Hoppa yfir valmynd
21. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Eftirlit með norrænum læknum eflt

Til þess að koma í veg fyrir að „varhugaverðir“ læknar (farlige læger) séu að störfum, hafa norrænu heilbrigðisráðherrarnir ákveðið að greiða fyrir aðgangi að upplýsingum um fyrri starfsemi lækna sem sækja um læknisleyfi í öðru norrænu ríki, segir í fréttatilkynningu frá norrænu ráðherranefndinni. Verður það gert eigi síðar en um næstu áramót.

„Við erum mjög ánægð með aukna gagnkvæma upplýsingamiðlun sem mun bæta öryggi þeirra sjúklinga sem leita  til læknis frá öðru norrænu ríki“, segir í sameiginlegri yfirlýsingu norrænu heilbrigðisráðherranna eftir fund þeirra í ráðherranefnd félags- og heilbrigðisráðherra í Álaborg í Danmörku.

Hingað til hafa löndin ekki miðlað upplýsingum reglulega um gagnrýni og aukið eftirlit, heimildir, rekstrarhömlur og annað sem varðar læknisþjónustu. Sjúkrahús hafa heldur ekki getað fengið slíkar upplýsingar þegar læknar frá öðrum norrænum ríkjum hafa sótt um störf hjá þeim. Reiknað er þó með að sjúkrahúsin muni áfram leita meðmæla með umsækjendum á sama hátt og aðrir atvinnurekendur, segir í tilkynningunni.

„Með þessu mikilvæga skrefi tryggjum við að stjórnvöld í norrænu ríkjunum  og sjúkrahúsin fái aðgang að upplýsingum um fyrri vandamál sem gætu hafa komið upp í störfum viðkomandi læknis, til að mynda um ákvarðanir, sem leitt hafa til þess að læknir hafi fengið ítrekaðar athugasemdir frá kærunefnd sjúklinga“, segir í yfirlýsingu ráðherranna.

Aukinn aðgangur að upplýsingum mun einnig ná til tannlækna, hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna, segir ennfremur í fréttatilkynningunni.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta