Hoppa yfir valmynd
19. september 2023 Utanríkisráðuneytið

Staða kvenna í Afganistan rædd að frumkvæði Íslands

Ísland stóð fyrir hliðarviðburði um stöðu kevenna í Afganistan í gær í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Ljósmynd UN Women - mynd

Forsætisráðherra og íslensk stjórnvöld stóðu í gær fyrir viðburði í New York, í samstarfi við UN Women, um stöðu kvenna í Afganistan, í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti þar opnunarávarp og fjallaði um skelfilega stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan eftir valdatöku talíbana fyrir rúmum tveimur árum og skyldu alþjóðasamfélagsins til að beita sér í málinu. Rithöfundurinn og blaðakonan Christina Lamb stýrði pallborðsumræðum kvenna úr ólíkum áttum sem allar hafa tekið þátt í frelsisbaráttu afganskra kvenna.

Kerfisbundin brot á mannréttindum afganskra kvenna og útilokun þeirra frá nánast öllum sviðum samfélagsins í Afganistan undir stjórn talíbana eru eitt alvarlegasta mannréttindabrot í heiminum í dag. Afganskar konur – innanlands og í útlegð – hafa kallað eftir því að sterkustu mögulegu orðum verði beitt til að fordæma stefnu og starfshætti Talíbana, sem samkvæmt skýrslunni „Staða kvenna og stúlkna í Afganistans“ sem kom út í sumar, felur í sér kynbundnar ofsóknir og kerfisbundna aðskilnaðarstefnu kynjanna.

Jafnrétti kynjanna og efling og verndun mannréttinda eru forgangsmál ríkisstjórnar Íslands. Í ljósi þessa hefur Ísland ítrekað vakið heimsathygli á hrikalegum aðstæðum kvenna og stúlkna í Afganistan, meðal annars á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, í mannréttindaráði SÞ og á öðrum fundum háttsettra embættismanna. Þá hefur Ísland aukið fjármagn til mannúðaraðstoðar í Afganistan. Viðburðurinn kemur í kjölfar fundar sem forsætisráðherra átti með hópi afganskra kvenna sem sóttu 67. þing kvennanefndarinnar, CSW67, í mars síðastliðnum um það hvernig þjóðarleiðtogar geta notað raddir sínar, vettvang, áhrif og völd til að styðja afganskar konur.

Ljóst er að þrátt fyrir skelfilegar mannúðarþarfir afgönsku þjóðarinnar og víðtæka fordæmingu alþjóðasamfélagsins hafa yfirvöld haldið áfram árásum sínum á réttindi kvenna með það að markmiði að útrýma konum kerfisbundið úr opinberu lífi.

  • Íslensku ráðherrarnir ásamt þátttakendum á fundinum í gær. Ljósmynd: forsætisráðuneytið - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta