Heimsótti Póst- og fjarskiptastofnun og Samgöngustofu
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, heimsótti í dag Póst- og fjarskiptastofnun og Samgöngustofu. Starfsemin var kynnt fyrir ráðherra og fylgdarliði og hann heilsaði uppá starfsmenn.
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, heimsótti í dag Póst- og fjarskiptastofnun og Samgöngustofu. Starfsemin var kynnt fyrir ráðherra og fylgdarliði og hann heilsaði uppá starfsmenn.
Hjá Póst- og fjarskiptastofnun tók Hrafnkell V. Gíslason forstjóri á móti ráðherra ásamt helstu samstarfsmönnum í framkvæmdastjórn stofnunarinnar. Hrafnkell fór yfir helstu þættina í starfseminni sem stofnsett var árið 1998. Hlutverk stofnunarinnar er að leggja grunninn að samkeppni á póst- og fjarskiptamarkaði og styðja við uppbyggingu fjarskipta. Meðal verkefna er að úthluta tíðnum, eftirlit með fjarskiptabúnaði og póstþjónustu og úttektir á öryggi neta auk þess að veita stjórnvöldum ráðgjöf.
Hjá Samgöngustofu tók Halla Sigrún Sigurðardóttir, staðgengill forstjóra, á móti ráðherra í fjarveru Þórólfs Árnasonar forstjóra. Fór hún yfir helstu þætti í starfi Samgöngustofu sem tók til starfa um mitt ár 2013 eftir breytingar á skipulagi samgöngustofnana og sameiningu þeirra. Í september 2014 var öll starfsemin komin undir sama þak við Ármúla í Reykjavík. Starfsmenn eru um 140. Samgöngustofa annast stjórnsýslu samgöngumála og eftirlit er varðar flug, siglingar og umferð og öryggiseftirlit með samgöngumannvirkjum og leiðsögu. Meðal verkefna er undirbúningur laga og reglugerða, leyfisveitingar og eftirlit, þjálfun og skírteinaútgáfa, fræðsla um öryggi í samgöngum og skráning farartækja.
Jón Gunnarsson sagði heimsóknir af þessum toga afar mikivægar og upplýsandi, hann fengi góða mynd af þeirri fjölbreyttu starfsemi sem þar færi fram. Í slíkum heimsóknum væri hægt að ræða mál sem væru í deiglunni og annað sem brynni á yfirstjórn viðkomandi stofnana og nauðsynlegt fyrir báða aðila að geta þannig skipst á skoðunum.
Hjá Samgöngustofu. Á myndinni eru frá vinstri: Halla Sigrún Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson, Dagný Jónsdóttir, Sigurbergur Björnsson, Einar Örn Héðinsson, Valdís Ásta Aðalsteinsdóttir og Þórhildur Elín Elínardóttir.