Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 136/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 136/2023

Fimmtudaginn 24. ágúst 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. mars 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. desember 2022 um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar afturvirkt frá 1. maí 2022 og krefjast endurgreiðslu ofgreiddrar heimilisuppbótar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greidda heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. júlí 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. desember 2022, var kærandi upplýstur um að hann uppfyllti ekki skilyrði greiðslna heimilisuppbótar um að vera einn um heimilisrekstur þar sem að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hafi hann þann 5. apríl 2022 verið skráður sem „hjón samvistum“. Í bréfinu kom auk þess fram að heimilisuppbót yrði stöðvuð frá 1. maí 2022 og hann krafinn um 414.741 kr. ef engin gögn/andmæli bærust. Með bréfi, dags. 16. desember 2022, var framangreindri ákvörðun andmælt, sem var svarað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. janúar 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. mars 2023. Með bréfi, dags. 8. mars 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 20. mars 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. mars 2023. Með bréfi, dags. 4. apríl 2023, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. apríl 2023. Með bréfi, dags. 25. maí 2023, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 31. maí 2023. Með bréfi, dags. 1. júní 2023, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 5. júní 2023. Með bréfi, dags. 9. júní 2023, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 15. júní 2023. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. desember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að stofnunin hefði í hyggju að krefjast endurgreiðslna á greiðslu heimilisuppbótar þar sem stofnunin hafi talið að breyting hefði orðið á högum hans 5. apríl 2022. Kæranda hafi verið veittur frestur til 16. desember 2022 til að koma að andmælum, ella yrði litið svo á að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslu uppbótar frá 1. maí 2022 og því yrði mynduð krafa að upphæð 414.741 kr. vegna tímabilsins 1. maí 2022 til 31. desember 2022.

Með erindi, dags. 16. desember 2022, hafi fyrirhugaðri ákvörðun verið andmælt. Í svarbréfi Tryggingastofnunar, dags. 5. janúar 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að andmælunum hafi verið hafnað. Hafi þar verið vísað til 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð um að heimilt væri að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem byggi einn og væri einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhaglegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra með húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi verið giftur frá árinu 2018, þó hjónin hafi ekki búið saman. Frá þeim tíma sem hjúskapur hafi verið tekinn upp hafi ekki verið til staðar réttur á greiðslu heimilisppbótar, þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt það skilyrði að vera einhleypur lífeyrisþegi. Þegar upplýsingar hafi borist frá Þjóðskrá um breytta stöðu frá og með 4. apríl 2022, þ.e. hjón í samvistum, þá hafi jafnframt komið upplýsingar um að kærandi hefði verið í hjúskap frá árinu 2018 án þess að það hafi verið skilgreint frekar. Á þeim forsendum hafi verið ákveðið að stöðva greiðslur á uppbót frá 1. maí 2022 og endurkrefja um greiðslur fyrir tímabilið frá 1. maí 2022.

Kærandi hafi gengið í hjúskap 4. febrúar 2018 með C, sem sé B ríkisborgari, og hafi þau verið skráð hjá Þjóðskrá sem hjón - ekki í samvistum, í samræmi við 5. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur. Þau hafi ekki verið búsett í sama landi fyrr en [...]. Eiginkona kæranda hafi 4. apríl 2022 sótt um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 70. gr. laga um lögheimili og aðsetur þar sem fjallað sé um hjúskap við íslenskan ríkisborgara. Á þeim tíma hafi kærandi hins vegar ekki notið fjárhagslegs hagræðis af sambýli við eiginkonu sína í skilningi 8. gr. laga um fjárhagslega aðstoð. Sjúkratryggingar hafi auk þess sent kæranda tölvupóst 15. nóvember 2022 þar sem fram komi að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá væri eiginkona kæranda enn ekki fullskráð til landsins og nyti þar af leiðandi ekki sjúkratrygginga hér á landi.

Samkvæmt upplýsingum sem Þjóðaskrá hafi sent kæranda, dags. 15. desember 2022, hafi Útlendingastofnun sent Þjóðskrá tilkynningu um skráningu á dvalarstað/lögheimili hinn 12. október 2022. Fyrir þann tíma hafi eiginkona kæranda ekki verið skráð með lögheimili á sama stað og kærandi.

Samkvæmt 5. gr. laga um lögheimili og aðsetur sé hjónum heimilt að skrá það hvort á sínum staðnum. Samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða þeim sem sé einn um heimilisrekstur „án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað“.

Eiginkona kæranda hafi ekki verið skráð með lögheimili hjá honum fyrr en með tilkynningu Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2022, og hafi því ekki notið fjárhagslegs hagræðis af sambýli við hana fyrir þann tíma. Reyndar hafi eiginkona kæranda þurft að yfirgefa landið 28. desember 2022 og hafi ekki snúið til baka fyrr en mánuði síðar, svo hagræði af sambýli hafi ekki heldur verið þann tíma.

Eiginkona kæranda sé flóttamaður hér á landi. Hún sé hér tímabundið, en lög heimili hjónum að vera skráð “ekki í samvistum“ í þjóðskrá.

Kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 5. janúar 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu heimilisuppbótar, enda samræmist hún ekki túlkun 8. gr. laga um fjárhagslega aðstoð um fjárhagslegt hagræði af sambýli við aðra.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 4. apríl 2023, kemur fram að mál þetta varði afturvirka stöðvun á greiðslu heimilisuppbótar til kæranda frá að telja 1. maí 2022. Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 20. mars 2023, segi að stofnunin telji að breytingar hafi orðið á högum kæranda, hann „væri enn giftur þar sem kærandi var enn giftur samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá.“ Það komi um leið „í veg fyrir það að uppfylla skilyrði til þess að hljóta heimilisuppbót í skilningi laganna.“ Tryggingastofnun telji, með vísan í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, að kærandi hafi notið fjárhagslegs hagræðis af sambýli við eiginkonu sína.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda er greint frá aðdraganda laga um lögheimili og aðsetur sem tóku gildi 1. janúar 2018.

Í greinargerð með frumvarpinu hafi meðal annars komið fram:

„Hjúskaparlögin ganga út frá samvistum hjóna á sameiginlegu heimili og að þau beri jafna ábyrgð á sameiginlegu heimilishaldi sínu. Það telst þó ekki samrýmast nútímaháttum að banna hjónum sem það vilja að þau hafi hvort sitt lögheimilið. Af ýmsum ástæðum eru hjón ekki alltaf í aðstöðu til að eiga sama lögheimili eða beinlínis kjósa að eiga ekki sama lögheimili. Aukin atvinnuþátttaka kvenna, jafnréttissjónarmið, ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópu, alþjóðavæðing og ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um fjórfrelsið, einkum frjálsa fólksflutninga og frjálsa flutninga launþega, styðja áðurgreinda breytingu. Er það sömuleiðis ekki talið samrýmast ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar að skylda hjón til að eiga sameiginlegt lögheimili sem og 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar. Tillaga þessi tekur auk þessa mið af þingsályktun Alþingis frá 7. september 2016.“

Ljóst sé að kærandi hafi ekki haft hagræði af sambýli við eiginkonu sína. Hún hafi ekki fengið fjárhagsstuðning frá íslenskum stjórnvöldum, sem flóttamaður væri, þó hún hefði […].

Tryggingastofnun haldi því fram að í málinu liggi fyrir „að kærandi [væri] skráður í sambúð samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá og [hefði] kærandi ekki neitað því. Samkvæmt skilgreiningu á orðinu einhleypur í Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt er á netinu og unnin hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þá er um að ræða einstakling sem er hvorki í sambúð né hjónabandi.“

Staðhæfing þessi sé fjarri lagi. Slíkt samrýmist enda ekki ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar að skylda hjón til að eiga sameiginlegt lögheimili sem og 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar. Málatilbúnaður Tryggingastofnunar samrýmist þannig ekki stjórnarskrá.

