Börnum í sárri fátækt gæti fjölgað um 86 milljónir
Bein efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins gætu leitt til fjölgunar barna í sárri fátækt um 86 milljónir fyrir árslok, samkvæmt greiningu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Barnaheilla – Save the Children sem byggja á gögnum frá Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Samkvæmt greiningu samtakanna gætu 672 milljónir barna í lág- og meðaltekjuríkjum fallið niður fyrir mörk sárrar fátæktar áður en árið er á enda, langflest meðal þjóða í Afríku sunnan Sahara og Suður-Asíu. Aðeins með skjótum aðgerðum til verndar fjölskyldum vegna efnahagsþrenginga verður unnt að afstýra þessum afleiðingum heimsfaraldursins, segir í frétt frá UNICEF og Save the Children.
Samtökin benda á að áhrifin séu tvíþætt, annars vegar skyndilegt tekjutap fjölskyldna sem hefur í för með sér að fólk hefur ekki efni á nauðsynjum eins og mat og vatni, og hins vegar tekjutap hins opinbera sem leiðir til þess að dregið er út nauðsynlegri grunnþjónustu við íbúa.
„Heimsfaraldurinn leiðir til fordæmalausrar félagslegrar- og efnahagslegrar kreppu sem bitnar á fjölskyldum um heim allan,“ segir Henrietta Fore framkvæmdastjóri UNICEF. Hún segir að fjárhagslegir erfiðleikar fjölskyldna ógni margra ára framförum og samstillt átak þurfi til að forða því að fátækt fari á stig sem hafi ekki sést um áratugaskeið.
„Börn verða hastarlega fyrir barðinu á efnahagslegum áhrifum COVID-19, þau eru mjög viðkvæm fyrir skammtíma hungri og vannæringu sem getur haft áhrif á þau ævilangt. Ef við bregðumst skjótt við er unnt að afstýra þeirri ógn sem faraldurinn gæti haft á fátækustu þjóðir heims þar sem börn eru í viðkvæmustu stöðunni,“ segir Inger Ashing framkvæmdastjóri Save the Children.