Hoppa yfir valmynd
31. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2008

Föstudaginn 31. október 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 30. júlí 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, ódagsett.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 6. júlí 2008 um að synja umsókn kæranda um töku fæðingarorlofs og greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði tímabilið 30. júní - 5. ágúst 2008.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Varðandi feðraorlof dóttur minnar sem fæddist X. desember 2006.

Ég átti inni 5 vikur af feðraorlofinu mínu þetta árið og ákvað að taka það núna í júlí. Var alveg viss um að ég hefði til X. desember 2008 eða 2 ár. Er ekki alveg viss af hverju en bæði ég og konan vorum einhvern veginn alveg viss um að ég hefði 2 ár. Ég reyndar hringdi í fæðingarorlofssjóð fyrir sumarið til að vera alveg viss um að þetta væri nú allt í lagi og fékk þau svör að þetta væri ekkert mál ég ætti 5 vikur og gæti tekið þær í sumar, þannig þar fór allur vafi ef einhver var. Þannig að ég fór rólegur í frí. Hafði reyndar hugsað um að taka viku í byrjun júní en fékk þau svör að ég þyrfti að taka tvær vikur í senn og best væri að taka allt í júlí ástæðan náttúrulega að börnin eru bæði í sumarfríi úr leikskóla og dagmömmu í júlí, konan á ekki svo mikið frí inni í vinnunni sinni þar sem hún byrjaði að vinna í október. Ef ég hefði áttað mig á stöðunni fyrr hefði ég tekið út hluta í lok maí og byrjun júní þar sem við fórum í viku frí þá. Ég er í þannig vinnu að ég á ekkert orlof inni, þarf að taka launalaust frí þannig þetta var náttúrulega tilvalið og við gerðum ráð fyrir þessu.

Ég fer svo í sumarbústað í byrjun júlí í eina viku, kem svo heim að undirbúa börnin í ferðalag til ömmu og afa og fékk þá bréfið í pósti, ég fékk sjokk, veröldin hrundi eins og spilaborg. Feðraorlofið var runnið út hún varð 18 mánaða X. júní. Hafði bara 18 mánuði. Ég hringdi strax í fæðingarorlofssjóð og talaði við góða konu í símann og útskýrði allt fyrir henni og hún benti mér á að senda kærurétt. Ég er náttúrulega í hræðilegum málum þar sem ég á ekki frí inni og var búin að stóla á þetta.

Það munar ekki nema mánuði hjá mér. Hún er 18 mánaða þegar ég tek fríið en verður 19 mánaða. Ég var búinn að hringja tvisvar í fæðingarorlofssjóð til að vera viss um að þetta væri allt rétt sem ég var að hugsa. Fékk þau svör að ég átti 5 vikur inni og gat tekið þær núna í júlí. Ég hefði reynt að nýta mér allavega hluta fyrir X. júní hefði ég áttað mig á þessu fyrr. Ég er alveg í hræðilegum málum ef ég fæ ekkert af þessum 5 vikum. Er eitthvað hægt að gera fyrir mig?. “

 

Með bréfi, dagsettu 26. ágúst 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 6. september 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 8. nóvember 2006, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði, vegna barns sem fæddist X. desember 2006.

Auk umsóknar kæranda hafa borist 3 tilkynningar um fæðingarorlof, dags. 16. nóvember 2006, 20. júní 2007 og 30. júní 2008. Launaseðlar fyrir október – nóvember 2006. Vottorð um áætlaðan fæðingardag, dags. 10. október 2006. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar Þjóðskrá.

Þann 14. maí 2008 hringdi kærandi í Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóð og fékk þær upplýsingar að hann ætti eftir 27 daga af fæðingarorlofinu áður en það rynni út, sbr. útprentun úr samskiptasögu stofnunarinnar við kæranda.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 6. júlí 2008, var honum tilkynnt að ekki væri unnt að samþykkja umsókn hans um fæðingarorlof fyrir tímabilið 30. júní – 5. ágúst 2008, sbr. tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs dags. 30. júní 2008, þar sem réttur hans til fæðingarorlofs með barninu hefði fallið niður þann X. júní 2008.

Í 2. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000, sbr. 2. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar falli niður er barn nái 18 mánaða aldri.

Barn kæranda fæddist X. desember 2006 og féll því, samkvæmt framangreindu lagaákvæði, réttur kæranda til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sjálfkrafa niður er barn hans náði 18 mánaða aldri þann X. júní 2008.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof er ekki að finna neina undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 8. gr. um að heimilt sé að greiða fæðingarorlof vegna fæðingar barns eftir að barn nær 18 mánaða aldri nema í þeim tilvikum þegar barn hefur verið ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur, sbr. 4. mgr. 8 gr. laga nr. 95/2000 sbr. 2. gr. laga nr. 90/2004. Ekki verður séð að sú undanþága eigi við í tilviki kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um eftirstöðvar fæðingarorlofs sbr. synjunarbréf til hans, dags. 6. júlí 2008.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. september 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir frá kæranda hafa ekki borist.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 6. júlí 2008, um að synja umsókn kæranda um töku fæðingarorlofs og greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði tímabilið 30. júní til 5. ágúst 2008.

Með umsókn dagsettri 8. nóvember 2006 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna barns síns sem fæddist X. desember 2006. Samkvæmt tilkynningum um fæðingarorlof dagsettum 16. nóvember 2006 og 20. júní 2007 hafði kærandi tilkynnt um töku fæðingarorlofs í einn mánuð frá fæðingu barns og frá 28. júní til 1. ágúst 2007. Þann hluta orlofsins sem eftir var hugðist hann taka á tímabilinu 30. júní til 5. ágúst 2008.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 2. gr. laga nr. 90/2004 um breytingu á þeim lögum, fellur réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar niður er barn nær 18 mánaða aldri. Ekki er að finna undanþágu frá því nema þegar um er að ræða barn sem hefur verið ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur sbr. 4. mgr. 8. gr. ffl., sbr. 2. gr. laga nr. 90/2004.

Barn kæranda náði 18 mánaða aldri þann X. júní 2008 og féll réttur kæranda því niður þann dag samkvæmt ofangreindu ákvæði 2. mgr. 8. gr. ffl.

Fram kemur í kæru að kærandi telur sig hafa fengið þær upplýsingar hjá Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði að best væri að hann tæki allt orlofið sem eftir væri í júlí, þ.e. eftir að barn hans hafði náð 18 mánaða aldri. Hafi hann hringt tvívegis í stofnunina til að vera viss um að allt væri rétt. Taldi hann sig hafa tvö ár frá fæðingu barnsins að því er fram kemur í kærunni. Samkvæmt útprentun af samskiptasögu Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs við kæranda er skráð að kærandi hafi hringt þann 14. maí 2008 til að athuga hve marga daga hann ætti eftir þ.e. 27 daga.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Foreldri getur eigi öðlast rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli ffl. vegna rangra eða ófullnægjandi upplýsingar afgreiðsluaðila þótt sannaðar væru. Ágreiningur um hugsanlegan rétt foreldris sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að það hafi fengið rangar upplýsingar hjá afgreiðsluaðila ræðst af almennum reglum skaðabótaréttarins og fellur því ekki undir valdsvið nefndarinnar að úrskurða um slíkan ágreining.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn A um töku fæðingarorlofs og greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði tímabilið 30. júní til 5. ágúst 2008 er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta