náttúruverndarsamtök séu ígildi trúfélags.
Ég minni á að skömmu eftir hrun þegar umræða um nýja stjórnarskrá komst á skrið gerði Kastljós RUV mjög óformleg könnun á hvort Íslendingar hefðu lesið stjórnarskrána. Samkvæmt þeirri könnun hafði enginn lesið stjórnarskrána. Þar sem úrtakið var mjög lítið er ekki óeðllegt að gera ráð fyrir 10-15% vikmörkum, það er að 10-15% Íslendinga hafi lesið stjórnarskrána, enda mjög lítil áhersla lögð á fræðslu um stjórnarskrármálefni í hinu almenna skólakerfi. Skýringin kann að vera sú að stjórnarskráin hentar mjög illa til að kynna stjórnkerfið íslenska fyrir börnum og unglingum, og jafnvel fullorðnir hafa takmarkaðan áhuga á mörgu því sem þar stendur, enda margt gert með öðrum hætti en þar stendur. Til dæmis ætti 2. greinin að orðast svo miðað við núverandi stjórnsýslu landsins:
„Þjóðin kýs alþingismenn til að fara með löggjafarvaldið. Alþingi skipar ráðherra í ríkisstjórn til að fara með framkvæmdavaldið. Ráðherra skipar dómara til að fara með dómsvaldið. Þjóðin kýs forseta til að blessa ráðherra og halda skrá yfir þá, taka í hönd Íslendinga við ýmis tækifæri bæði í gleði og sorg og skiptast á boðum um heimsóknir við þjóðhöfðingja annarra þjóða. Allir framantaldir embættismenn undirriti eiðstaf um undirgefni við stjórnarskrána.“
Að öðru leyti verði stjórnarskráin vel kaflaskipt með fyrirsögnum eða jafnvel skipt niður í sérstök stjórnsýslulög sem öll lúti sömu reglu um samþykki:
(a) Um forseta Íslands: Greinar 3 til 12.
(b) Um ráðherra og ríkisstjórn: Greinar 13 til 30, þó þannig að í stað orðsins „forseti“ komi eftir atvikum „ráðherra“, „forsætisráðherra“ eða „ríkisstjórn“ og gerðar aðrar þær breytingar að lýsingin hæfi störfum ráðherra og ríkisstjórnar eins og þau eru í dag.
(c) Um Alþingi: Greinar 31 til 58.
(d) Um dómstóla: Greinar 59 til 61.
(e) Um trúfélög: Greinar 62 til 64.
(f) Um mannréttindi: Greinar 65 til 77.
(g) Um sveitarfélög: Grein 78.
(h) Um þjóðaratkvæðagreiðslur: Greinar 79 til 81 með æskilegum breytingum.
Með svona sundurgreiningu stjórnarskrárinnar í nafngreinda kafla eða sérstaka lagabálka einfaldast öll vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar þar sem menn gætu þá verið að vinna í einum tilteknum kafla hverju sinni.
Virðingarfyllst.
Sigurbjörn Guðmundsson