Nýtt skipurit umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest nýtt skipurit umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sem tekur gildi 1. janúar 2023. Breytingum í skipuriti er ætlað að efla starfsemi ráðuneytisins, styðja við áherslumál stjórnvalda og gera ráðuneytinu betur kleift að takast á við viðamikið hlutverk sitt m.a. á sviði loftslagsmála.
Í nýju skipuriti er lögð áhersla á að efla heildarsýn á starfsemi ráðuneytisins og auka samhæfingu og samvinnu þvert á skrifstofur. Skipuritinu er ætlað að styðja vel við kjarnastarfsemi ráðuneytisins og þær áherslur og markmið sem eru í stjórnarsáttmála og fjármálaáætlun hverju sinni. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur umsjón með loftslags og orkumálum, málefnum hringrásarhagkerfis og umhverfisgæða, náttúru- og minjavernd, auk verkefna á sviði varna, rannsókna og vöktunar náttúruvár.
Skipuritinu er ætlað að tryggja vandaða stefnumótun, innleiðingu og eftirfylgni hennar innan málefnasviða ráðuneytisins og tengingu við lög um opinber fjármál. Ótímabundin teymi munu starfa innan ráðuneytisins og taka þau mið af áherslum verkefna á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála.
Skrifstofa yfirstjórnar
Skrifstofan hefur umsjón með stýringu og samhæfingu innan ráðuneytisins, auk þess að sinna alþjóðamálum með yfirsýn yfir alþjóðastarf og norrænt samstarf ráðuneytisins, stuðningi gagnvart alþjóðasamningum og samskiptum við alþjóðastofnanir. Þá sinnir skrifstofan einnig innri þjónustu, m.a. gæðamálum og þróun starfseminnar, ásamt skjalavistun og málaskrá.
Skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar
Skrifstofan ber m.a. ábyrgð á að koma áherslum ríkisstjórnar og yfirstjórnar ráðuneytisins í framkvæmd með stefnumótun og innleiðingu hennar en einnig með þróun á lagaramma, reglugerða og skýrra tímasettra markmiða.
Skrifstofa eftirfylgni og fjármála
Skrifstofan hefur eftirlit með nýtingu fjármuna samkvæmt lögum um opinber fjármál og samningagerð við stofnanir og ytri aðila um framkvæmd verkefna. Þá hefur hún umsjón með þeim framkvæmdum sem heyra beint undir ráðuneytið og eftirlit með framgangi samninga og verkefna.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Með nýju skipuriti er verið að ýta undir ríkt samráð, aukna samvinnu og árangursrík samskipti með aukinni áherslu á teymisvinnu. Nýja skipuritið styður einnig við þá vinnu sem er í gangi varðandi stofnanaskipulag ráðuneytisins þar sem að verkefnaáherslurnar og markmið um kolefnislaust Íslands 2040 er forsenda vinnunnar.“