Ísland og Noregur aðilar að loftferðasamningi ESB og Bandaríkjanna
Ísland og Noregur hafa gerst aðilar að loftferðasamningi Evrópusambandsins og Bandaríkjanna sem skrifað var undir í apríl 2007 og tók gildi vorið 2008. Samningurinn veitir flugfélögum í löndunum tveimur aukinn rétt til farþega- og fraktflugs milli Evrópu og Bandaríkjanna.
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skrifaði í gær, fimmtudaginn 17. desember, undir samninginn í Brussel, fyrir hönd Íslands ásamt fulltrúum Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.
Aðild Íslands og Noregs að samningnum var staðfest með undirritun fulltrúa ríkjanna í Brussel. Flugfélög á Íslandi og Noregi öðlast með honum sama rétt og félög í aðildarríkjum Evrópusambandsins til farþega- og fraktflugs milli Evrópu og Bandaríkjanna. Er þeim heimilt að fljúga milli hvaða borga sem er í Evrópu og í Bandaríkjunum. Þá veitir samningurinn aukna möguleika á samstarfi milli flugfélaga beggja vegna Atlantshafsins svo sem til samvinnu um flugleiðir og leigu flugvéla svo og til eignarhalds evrópskra félaga í Bandaríkjunum og öfugt.
Við athöfnina lýsti Kristján L. Möller ánægju með samninginn og kvað hann mikilvægan fyrir íslenska flugrekendur sem fá með tilkomu hans auknar heimildir til flugs milli Bandaríkjanna og Evrópu.