Farið sé fram á við úrskurðarnefnd velferðarmála að kröfu Tryggingastofnunar verði hrundið og staðfest að kærandi hafi haft rétt til þess að vera skráður „hjón ekki í samvistum“ enda sé það í samræmi við stjórnarskrána. Kærandi hafi ekki verið skráður samkvæmt Þjóðskrá Íslands, að ósk Útlendingastofnunar, í sambúð með eiginkonu sinni fyrr en 12. október 2022. Fram að þeim tíma hafi hún verið ósjúkratryggð og hafi ekki notið réttinda hjá opinberum aðilum á Íslandi. Gögn sýni fram á það.

Hér sé farið fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála vísi máli þessu aftur til meðferðar hjá Tryggingastofnun til endurákvörðunar.

Í viðbótarathugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 1. júní 2023, kemur fram að í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar sé vísað til dóms Landsréttar í máli nr. 207/2022 þar sem A hafi höfðað mál gegn stofnuninni og krafist þess að ógilt yrði sú ákvörðun Tryggingastofnunar að synja henni um heimilisuppbót.

Bent sé á að dómur Landsréttar nr. 207/2022, dags. 25. maí 2023, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 14. febrúar 2022 í málinu nr. E-[...]/2021, sé í grundvallaratriðum ólíkur máli kæranda. Í fyrrgreindum dómi sé um að ræða einstaklinga sem í þjóðskrá hafi verið skráðir í sambúð, á meðan að kærandi hafi verið í þjóðskrá skráður „hjón ekki í samvistum” í samræmi við ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur. Með greinargerð frumvarpsins um 5. gr. komi fram að það séu nýmæli í frumvarpinu að hjón megi eiga hvort sitt lögheimilið kjósi þau það.

Kærandi og eiginkona hans hafi ekki verið í sambúð hér á landi, líkt og lög heimili. Í byrjun árs 2018 hafi þau gifst hér á landi og hafi alla tíð verið skráð í þjóðskrá sem „hjón – ekki í samvistum“ enda búsett í hvort í sínu landinu. Um sé að ræða vel menntaða konu sem hafi verið yfirmaður hjá D í C og sé í raun þar starfandi enn. Það hafi ekki verið fyrr en […] í C að hún hafi flúið land til Íslands, en hafi snúið aftur til C stuttu síðar í von um að […]. Kærandi hafi alls ekkert hagræði haft af komu eiginkonu sinnar hingað til lands, enda hafi hún ekki sótt um vernd flóttamanns. Hún hafi komið hingað til lands í fyrstu til að leita skjóls hjá eiginmanni sínum, án þess að um væri að ræða sambýli, en hafi komið síðla árs til samvista við eiginmann sinn vegna ótta um áframhaldandi […]. Kærandi hafi andmælt því að hann hafi notið fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við eiginkonu sína um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Hún hafi í fyrstu komið til Íslands á flótta frá C, en síðan hafi hún ákveðið að dvelja hér á landi um stund, þó hún vonist til þess daglega að geta snúið til heimalandsins. Ljóst sé að kærandi hafi ekki hagræði af sambýli við eiginkonu sína. Hún hafi ekki fengið fjárhagsstuðning frá íslenskum stjórnvöldum, sem flóttamaður væri, þó hún hefði flúið […] heimaland sitt. Kærandi hafi ekki verið skráður samkvæmt Þjóðskrá Íslands í sambúð með eiginkonu sinni fyrr en 12. október 2022, eins og gögn málsins beri með sér. Fram að þeim tíma hafi eiginkona kæranda verið ósjúkratryggð hér á landi og hafi ekki notið réttinda hjá opinberum aðilum hérlendis.

Málatilbúnað Tryggingastofnunar í máli þessu sé fráleitur. Hafna beri kröfum Tryggingastofnunar um afturvirka endurgreiðslu á heimilisuppbót sem hafi verið greidd á þeim tíma er kærandi hafi ekki í verið samvistum við eiginkonu sína, enda hafi hún verið búsett í C á meðan kærandi hafi verið búsettur á Íslandi. Krafa Tryggingastofnunar samrýmist þannig ekki ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar um að skylda hjón til að eiga sameiginlegt lögheimili, sbr. einnig 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar. Því beri að fella synjun stofnunarinnar um greiðslu heimilisuppbótar og afturvirka kröfu um endurgreiðslu úr gildi.

Hér með sé þess því farið á leit við úrskurðarnefnd velferðarmála að málatilbúnaði Tryggingastofnunar verði hrundið og staðfest að kærandi hafi haft rétt til þess að vera skráður „hjón ekki í samvistum“ enda sé það í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Kærandi hafi ekki verið skráður samkvæmt Þjóðskrá Íslands í sambúð með eiginkonu sinni fyrr en 12. október 2022. Fram að þeim tíma hafi hún meðal annars verið ósjúkratryggð hér á landi og ekki notið réttinda hjá opinberum aðilum á Íslandi. Framlögð gögn sýni fram á það.

Ítrekuð sé fyrri krafa um að úrskurðarnefnd velferðarmála felli ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins úr gildi og sendi stofnuninni málið að nýju til endurákvörðunar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé stöðvun heimilisuppbótar frá 1. maí 2022 og endurkrafa frá sama degi og til 31. desember 2022.

Málavextir séu þeir að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. desember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun heimilisuppbótar frá 1. maí 2022 þar sem stofnunin teldi að breyting hefði orðið á högum kæranda og að stofnunin myndi krefjast endurgreiðslu heimilisuppbótar. Miðað við upplýsingar Tryggingastofnunar á þeim tíma hafi verið ljóst að kærandi væri enn giftur samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá. Kæranda hafi verið veittur frestur til að koma að andmælum til 16. desember 2022 ella yrði litið svo á að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar frá 1. maí 2022 og því yrði mynduð krafa að upphæð 414.741 kr. vegna umrædds tímabils. Kærandi hafi andmælt fyrirhugaðri ákvörðun með bréfi, dags. 16. desember 2022, sem hafi verið svarað með bréfi, dags. 5. janúar 2023, þar sem honum hafi verið tilkynnt að andmælum hafi verið hafnað. Vísað hafi verið í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð um að heimilt væri að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem byggi einn og væri um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra með húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða einhleypingi, sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.

Í 13. og 14. gr. laga um félagslega aðstoð segi að ákvæði laga um almannatryggingar gildi um bætur laganna. Þá sé nánar fjallað um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í reglugerð nr. 1200/2018.

Samkvæmt 45. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skuli Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Í 2. mgr. 45. gr. laganna komi fram að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Í 3. mgr. sömu greinar komi fram að leiki rökstuddur grunur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi sé heimilt að fresta greiðslum tímabundið meðan mál sé rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 55. gr. laganna.

Í 49. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um réttarstöðu sambýlisfólks en þar segi að einstaklingar sem séu í óvígðri sambúð, sbr. 7. tölul. 2. gr., njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og hjón samkvæmt lögum þessum.

Kærandi nefni að samkvæmt 5. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur sé hjónum heimilt að skrá það hvort á sínum staðnum. Það sé rétt en hins vegar samrýmist það ekki meginforsendum þess að skilyrði heimilisuppbóta séu uppfyllt. Eitt meginskilyrði þess sé að vera einhleypur og ef hjón séu skrásett sem slík í þjóðskrá þá gildi það og ekkert annað. Engin heimild sé til þess að búa á hvort á sínum stað, vera skráð sem hjón og samt að reyna að óska eftir heimilisuppbót.

Kærandi hafi fengið greidda heimilisuppbót frá 1. maí 2022. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi verið í sambúð frá og með 5. apríl 2022, þ.e. hjón í samvistum. Kærandi hafi gengið í hjúskap 4. febrúar 2018 með C og hafi þau verið skráð hjá Þjóðskrá sem hjón ekki í samvistum í samræmi við 5. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur. Þau hafi ekki verið búsett í sama landi fyrr en eiginkona kæranda hafi flúið land sitt.

Eiginkona kæranda hafi sótt um dvalarleyfi í landinu á grundvelli 70. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga þar sem fjallað sé um hjúskap við íslenskan ríkisborgara. Kærandi hafi tekið fram að á þeim tíma hafi hann ekki notið hagræðis af sambýli við eiginkonu sína í skilningi 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Það hafi þó ekki með málið beint að gera þar sem kærandi og C hafi samt sem áður verið skráð sem hjón í þjóðskrá og komi það um leið í veg fyrir það að uppfylla skilyrði til þess að hljóta heimilisuppbót í skilningi laganna.

Samkvæmt skilgreiningu á orðinu einhleypur í Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt sé á netinu og unnin hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þá sé um að ræða einstakling sem sé hvorki í sambúð né hjónabandi. Kærandi eigi því ekki rétt á heimilisuppbót frá því að hann hafi gengið í hjónaband.

Tryggingastofnun telji ljóst að stöðvun á heimilisuppbót til kæranda og endurkrafa hennar hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. maí 2023, komi fram að öll gögn málsins, bæði ný og gömul, hafi verið yfirfarin af sérfræðingum stofnunarinnar og ekkert í þeim breyti niðurstöðunni um að synja áfram kæranda um heimilisuppbót.

Það sé ljóst að kærandi sé í hjónabandi samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá, sem hann hafi staðfest sjálfur. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi staðfest að skilyrði laganna um að vera einhleypur eigi ekki við um þá einstaklinga sem séu í hjúskap, þrátt fyrir að búa ekki saman, sbr. úrskurði í málum nr. 469/2017, 57/2019 og 185/2020, þá hafi Landsréttur staðfest það einnig í máli nr. 207/2022.

Tryggingastofnun telji ljóst að stöðvun á heimilisuppbót til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, þar sem ekki sé hægt að veita heimilisuppbót til einstaklinga sem skráðir séu í hjónaband. Tryggingastofnun ítreki fyrri niðurstöður og leggur málið í úrskurð nefndarinnar.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. júní 2023, komi fram að í athugasemdum lögmanns kæranda sé um misskilning að ræða á lagalegri túlkun þeirrar réttarstöðu að vera skráður „hjón“ í þjóðskrá. Þetta mál snúist ekki um réttaróvissu varðandi gildi skráningar í þjóðskrá á grundvelli lögheimilislaga nr. 80/2018. Ekki heldur það hvort 1. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð sé eðlileg, sanngjörn eða hallkvæm regla og hvort hún stuðli að samræmi innan réttarskipunarinnar. Einfaldlega sé framangreint lagaákvæði túlkað ávallt eins og auk þess sé skýrt hver skilyrði heimilisuppbótar séu samkvæmt lögum og ljóst í lögum og reglum að einstaklingur skráður í hjúskap hjá þjóðskrá hafi ekki heimild til uppbótarinnar. Ekki hafi áhrif hvort einstaklingurinn búi einn eða ekki.

Tryggingastofnun telji ljóst að stöðvun  heimilisuppbótar til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, þar sem ekki sé hægt að veita heimilisuppbót til einstaklinga sem skráðir séu í hjónaband. Tryggingastofnun ítreki fyrri niðurstöður í greinargerð og viðbótargreinargerð.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu heimilisuppbótar frá 1. maí 2022.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingu, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í þágildandi 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.

Samkvæmt þágildandi 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar, sem var í V. kafla laganna, er greiðsluþega skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Um eftirlit og viðurlög er fjallað í þágildandi 45. gr. laganna sem var jafnframt í þágildandi V. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Einnig segir í þágildandi 2. mgr. 45. gr. að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma betur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Þá segir í þágildandi 2. málsl. 3. mgr. ákvæðisins að um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt þágildandi 55. gr. Ákvæði þágildandi 1. mgr. 55. gr. laganna hljóðar svo:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt kæranda heimilisuppbót frá 1. júlí 2021. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá var þann 4. febrúar 2018 skráð að kærandi hafi gifst þann 1. mars 2018 og auk þess þá var hann skráður sem „hjón ekki í samvistum“. Hjúskaparstöðu kæranda var breytt í þjóðskrá 5. apríl 2022 í „giftur“ með gildistöku frá 1. maí 2022.

Eins og komið hefur fram þarf að uppfylla öll skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð til að eiga rétt á heimilisuppbót. Tryggingastofnun ríkisins stöðvaði greiðslu heimilisuppbótar á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 8. gr. laganna um að vera einhleypur. Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem fram kemur í Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt er á netinu og unnin hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, merkir orðið einhleypur einstaklingur sem hvorki er í sambúð né í hjónabandi. Samkvæmt gögnum málsins kvæntist kærandi 4. febrúar 2018. Af ákvæði 8. gr. laga um félagslega aðstoð leiðir að einstaklingur telst ekki eiga rétt á heimilisuppbót nema viðkomandi sé einhleypur. Þar sem kæranda var sannarlega giftur þegar ákvörðun Tryggingastofnunar var tekin 2. desember 2022 uppfyllti kærandi ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar.

Kærandi byggir á því að hann hafi ekki notið fjárhagslegs hagræði af sambýli við eiginkonu sína þar sem að hún hafi ekki verið skráð með lögheimili hjá honum fyrr en með tilkynningu Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2022, þ.a.l. hafi hann fyrir þann tíma ekki notið fjárhagslegs hagræðis af sambýli við hana. Auk þess bendir kærandi á að hún hafi þurft að yfirgefa landið 28. desember 2022 og hafi ekki komið til baka fyrr en mánuði síðar og því hafi ekki verið hagræði af sambýli við hana á því tímabili. Þá er einnig vakin athygli á því að eiginkona kæranda hafi á þessum tíma ekki notið sjúkratrygginga á Íslandi.

Úrskurðarnefndin telur ljóst að það sé skýrt skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt lagaákvæðinu að umsækjandi sé einhleypur. Þar sem kærandi var í hjónabandi uppfyllti hann þegar af þeirri ástæðu ekki umrætt skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar. Því verður hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi með vísan til framangreindra málsástæðna kæranda.

Kærandi byggir auk þess á því að Tryggingastofnun hafi brotið gegn 65. gr. og 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Í 65. gr. stjórnarskárinnarsegir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþátta, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá segir í 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar allir, sem dveljast löglega í landinu, skuli ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem séu settar með lögum. Úrskurðarnefnd telur að framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar komi ekki í veg fyrir að löggjafanum sé heimilt að setja í lög ákvæði þar sem sett séu ákveðin skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að einstaklingar öðlist rétt samkvæmt almannatryggingakerfinu. Skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð þess efnis að einstaklingur þurfi að vera einhleypur á við um alla umsækjendur um heimilisuppbót. Úrskurðarnefndin telur því að ekkert bendi til annars en að heimilisuppbót sé veitt á jafnræðisgrundvelli.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð á umdeildu tímabili.

Í hinni kærðu ákvörðun er kveðið á um endurkröfu á ofgreiddri heimilisuppbót. Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess að í þágildandi 1. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um þá meginreglu að stofnunin skuli endurkrefja um ofgreiddar bætur. Fyrir liggur að Tryggingastofnun greiddi kæranda heimilisuppbót sem hann átti ekki rétt á. Tryggingastofnun á því endurkröfurétt á hendur kæranda samkvæmt almennum reglum, sbr. þágildandi 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar, þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði greiðslna á umdeildu tímabili.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. desember 2022 um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda og endurkrefja hann um ofgreiddar bætur frá 1. maí 2022 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, og endurkrefja um ofgreiddar bætur frá 1. maí 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta