Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2000 Forsætisráðuneytið

A-090/2000 Úrskurður frá 6. janúar 2000

ÚRSKURÐUR



Hinn 6. janúar 2000 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-90/2000:


Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 20. desember sl., kærði [A], blaðamaður á [B] synjun landbúnaðarráðuneytisins, dagsetta 23. nóvember sl., um að veita honum aðgang að kaupsamningi um jörðina [C], dagsettum 6. nóvember 1998.

Með bréfi, dagsettu 23. desember sl., var landbúnaðarráðuneytinu veittur frestur til að gera athugasemdir við kæru þessa og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 30. desember sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrði látið í té sem trúnaðarmál afrit af þeim kaupsamningi, sem kæran laut að, innan sama frests. Úrskurðarnefnd barst umsögn landbúnaðarráðuneytisins, dagsett 29. desember sl., innan tilskilins frests ásamt umbeðnu afriti.

Málsatvik

Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með bréfi, dagsettu 17. nóvember sl., fór kærandi fram á að fá afrit af kaupsamningi vegna sölu á ríkisjörðinni [C], dagsettum 6. nóvember 1998. Jafnframt fór hann í sama bréfi fram á að fá afrit af leigusamningi vegna sömu jarðar, útgefnum 11. júní 1993.

Með bréfi landbúnaðarráðuneytisins til kæranda, dagsettu 23. nóvember sl., var beiðni hans synjað á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í bréfi ráðuneytisins var vísað til þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði í úrskurðum sínum frá 12. maí 1997 í málinu nr. A-12/1997 og frá 15. desember 1997 í málinu nr. A-34/1997 skýrt þetta ákvæði upplýsingalaga svo, að upplýsingar um kaup- og söluverð fasteigna og lausafjár, svo og upplýsingar um greiðsluskilmála í slíkum samningum, væru þess eðlis að sanngjarnt væri og eðlilegt að takmarka að þeim aðgang. Ætti það jafnt við um ríkið þegar það kæmi fram sem hver annar einkaaðili við kaup og sölu slíkra eigna. Þær takmarkanir féllu þó niður ef samningum um slík viðskipti hefði verið þinglýst, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga og 9. gr. reglugerðar nr. 284/1996 um þinglýsingar, sbr. þinglýsingalög nr. 39/1978. Með því að umbeðnum gerningum hefði ekki verið þinglýst var erindi kæranda synjað.

Í kæru til úrskurðarnefndar, dagsettri 20. desember sl., var synjun ráðuneytisins um að veita aðgang að nefndum kaupsamningi skotið til nefndarinnar, en synjun þess um aðgang að leigusamningi um sömu jörð var ekki borin undir hana. Í kærunni var sérstaklega bent á að almannahagsmunir stæðu til þess að veita aðgang að umbeðnum samningi með því að jörðin hefði verið seld án undangenginnar auglýsingar.

Í umsögn landbúnaðarráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 29. desember sl., var rökstuðningur ráðuneytisins í bréfi þess til kæranda áréttaður.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Vegna ummæla í kæru þess efnis, að almannahagsmunir standi til þess að aðgangur skuli veittur að hinu umbeðna skjali, verður ekki talið að markmið með beiðni um aðgang að upplýsingum skipti máli við skýringu á upplýsingalögum, hvorki til rýmk-unar né þrengingar á upplýsingarétti almennings.

Í 3. gr. laganna segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Þær undanþágur, sem þar er að finna, ber að skýra þröngt.

Í 5. gr. laganna segir: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á því hvaða fjárhagsmálefni einstaklinga séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þau fari leynt, að óheimilt sé að veita upplýsingar um tekjur og fjárhags-stöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild.

Með hliðsjón af síðastgreindu orðalagi hefur úrskurðarnefnd litið svo á að komi ríki eða sveitarfélög fram eins og hverjir aðrir einkaaðilar við kaup og sölu fasteigna og lausafjár séu upplýsingar um kaup- eða söluverð, svo og upplýsingar um greiðslu-skilmála, þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt skv. 5. gr. upplýsingalaga. Í því máli, sem hér er til úrlausnar, kom landbúnaðarráðuneytið hins vegar ekki fram eins og hver annar einstaklingur eða einkaaðili. Ástæðan er sú að í kaupsamningum, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, er sala á þeirri jörð, sem um er að ræða, gerð með fyrirvara um að Alþingi veiti "nauðsynlega lagaheimild til sölunnar", eins og orðrétt segir í samningnum.

Þegar svo stendur á verða hagsmunir kaupanda af því, að kaupverði og öðrum kaupskilmálum sé haldið leyndum, að víkja fyrir meginreglu 1. mgr. 3. gr. upp-lýsinga-laga. Í því tilviki skiptir ekki máli hvort skjali hefur verið þinglýst eða ekki. Samkvæmt því ber að fella hina kærðu ákvörðun landbúnaðar-ráðuneytisins úr gildi og veita kæranda aðgang að kaupsamningnum.

Úrskurðarorð:

Landbúnaðarráðuneytinu ber að veita kæranda, [A], aðgang að kaupsamningi um jörðina [C], dagsettum 6. nóvember 1998.


Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta