Hoppa yfir valmynd
2. desember 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 444/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 444/2021

Fimmtudaginn 2. desember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. ágúst 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. ágúst 2021, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 8. júlí 2021. Í kjölfarið lagði kærandi fram uppsagnarbréf og veitti Vinnumálastofnun skýringar á uppsögn sinni. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 12. ágúst 2021, var kæranda veittur frestur til að koma að frekari athugasemdum um starfslokin áður en ákvörðun yrði tekin í máli hans. Skýringar bárust stofnuninni samdægurs. Með ákvörðun, dags. 26. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hans hjá fyrrum vinnuveitanda væri bótaréttur hans hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 2. september 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 23. september 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. september 2021, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 29. september 2021 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. september 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann kæri ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. ágúst 2021. Kærandi leggi áherslu á að allar ákvarðanir sem hann og konan hans taki séu alltaf með velferð barna þeirra í huga og í samræmi við Barnasáttmálann. Sem ábyrgir foreldrar hafi þau ákveðið að flytja frá Reykjanesbæ til Akureyrar til þess að veita þeim betri búsetuskilyrði og lífsgæði.

Samkvæmt Morgunblaðinu þann 14. október 2020 hafi atvinnuleysi á Suðurnesjum verið 19,6% og spá um að atvinnuleysi í Reykjanesbæ yrði allt að 24,6% yfir jólatímann. Kærandi greinir frá því að konan hans hafi misst vinnu sína vegna Covid og tekjur þeirra hafi lækkað en þau hafi samt sem áður verið ánægð að hann hafi haldið vinnunni á þessum erfiða tíma.

Atvinnuleysi, takmarkanir, sóttkví og aðrar ástæður hafi valdið því að margir hafi verið að leita lausna vandamála sinna í ávana- og fíkniefnum. Vandinn hafi aukist hratt, sérstaklega í Ásbrú þar sem kærandi og fjölskylda hans hafi verið búsett. Oft hafi dagblöð og fréttaveitur skrifað fréttir um fólk sem hafi keyrt undir áhrifum ávana- eða fíkniefna. Þá hafi sprautur, nálar eða töflur fundist í hverfinu þeirra. Kærandi hafi fengið tölvupóst frá grunnskólanum um að tvær stelpur hafi verið sendar á bráðamóttöku eftir að hafa borðað hlaupbangsa með fíkniefnum og að foreldrar ættu að vara börn sín við fíkniefnum. Nokkrum mánuðum síðar hafi kæranda borist annar tölvupóstur, í þetta skiptið frá leikskóla, þess efnis að lítið hylki af amfetamíni hafi fundist á bílastæði leikskólans og að barn hafi þurft að fara á sjúkrahús eftir að hafa innbyrt hluta innihaldsins. Þess á milli hafi kærandi oft heyrt af því að lögregla hafi fundið kannabis ræktanir í íbúðum í Ásbrú eða Njarðvík og að lögregla hafi handtekið eiturlyfjasala. Þetta sé ástæða þess að eiturlyf hafi orðið óumbeðinn hluti af lífi kæranda og af þeim sökum hafi kæranda fundist hann hjálparvana.

Þá hafi einnig komið upp ofbeldi gagnvart börnum. Kærandi greini frá því að margir foreldrar leyfi börnum sínum að vafra um internetið án eftirlits til að öðlast meiri frítíma. Mörg börn sýni af sér óæskilega hegðun gagnvart öðrum, líkt og ofbeldi, kynferðislegar athafnir og að búa til hættulega hluti. Dóttir kæranda hafi kvartað yfir því að einn drengur hafi reglulega sýnt af sér óæskilega hegðun gagnvart henni og öðrum börnum. Þegar dóttir kæranda hafi sagt honum frá því hafi hann verið hneykslaður yfir því að sex ára barn hagi sér á þann hátt. Þau hafi umsvifalaust haft samband við skólann vegna þess. Þá hafi dóttir kæranda einnig byrjað að nota blótsyrði gagnvart yngri bróður sínum, orð sem þau hafi aldrei notað á heimilinu en hún hafi ekki einu sinni skilið þau til fulls, hún hafi einungis heyrt þau frá öðrum strákum. Kærandi kenni skólanum ekki um ástandið vegna þess að hann skilji aðstæðurnar og þá hafi hann einnig útskýrt fyrir dóttur sinni hvernig eigi að haga sér og merkingu þessara orða. Hins vegar hafi þau verið mjög leið yfir þessu. Þá hafi þau tekið eftir því að búnaður og teikningar dóttur þeirra hafi verið eyðilögð í hefndarskyni eða einungis til skemmtunar. Síðasta ástæða þess að fjölskylda kæranda hafi ákveðið að flytja sé líkamlegt ofbeldi og áreitni gagnvart dóttur þeirra. Dóttir kæranda hafi grátið og ekki viljað fara í skólann. Þau hafi að sjálfsögðu haft samband við skólann og talað við foreldra barnanna en það hafi verið ómögulegt að hittast í skólanum til að útskýra aðstæðurnar og taka skref til úrbóta vegna Covid takmarkana. Þau hafi verið leið og kvíðin yfir öllum þessum atriðum þar sem þau hafi ekki getað fundið neinar lausnir vegna þeirra.

Síðar hafi þau áttað sig á því að eina lausnin væri að flytja og þá hafi þau byrjað að leita sér að íbúð í Hafnarfirði og Reykjavík. Vinnuveitandi kæranda útvegi sérstaka rútu á milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkur þar sem hann hafi unnið og verið mjög ánægður í starfi. Hins vegar hafi leiguverð og leigutrygging verið of há fyrir þau. Eftir að hafa skoðað alla kosti í stöðunni og borið saman alla kosti og galla hafi þau ákveðið að finna sér ódýrari staðsetningu sem væri samt með góðu aðgengi að menntun, heilbrigðiskerfi og fjölskylduvænu umhverfi sem að þeirra mati Akureyri uppfylli.

Sem foreldri beri kærandi skyldu til að veita börnunum sínum sem bestu þroskaskilyrðin með vísun í 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Að mati kæranda séu allar framangreindar ástæður mikilvægar og uppfylli skilyrði 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem gildar ástæður fyrir uppsögn í starfi.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann skilji og sé sammála þeim skilyrðum laganna að biðtíma  sé ætlað að koma í veg fyrir að fólk segi upp starfi sínu til þess að fá atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi hins vegar tilkynnt Vinnumálastofnun að hann hafi fundið starf áður en hann hafi flutt til Akureyrar ásamt fjölskyldu sinni. Af þeim sökum séu rökin fyrir því að hann hafi sagt starfi sínu upp án þess að vera kominn með nýtt starf röng. Kærandi hafi byrjað að leita eftir nýju starfi í apríl og hafi sótt um nokkur laus störf sem hann hafi fundið á atvinnuleitarmiðlinum Alfreð. Í sumum tilvikum hafi hann notað til þess netfang sitt hjá B og í öðrum tilvikum hafi hann notað persónulega netfang sitt. Hann hafi að lokum fengið svar frá C þar sem hann hafi fengið færi á að starfa í framleiðslu. Því miður hafi hann þurft að hætta að vinna á þeim stað þar sem enginn hafi úthlutað honum vöktum en vaktaskipulag hans hafi breyst á þriggja til fimm daga fresti. Á sama tíma hafi konan hans verið að leita sér að starfi en þegar hún hafi fundið starf hafi þau lent í vandræðum með daggæslu barna sinna. Kærandi greinir frá því að þau séu útlendingar og séu ekki með ömmur og afa til að hjálpa þeim með börnin á sumrin.

Eftir að hafa hætt störfum hjá C hafi kærandi ákveðið að finna nýtt starf á kvöldvöktum, í stað þess að sækja um atvinnuleysisbætur, til að sjá um börnin sín á meðan konan hans myndi vinna. Eftir nokkurra daga leit hafi hann þó ekki fundið neitt starf og því hafi hann sótt um atvinnuleysisbætur.

Kærandi sé hissa á því hvers vegna Vinnumálastofnun hafi ekki spurt hann um starf hans hjá C og hvers vegna hann hafi hætt störfum þar til að fá betri yfirsýn yfir aðstæður hans. Kærandi hafi treyst á að fá aðstoð á þessum tíma en í stað þess að fá hana líði honum eins og komið sé fram við hann eins og þá sem forðist vinnu og treysti eingöngu á atvinnuleysisbætur.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 8. júlí 2021. Með bréfi, dags. 26. ágúst 2021, hafi kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn hans um atvinnuleysisbætur en með vísan til starfsloka hjá B hafi réttur kæranda til atvinnuleysisbóta verið felldur niður í tvo mánuði sem annars hefðu verið greiddar bætur fyrir. Ákvörðunin um niðurfellingu bótaréttar hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Hið sama gildi um þann sem missi starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur eigi sök á. 

Í 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 segi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.“

Í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi starf sitt séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Ágreiningur snúist um það hvort skýringar kæranda vegna starfsloka hans teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og hafi fá tilvik verið talin falla þar undir.  

Kærandi hafi gefið skýringar á höfnun, bæði fyrir kærunefndinni og til Vinnumálastofnunar. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi sjálfur sagt upp starfi sínu hjá B.  Í skýringum kæranda komi meðal annars fram að hann hafi flutt frá Ásbrú í Reykjanesbæ til Akureyrar ásamt fjölskyldu sinni, meðal annars vegna mikils atvinnuleysis og eiturlyfjaneyslu í nágrenni við heimili þeirra. Kærandi segi að meginástæðan fyrir því að hann hafi sagt upp starfi sínu hjá B hafi verið til að fjölskylda hans myndi lifa betra og öruggara lífi.

Markmið vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í ljósi þess sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf sé ekki í boði og að kærandi hafi ekki tryggt sér annað starf þegar hann hafi sagt starfi sínu lausu. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda vegna starfsloka hans hjá B geti ekki talist gildar í skilningi laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Einnig beri að líta til þess að flutningur hafi ekki komið til vegna starfa maka kæranda. Vinnumálastofnun telji því að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 54. gr. laganna.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar kærandi hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun án bóta í tvo mánuði.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 8. júlí 2021. Síðasta starf kæranda fyrir þann tíma var hjá fyrirtækinu C og lagði hann fram staðfestingu á starfstímabili þar 14. júlí 2021. Þar áður starfaði kærandi hjá B. Við mat á rétti kæranda til atvinnuleysisbóta óskaði Vinnumálastofnun eftir skýringum á uppsögn hans hjá B og tók í kjölfarið ákvörðun út frá þeim skýringum. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Vinnumálastofnun að leggja mat á uppsögn kæranda hjá C við mat á því hvort rétt væri að setja greiðslur til hans á bið, enda sótti hann um atvinnuleysisbætur í kjölfar uppsagnar hjá því fyrirtæki. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar. 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. ágúst 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta