Malaví: Saumavél bjargaði fjölskyldunni
SOS Barnaþorpin á Íslandi settu nýlega á laggirnar fjölskyldueflingarverkefni í Rúanda og Malaví og bætast þau við sambærilegt verkefni sem samtökin hafa starfrækt í Eþíópíu frá árinu 2018. Í Malaví er fjölskyldufeflingin í nágrenni barnaþorpsins í Ngabu og í þeim bæ syðst í Malaví er komin góð reynsla á slíkt verkefni sem rekið var af SOS í Noregi.
Á ferð fulltrúa SOS til Malaví fyrr á árinu hittu þeir Ariannes, fimm barna einstæða húsmóður, sem er nýútskrifuð úr fjölskyldueflingu í Ngabu. Fjölskyldan var á mörkum þess að leysast upp áður en fjölskyldueflingin kom til sögunnar.
„Ég gat ekki séð fyrir börnunum og sent þau í skóla. Hér verður reglulega uppskerubrestur og börnin fengu stundum aðeins eina máltíð á dag. Eitt barnanna minna er fatlað og átti sérstaklega erfitt því við áttum ekki öruggan samastað,” segir Ariannes en með aðstoð fjölskyldueflingarinnar varð alger viðsnúningur á lífi fjölskyldunnar.
Ariannes er hæfileikarík saumakona og eftir að henni var hjálpað að kaupa saumavél fór hún að afla tekna. Hún hafði loks efni á að kaupa mat og skólagögn fyrir börnin og eignaðist eigið húsnæði.
Þessi smávægilega aðstoð er miklu stærri en hún virðist í fyrstu eins og Ariannes útskýrir. „Það sem fjölskyldueflingin gerði fyrir okkur var að koma í veg fyrir að börnin hætti í skóla, að þau myndu svelta og mjög líklega leiðast út í vændi. Það eru því miður örlög margra barna hér á þessu svæði,” segir Ariannes en meðal afleiðinga vændis er mikil útbreiðsla HIV tilfella með tilheyrandi dauðsföllum og eftir standa munaðarlaus börn.
Charles Mthengomwacha, verkefnisstjóri fjölskyldueflingarinnar sem SOS á Íslandi rekur skammt frá, undirstrikar hversu stórt þetta vandamál er. „Aðeins hér á Ngabu svæðinu eru 13.500 börn í raunverulegri hættu á að verða munaðarlaus."
Ariannes vildi að lokum koma á framfæri þakklæti til Íslendinga sem styðja við fjölskyldueflinguna. Hún lítur nú björtum augum til framtíðar. „Ég finn mikið öryggi í því að búa í eigin húsnæði og ég afla tekna með saumamennskunni. Börnin fá að borða og þau sækja skóla.”
Heimild: Vefur SOS Barnaþorpanna