Rætt um þróun og mikilvægi list- og verkgreinakennslu á Íslandi
Skólamálaráð Kennarasambands Íslands og kennarar í list- og verkgreinum héldu fjölsótt málþing um eflingu list- og verkgreinakennslu á dögunum. „Í sögulegu ljósi höfum við Íslendingar forgangsraðað í þágu menntunar. Það er mikilvægt að við gerum það einnig til framtíðar og þar skipta list- og verkgreinar miklu máli,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í ávarpi sínu á málþinginu. Í máli hennar kom fram að huga verði að kennslu í þeim greinum á öllum skólastigum en samkvæmt úttekt Hagstofunnar fái fæstir grunnskólanemendur lögbundinn kennslustundafjölda í list- og verkgreinum samkvæmt lágmarksviðmiðum í aðalnámskrá grunnskólanna frá 2011. Þar hallar ekki síst á unglingastigið.
Hagstofa Íslands aflaði upplýsinga frá grunnskólum landsins að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytis. Hér eru birtar upplýsingar um meðaltal kennslumínútna fyrir skólaárin 2013-2014, 2014-2015 og 2015-2016.
„Fjölbreytni er lykilatriði í skólakerfinu – nemendur verða að hafa val,“ sagði Lilja og áréttaði að ein af ástæðum brottfalls úr skólum væri einsleitni og að nemendur finndu sig ekki í námi. List- og verkgreinar væru grundvöllur fyrir nám af öllu tagi og þar lærðu og þroskuðu nemendur með sér hæfni sem nútímasamfélög kalla eftir í auknum mæli. „Við þurfum nemendur með skapandi hugsun, samvinnuhæfni og frumkvæði. Nú er okkur tíðrætt um „fjórðu iðnbyltinguna“ og sá veruleiki kallar á nýja nálgun og áherslur í menntamálum. Ég hef trú á því að efling list- og verknáms, og almennt meiri fjölbreytni í menntakerfinu muni skila okkur meiri árangri og bættara samfélagi.“