Gróska í íslenskum bókmenntum: nýræktarstyrkir til ungra höfunda
Styrkirnir nema 500.000 kr. hvor og afhenti mennta- og menningarmálaráðherra þá í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins.
„Rithöfundar auðga líf okkar með verkum sínum – með hugmyndum sínum, frumleika, og innsæi. Þeir fanga tímann og hjálpa okkur að skilja söguna og samtímann betur – og þar með okkur sjálf. Ég fagna þessum nýju röddum í íslenskum bókmenntum og óska þeim hjartanlega til hamingju með styrkina,“ sagði ráðherra.
Þetta var í tólfta sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa á sjötta tug höfunda hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi. Metfjöldi umsókna var þetta árið en alls bárust 58 umsóknir að þessu sinni.