Hoppa yfir valmynd
25. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Sérfræðiþekking betur nýtt með samstarfi

Norðurlöndin hafa áhuga á að vinna saman að því að fyrirbyggja langvinna sjúkdóma og bjóða mjög sérhæfðar meðferðir fyrir fámenna sjúklingahópa, að því er fram kemur í tilkynningu norrænna heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, sem funduðu í Álaborg í Danmörku dagana 21-22. júní. Með samvinnu sé hægt að nýta betur sérfræðiþekkingu og tækni.

Framfarir í læknavísindum og tækni hafi leitt til nýrra og betri læknismeðferða. Á sama tíma hafi tíðni langvinnra sjúkdóma og lífsstílssjúkdóma aukist á Norðurlöndum. Sú þróun valdi því að enn meiri kröfur séu nú gerðar til sérfræðiþekkingar, tækni og fjárfestinga.

„Reynslan sýnir að til þess að meðhöndla flókna sjúkdóma þarf vel þjálfað starfsfólk í öflugum miðlægum einingum. Öflug heilsugæsla sem einnig ber ábyrgð á forvörnum hentar best til að takast á við algengustu sjúkdóma.”

Á ráðherrafundinum var m.a. rætt um fyrirbyggjandi aðgerðir vegna fjölskyldna sem eru félagslega veikburða. Þá skiptust ráðherrarnir á reynslu af meðferð inflúensufaraldra í löndunum, með það að markmiði að bæta möguleika fyrir því að takast á við heimsfaraldra í framtíðinni.

Á fundinum var jafnframt rætt um geðheilbrigðismál. „Geðheilsa hefur almennt mikil áhrif á lýðheilsu. Alls staðar á Norðurlöndum er mikil þörf fyrir  barna- og unglingageðdeildir  og auk þess eru geðræn vandamál oft ástæða þess að fólk fer á lífeyri fyrir aldur fram, svo og ástæða  þess að fólk er frá vinnu.  Norrænu ráðherrarnir leggja mikla áherslu á úrbætur á þessu sviði og vilja setja þessi  mál í forgang á formennskuári Finna í ráðherranefndinni á árinu 2011,” segir í tilkynningu vegna ráðherrafundarins.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta