Fundargerð 15. fundar stjórnarskrárnefndar
1. Inngangur
Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 27. febrúar 2006 klukkan 08.30 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Birgir Ármannsson var forfallaður. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt með lítilsháttar breytingum.
Formaður bauð sérstaklega velkominn Steingrím J. Sigfússon sem verið hafði frá störfum um hríð vegna meiðsla sem hann hlaut í bílslysi.
2. Erindi sem borist hafa nefndinni
Lögð voru fram drög að dagskrá ráðstefnu um forsetaembættið í sögulegu ljósi sem Sagnfræðingafélag Íslands efnir til laugardaginn 25. mars næstkomandi í Þjóðminjasafninu í samvinnu við nefndina.
Þá var lagt fram erindi sameinaðrar kvennahreyfingar um breytingar á þremur ákvæðum stjórnarskrárinnar ásamt greinargerð. KH óskaði að fært yrði til bókar að hún væri hlynnt þessum tillögum.
3. Vinnulag næstu mánuði
Í framhaldi af umræðu á síðasta fundi lagði formaður fram tillögu að skipan þriggja vinnuhópa sem fengju það verkefni að fjalla um afmörkuð viðfangsefni nefndarinnar. Nefndin í heild myndi svo fjalla um niðurstöður þeirra og notast við þær við gerð áfangaskýrslu sem gefin yrði út í júní næstkomandi.
Tillaga formanns var samþykkt og eru vinnuhóparnir sem hér segir: 1. Dómstólakafli og framsal ríkisvalds (BÁ, JB og KH), 2. Mannréttindaákvæði, ákvæði um auðlindir og umhverfisvernd (BB, GAK og ÖS) og 3. Forseti, ríkisstjórn og þjóðaratkvæðagreiðslur (JK, SJS, ÞP og ÖS). Gerð var tillaga um að þeir fyrstnefndu í hverjum hópi myndu stýra vinnu þeirra og var hún samþykkt. Sérfræðinganefndin og ritari myndu starfa með hópunum.
Var ákveðið að vinnuhóparnir myndu meðal annars taka afstöðu til innsendra erinda og skila ef sér niðurstöðum ekki síðar en í lok apríl. Þá var samþykkt að öllum nefndarmönnum væri frjálst að sækja fundi allra vinnuhópanna og var ritara falið að sjá til þess að tilkynningar um fundartíma og fundarstað bærust til allra.
4. Önnur mál
Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 10.00. Var ákveðið að ekki yrði boðað til næsta fundar fyrr en í lok apríl þegar vinnuhóparnir skiluðu af sér nema sérstakt tilefni gæfist til.