Skýrsla kostnaðarnefndar vegna tilflutnings þjónustu við fatlaða til sveitarfélaga
Úr formála skýrslunnar:
Hér á eftir er skýrsla nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði 27. ágúst 1997 til að meta fjárhagsleg áhrif yfirtöku sveitarfélaga á þjónustu við fatlaða og gera tillögur um hvernig sveitarfélögum verði bætt þau útgjöld.
Nefndin hefur lagt mat á þau útgjöld sem flytjast til sveitarfélaga vegna yfirtöku þeirra á þjónustu við fatlaða og önnur kostnaðaráhrif frumvarps til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, svo sem vegna þjónustu við langveik börn og aðstoðar við íslenska ríkisborgara erlendis. Samtals áætlar nefndin að útgjöld sveitarfélaga muni aukast um tæplega 4,4 milljarða króna vegna þessara verkefna. Fjárhæðin svarar til 1,16% af áætluðum álagningarstofni útsvars á árinu 2000.
Ójöfn dreifing fatlaðra milli sveitarfélaga hefur þau áhrif að útgjaldaþörf þeirra er mjög mismunandi og því er svigrúm til almennrar tekjutilfærslu með auknum hlut sveitarfélaga í staðgreiðslunni takmarkað. Með almennri tekjutilfærslu er að hámarki unnt að skila til sveitarfélaga um 20% fjárhæðarinnar en um 80% hennar þarf að renna í jöfnunarsjóð svo unnt verði að jafna mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaganna. Um tilfærslu tekna til sveitarfélaga leggur nefndin til að þrjár leiðir verði einkum skoðaðar.
Um þessar niðurstöður eru nefndarmenn sammála. Fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga vill taka fram að hinu nýja frumvarpi fylgja óhjákvæmilega óvissuþættir sem ekki er unnt að leggja beint fjárhagslegt mat á. Þessir óvissuþættir tengjast bæði tilfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga og hertum skyldum sveitarfélaga til að veita félagsþjónustu. Um þessa óvissu við kostnaðarmat fjallar hann sérstaklega í bókun í fylgiskjali 1.