Hoppa yfir valmynd
14. maí 2014 Dómsmálaráðuneytið

Embættum sýslumanna og lögreglustjóra fækkað um meira en helming

Alþingi samþykkti í morgun tvö frumvörp Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um breytingar á lögum um umdæmaskipan lögreglustjóra og sýslumanna. Með lögunum er embættum sýslumanna fækkað úr 24 í níu og lögregluumdæmum úr 15 í níu. Þá verður yfirstjórn lögreglu aðskilin frá yfirstjórn sýslumannsembætta.

Í ræðu innanríkisráðherra þegar frumvörpin voru lögð fyrir Alþingi kom fram að unnið hefði verið að heildarendurskipulagningu og framtíðarstefnumótun í málefnum sýslumanna og lögregluembætta um margra ára skeið í nánu samstarfi við sýslumenn og aðra hagsmunaaðila.

Tilgangurinn með sameiningu sýslumannsembætta er að til verði öflugri þjónustustofnanir sem standa betur að vígi til þess að sinna hlutverki sínu og taka að sér aukin verkefni. Með aðskilnaði yfirstjórnar lögreglu frá yfirstjórn sýslumannsembætta er lögreglustjórum gert kleift að sinna lögreglustjórn óskiptir í ljósi aukinna krafna sem gerðar eru til löggæslu. Með þessari breytingu er stefnt að því að til verði öflug lögreglulið sem njóti styrks af stærri liðsheild og verði hagkvæmari rekstrareiningar til lengri tíma litið.

Ekki er gert ráð fyrir uppsögnum starfsmanna þrátt fyrir hagræðingu í rekstri og gert er ráð fyrir að starfandi sýslumenn njóti forgangs til skipunar í ný embætti sýslumanna.

Landið skiptist í níu umdæmi sýslumanna sem eru:
    1.     Umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
    2.     Umdæmi sýslumannsins á Vesturlandi.
    3.     Umdæmi sýslumannsins á Vestfjörðum.
    4.     Umdæmi sýslumannsins á Norðurlandi vestra.
    5.     Umdæmi sýslumannsins á Norðurlandi eystra.
    6.     Umdæmi sýslumannsins á Austurlandi.
    7.     Umdæmi sýslumannsins á Suðurlandi.
    8.     Umdæmi sýslumannsins í Vestmannaeyjum.
    9.     Umdæmi sýslumannsins á Suðurnesjum.

Landið skiptist í níu lögregluumdæmi. Með lögreglustjórn fara lögreglustjórar sem hér segir:
    1.     Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
    2.     Lögreglustjórinn á Vesturlandi.
    3.     Lögreglustjórinn á Vestfjörðum.
    4.     Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra.
    5.     Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra.
    6.     Lögreglustjórinn á Austurlandi.
    7.     Lögreglustjórinn á Suðurlandi.
    8.     Lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
    9.     Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum.

Umdæmamörk embætta sýslumanna og lögregluembætta verða samkvæmt lögunum  ákveðin í reglugerð sem ráðherra setur með hliðsjón af skipulagi annarrar opinberrar þjónustu í umdæmum og að höfðu samráði við lögreglustjóra, Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga. Ráðherra ákveður í reglugerð hvar aðalstöðvar embættanna skulu vera og hvar lögreglustöðvar verða starfræktar svo og aðrar sýsluskrifstofur. Breytt skipulag tekur gildi þann 1. janúar á næsta ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta