Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Standa með konum í Afganistan og Íran

Frelsisskerðing kvenna og stúlkna í Afganistan var til umræðu á morgunverðarfundi kvenkyns utanríkisráðherra í dag. Fundurinn var haldinn í tengslum við Öryggisráðstefnuna í München sem fer fram um helgina og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sækir.

Lýstu ráðherrarnir yfir þungum áhyggjum af stöðu mála og í sameiginlegri yfirlýsingu fordæmdu þær kerfisbundna aðför talibana að réttindum kvenna sem væri ekki einungis alvarlegt mannréttindabrot, heldur stefnir hún framtíð landsins alls í voða.

„Við fordæmum harðlega tilburði talibanastjórnarinnar í þá átt að útiloka konur frá almannafæri: konum er meinað að fara í göngutúra í görðum, þær sjást ekki lengur á sjónvarpsskjám, hafa verið sviptar rétti sínum til að ganga í skóla og sækja sér æðri menntun, og mega nú jafnvel ekki sinna mannúðarstörfum,“ segir í yfirlýsingu ráðherranna.

Ráðherrarnir lýstu einnig stuðningi við þau sem berjast fyrir mannréttindum og frelsi í Íran.

„Ísland hefur hlutverki að gegna þegar kemur að jafnréttismálum. Við getum notað rödd okkar á alþjóðavettvangi til þess að tala fyrir því að konur njóti réttinda til jafns við karla og að öll fáum við notið þeirra grundvallarmannréttinda sem meðal annars eiga að vera tryggð í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stofnsáttmála þeirra. Ísland er ekki fjölmennt ríki en í þessum málaflokki er hlustað eftir rödd okkar, og við ljáum réttlátum málstað kvenna um heim allan stuðning okkar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Ísland hefur ítrekað vakið athygli á slæmri stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan, meðal annars í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, og var meðal ríkja sem kölluðu eftir sérstakri umræðu um stöðu mannréttinda þar í landi á síðasta ári. Þá tók Ísland forystu í samvinnu við Þýskaland um ályktun í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um stofnun sjálfstæðrar og óháðrar rannsóknarnefndar um rannsókn á mannréttindabrotum í Íran í tengslum við útbreidd mótmæli sem hófust á síðasta ársfjórðungi síðasta árs.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta