Hoppa yfir valmynd
4. desember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2008

Fimmtudaginn 4. desember 2008

 

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 4. september 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 28. ágúst 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 18. júní 2008 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Í sveitarfélaginu sem ég bý í var bara í boði fyrir mig hálfsdagsvinna og tók ég henni þar til mér byðist 100% starf. Ég fékk atvinnuleysisbætur á móti launum vinnunnar. En þegar ég fer svo í fæðingarorlof fæ ég 80% af hálfsdagsvinnunni en atvinnuleysisbætur eru ekki metnar með. Ef sonur minn hefði fæðst 1. júní þá hefðu þær verið metnar en hann er fæddur X. maí 2008. Ég fékk ekki að vita af kærurétti fyrr en í lok ágúst og vonast ég til að fá leiðréttingu sem fyrst því það vantar 50% á laun mín í dag.“

 

Með bréfi, dagsettu 16. september 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 29. september 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 18. júní 2008, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 25. maí 2008 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hennar samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2006 og 2007.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Í 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er skilgreint hvað skuli teljast til gjaldstofns tryggingagjalds. Í 1. mgr. 6. gr. kemur fram að stofn til tryggingagjalds séu allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tl. A – liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 7. og 8. gr. laga um tryggingagjald er frekari upptalning hvað teljist til gjaldstofns tryggingagjalds skv. 6. gr. laganna og í 9. gr. er upptalning á hvaða greiðslur séu undanþegnar tryggingagjaldi. Í 4. tl. 9. gr. kemur fram að atvinnuleysisbætur séu undanþegnar greiðslu tryggingagjalds og í 1. og 2. tl. kemur fram að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins séu undanþegnar tryggingagjaldi. Ber því að undanskilja þær við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda.

Barn kæranda fæddist X. maí 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar fyrir þá mánuði á árunum 2006 og 2007 sem kærandi var starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árunum 2006 og 2007. Í janúar – ágúst 2006 var kærandi utan vinnumarkaðar og á atvinnuleysisbótum og ber því að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar. Kærandi þáði atvinnuleysisbætur mánuðina september, október og desember 2006 og mars, maí – júlí og desember 2007. Ber að undanskilja þær greiðslur við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar. Kærandi þáði einnig greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins allt tímabilið og ber einnig að undanskilja þær greiðslur við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar. Kærandi var starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli frá september 2006 – desember 2007 og ber því að hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar svo og þær tekjur sem greitt var tryggingagjald af.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að bréf, dags. 18. júní 2008, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 8. október 2008, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 18. júní 2008.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku breytingalaga nr. 74/2008, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Barn kæranda er fætt þann X. maí 2008. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna hennar eru því skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. tekjuárin 2006 og 2007. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki í starfi á vinnumarkaði mánuðina janúar til júlí 2006 og er óumdeilt að ekki skuli reikna með þessum mánuðum við útreikning meðaltals heildartekna hennar og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Mánuðina september 2006 til desember 2007 var hún hins vegar í hlutastarfi og fékk samhliða launagreiðslum greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins er óumdeilt að kærandi var í starfi á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfshlutfalli mánuðina september 2006 til 31. desember 2007. Skal því reikna með þessum mánuðum við útreikning meðaltals heildarlauna hennar og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Krafa kæranda er að atvinnuleysisbætur til hennar vegna þessa tímabils verði teknar með við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar árin 2006 og 2007 og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með 1. gr. reglugerðar nr. 123/2007, um breytingu á reglugerð nr. 1056/2004, var fellt niður ákvæði 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. sem kvað á um að auk launa og þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald teldust til launa greiðslur skv. a-d-liðum 3. gr. reglugerðarinnar. Eftir þá niðurfellingu töldust aðeins til launa þau laun og aðrar þóknanir sem mynda stofn til greiðslu tryggingagjalds, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. Atvinnuleysisbætur sem kærandi fékk greiddar verða því ekki taldar með við útreikning meðaltals heildarlauna hennar og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem atvinnuleysisbætur eru undanþegnar greiðslu tryggingagjalds, sbr. 4. tölul. 9. gr. laga um tryggingagjald, nr. 113/1990.

Með lögum nr. 74/2004 urðu meðal annars breytingar á 2. mgr. 13. gr. ffl. Samkvæmt 22. gr. laganna tóku þau gildi þann 1. júní 2008 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur 1. júní 2008 eða síðar. Barn kæranda er fætt eins og áður er komið fram þann X. maí 2008. Breytingar sem urðu með þeim lögum geta því ekki haft áhrif á niðurstöðu í þessu máli.

Með hliðsjón af framanrituðu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta