Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2017 Innviðaráðuneytið

Drög að breytingum á fjarskiptalögum til umsagnar

Drög að frumvarpi um breytingar á fjarskiptalögum eru nú til umsagnar hjá ráðuneytinu. Tilgangur breytinganna er að styrkja lagastoð til að unnt verði að innleiða ákvæði Evrópureglugerðar um nethlutleysi. Umsagnir má senda ráðuneytinu á netfangið [email protected] til og með 6. febrúar næstkomandi.

Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða ákvæði reglugerðar (ESB) 2015/2120 um nethlutleysi, svonefnda Telecoms Single Market-reglugerð. Hluta reglugerðarinnar var unnt að innleiða árið 2016 með reglugerðarbreytingu um alþjóðlegt reiki á fjarskiptanetum. Aftur á móti er nauðsynlegt að styrkja lagastoð vegna ákvæða reglugerðarinnar um nethlutleysi enda er hér um nýmæli að ræða í íslenskri löggjöf.

Nethlutleysi á að stuðla að því að internetið sé áfram vettvangur óheftra boðskipta, nýsköpunar og viðskipta. Reglan um nethlutleysi felur í sér í fyrsta lagi að notendur eiga rétt á að fá aðgang að upplýsingum og efni, miðla því og nota, með búnaði að eigin vali, óháð staðsetningu, uppruna eða áfangastað upplýsinganna, efnisins og þjónustunnar sem um ræðir. Í öðru lagi felst í reglunni skylda á fjarskiptafyrirtæki að meðhöndla netumferð á jafnrsæðisgrundvelli, án mismununar, takmörkunar eða truflunar. Sem dæmi má nefna að fjarskiptafyrirtæki er samkvæmt reglunni ekki heimilt að útiloka eina tegund þjónustu, t.d. símtöl í Skype. Þó eru hugsanlegar undantekningar heimilar á þessari reglu, uppfylli þær tiltekin skilyrði um nauðsyn, gagnsæi og meðalhóf, t.d. ef umferðarstýringarnar eru tæknilega nauðsynlegar.

Frumvarpið var unnið í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun, en stofnunin gerði árið 2016 úttekt á stöðu nethlutleysis meðal fjarskiptafyrirtækja og var þá vakin athygli á fyrirhugaðri innleiðingu á TSM reglugerðinni. Ekki er gert ráð fyrir því að kostnaður hljótist af þessum breytingum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta