Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Stuðlað verði að hollari neysluvenjum með efnahagslegum hvötum

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að gera tillögur að leiðum til að innleiða aðgerðaáætlun embættis landlæknis til að draga úr sykurneyslu landsmanna hefur skilað ráðherra niðurstöðum sínum. Lagt er til að beitt verði efnahagslegum hvötum til að stuðla að hollari neysluvenjum, draga úr sykurneyslu og hvetja til aukinnar neyslu grænmetis og ávaxta. Þetta er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að skoða möguleika þess að beita efnahagslegum hvötum til að efla lýðheilsu.

Í byrjun síðasta árs fól ráðherra embætti landlæknis að gera aðgerðaáætlun til að draga úr sykurneyslu landsmanna. Aðgerðaáætlun embættisins í 14 liðum var kynnt á fundi ríkisstjórnar í maí 2019. Í skýrslu starfshópsins er megináhersla lögð á að útfæra tillögu embættis landlæknis sem ætlað er að ýta undir hollari neysluvenjur meðal almennings með efnahagslegum hvötum.

Til að draga úr sykurneyslu: Lagt er til að vörugjöld verði lögð á gos- og svaladrykki, íþrótta- og orkudrykki, sælgæti, orku- og próteinstykki, kex, kökur og sætabrauð þannig að hækkun nemi a.m.k. 20%. Til greina kæmi að gera þetta í tveimur skrefum og hækka í seinna skrefinu álögur á sælgæti, kex, kökur og sætabrauð.

Til að auka neyslu ávaxta og grænmetis: Meirihluti starfshópsins leggur til að virðisaukaskattur á grænmeti og ávexti verði afnuminn. Minnihluti starfshópsins er andvígur því að breyta virðisaukaskattskerfinu sem hann telur auka flækjustig og ójafnræði í kerfinu. Ef ekki er unnt að beita virðisaukaskattskerfinu leggur starfshópurinn til sameiginlega að auka aðgengi leik- og grunnskólabarna að grænmeti og ávöxtum með hollustustyrkjum til leik- og grunnskóla.

Helstu rök fyrir aðgerðunum:

Samkvæmt niðurstöðum norrænnar vöktunar á mataræði frá árinu 2014 var neysla fullorðinna á sykurríkum vörum  eins og sykruðum gosdrykkjum, sælgætis og kökum mest á Íslandi. Samkvæmt sömu könnun var hlutfall offeitra jafnframt hæst á Íslandi. Í skýrslu Alþjóða­heilbrigðismála­stofnunar­innar frá árinu 2016 segir að vísindalegur grunnur sé fyrir því að vel skipulögð álagning á matvæli geti verið áhrifarík leið til að bæta neysluvenjur. Jafnframt geti 10-30% lækkun á álögum á hollum vörum á borð við ávexti og grænmeti geti verið áhrifarík leið til þess að auka neyslu á hollum fæðutegundum. Frumniðurstöður úr landskönnun á mataræði landsmanna árin 2019–2020 sýna að um 35% af sykurneyslu fólks á aldrinum 18 – 50 ára kemur úr gos- svaladrykkjum og íþrótta- og orkudrykkjum, um 19% úr sælgæti og um 16% úr kexi, kökum og sætabrauði. Um 70% sykurneyslu fólks á þessu aldursbili kemur því úr þessum þremur vöruflokkum.

Neysla ávaxta og grænmetis er langt undir ráðleggingum samkvæmt niðurstöðum úr rannsókninni Heilsu og líðan Íslendinga og vöktun áhrifaþátta heilbrigðis sem embætti landlæknis hefur staðið fyrir undanfarin ár í samvinnu við Gallup. Samkvæmt vöktuninni neyttu einungis um 11% landsmanna ávaxta og grænmetis 5 sinnum á dag eða oftar árið 2019 eins og ráðlagt er og hefur það lítið breyst undanfarin ár.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta